Greinasafni: Orka
Orkuveita Húsavíkur

Upphleyping holu ÞG3 á Þeistareykjum 2006

Orkuveita Húsavíkur varð til við samruna rafvatns- og hitaveitu bæjarins þann 1. janúar 1996. Í kjölfar lagasetningar á Alþingi árið 2005 tók Orkuveita Húsavíkur ehf. við einkarétti Orkuveitu Húsavíkur til starfrækslu hita-, raf- og vatnsveitu á Húsavík og yfirtók skyldur tengdar rekstri þeirra sem kveðið var á um í öðrum lögum. Megintilgangur Orkuveitu Húsavíkur ehf. er vinnsla, framleiðsla og dreifing raforku, varma og vatns, ásamt orkurannsóknum. Árið 1917 var byggð 50 kW rafstöð við Búðará sem er lítil á sem rennur um Húsavíkurbæ en rekstur stöðvarinnar er talinn hefjast 15. ágúst 1919. Uppistöðulón þessarar gömlu virkjunar er nú miðdepill skrúðgarðs Húsvíkinga. Árið 1946 hófst endurnýjun útikerfis með byggingu spennistöðva og 6 kW dreifingar. Sumarið 1947 var núverandi 30 kW lína lögð frá Laxárvirkjun til Húsavíkur. Orkustöð var tekin í notkun árið 2000 og framleiðir hún raforku úr 120°C heitu vatni frá Hveravöllum. Aflgeta stöðvarinnar er 1,7 MW, og getur stöðin framleitt um 70% af raforkuþörf Húsavíkur. Vatnsveita var lögð árið 1926 á Húsavík en núverandi vatnsból var tekið í notkun 1947. Lögð var ný lögn frá vatnsbóli að Orkustöð á Kaldbaksleiti, árið 2000. Virkjað vatn í vatnsbóli er nú um 380 l/s, en virkjanlegt kalt vatn í landi Húsavíkur er talið vera 1000-1200 l/s. Affallsvatn frá Orkustöð er u.þ.b. 200 l/s og 25°C heitt. Hitaveita Húsavíkur var stofnuð 1970, en þá var lögð um 18 km löng asbestæð frá Hveravöllum til Húsavíkur. Í upphafi voru nýttir um 30 l/s af 100°C heitu hveravatni. Fljótlega kom í ljós að bora þurfti eftir meira vatni. Árið 1974 var boruð 450 m djúp hola sem gefur nú um 25 l/s, önnur 650 m djúp hola var boruð 1997 sem gefur um 65 l/s. Vatn úr borholum er 125°C heitt og sjálfrennandi. Vegna hæðarmunar milli Hveravalla og Húsavíkur er lítil þörf á dælingu hjá veitunni. Árið 1999 var lögð ný aðveituæð til Húsavíkur. Er um að ræða einangraða stálpípu sem getur flutt allt að 150 l/s af 125-130°C heitu vatni til iðnaðarnota og húshitunar á Húsavík. Frá Orkustöð er hægt að afhenda vatn á bilinu 4°C- 120°C. Orkuveita Húsavíkur tók við rekstri Hitaveitu Aðaldæla og Kinnar (HAK) um síðustu áramót en HAK var stofnuð um 1990 og eru 70 hús tengd veitunni. Dreifikerfi HAK er afar víðfeðmt og eru lagnir veitunnar yfir 50 km að lengd.


Hreinn Hjartarson

Fjölnýting heita vatnsins

Hreinn Hjartarson, veitustjóri Orkuveitu Húsavíkur, segir veituna hafa mikla sérstöðu á Íslandi þar sem tæknin að baki raforkuframleiðslu fyrirtækisins eigi sér ekki hliðstæðu. Aukinheldur er tæknin að stórum hluta þróuð á Húsavík og líklegt að hún verði söluvara í framtíðinni fyrir þá sem búa við sambærilegar aðstæður. Orkuveita Húsavíkur sækir heitt vatn á Hveravelli í Reykjahverfi, 18 km sunnan Húsavíkur. Vatnið er tekið þar úr borholum, liðlega 120 gráðu heitt, og leitt í orkuver veitunnar þar sem það er kælt niður í 80 gráður í ferli sem um leið framleiðir raforku sem þjónar hátt í 80-90 prósent raforkuþarfar Húsavíkur. Heita vatninu er síðan hleypt á hitaveitukerfið eftir að búið er að keyra það í gegnum raforkuframleiðsluna en auk þessa er um 25 gráðu heitt kælivatn frá rafstöðinni notað til fiskeldis. „Við gjörnýtum heita vatnið okkar og ætli ekki megi kalla þetta fjölnýtingu á heitu vatni. Stöðin okkar er sú eina í heiminum sem framleiðir raforku með þessum hætti og við getum sagt að við höfum keypt tæknihugmyndina í upphafi en þurft að þróa hana hér á heimavelli þar sem hugmyndin var ekki nægjanlega þróuð,“ segir Hreinn, stoltur en þó lítillátur eins og Þingeyinga er háttur. „X-orka, sem að hluta til var í eigu Orkuveitu Húsavíkur, vinnur að því að selja þessa tækni til Evrópu, bæði til að nýta í lághita þar og varma frá öðrum ferlum t.d. spillivarma og díselvélum. Við getum sagt að með þessu sé húsvískt hugvit gert að útflutningsvöru,“ segir Hreinn Hjartarson, orkuveitustjóri á Húsavík. Orkuveita Húsavíkur hefur nýtt þessa tækni síðan árið 2000 með góðum árangri. Við þær aðstæður sem þá voru þótti þessi lausn hagkvæm miðað við möguleg raforkukaup. Sá munur hefur hins vegar minnkað mikið eftir að raforkulögum var breytt hér á landi. „Við stóðum frammi fyrir því á þeim tímapunkti að þurfa að greiða 20-30 prósent hærra verð fyrir rafmagn en til að mynda nágrannar okkar á Akureyri en þær forsendur eru ekki til staðar í dag. Við getum því sagt að nýju raforkulögin komi í veg fyrir að nýjar stöðvar verði byggðar á þessari tækni hérlendis á næstu árum en hins vegar er tæknin sjálf og þekkingin á henni vara sem við getum nýtt okkur sem söluvöru,“ segir Hreinn. Ekki alls fyrir löngu var sorpstöðin á Húsavík tengd Orkustöðinni og er allur varmi sem fellur til vegna sorpbrennslu nýttur í Orkustöðinni til raforkuframleiðslu. „Hér verður allt að gulli - líka sorpið,“ segir veitustjórinn.


Orkustöð

Fróðleiksmolar
Fyrir nokkrum árum voru uppi hugmyndir uað nýta til þess heita vatnið en þær hugmyndir féllu í grýttan jarðveg hjá landbúnaðarráðherra. Segja gárungarnir að strandað hafi á því að ráðherra hafi ekki lagt í að láta mynda sig við að kyssa krókódílana en hann er jú þekktur fyrir að smella kossum á íslenskan búfénað. Sunnan Húsavíkur er affallsvatn frá Orkustöð leitt í nokkrar tjarnir sem bjóða upp á mikið dýralíf, þar á meðal gullfiska. Stærstu notendur á heitu vatni á Húsavík eru hausaþurkun GPG og Fiskeldið Haukamýri.

Ótæmandi orkulind


Húsavík séð frá Kinnarfjöllum

Þingeyjarsýsla er það svæði landsins sem hefur yfir að ráða hvað stærstum háhitasvæðum á landinu og um árabil hafa verið uppi margvíslegar hugmyndir um orkuöflun og nýtingu orkunnar í héraði. Eitt öflugasta háhitasvæðið í sýslunni er Þeistareykir, um 20 km suður af Húsavík, og hafa rannsóknir á svæðinu staðið samfellt yfir frá árinu 1999. Orkuveita Húsavíkur á um þriðjungshlut í Þeistareykjum ehf. á móti Landsvirkjun, Norðurorku og sveitarfélögunum Þingeyjarsveit og Aðaldælahreppi.


Tekið inni í Orkustöð

Aðkoma Landsvirkjunar að verkefninu var forsenda þess að hægt væri að hraða rannsóknum á svæðinu og nú þegar hafa verið boraðar þrjár rannsóknarholur, auk þess sem búið er að viðnámsmæla svæðið og afmarka. Í ljós kom að svæðið er tvöfallt stærra en reiknað var með í byrjun. Í fyrstu rannsóknarholunni reyndist 340 gráðu hiti, 240 gráður í þeirri næstu og 370 gráðu hiti í þeirri sem boruð var síðastliðið sumar. Þeistareykjarsvæðið er því alla mjög álitlegt til orkuvinnslu. Þær holur sem boraðar hafa verið á svæðinu eru vinnsluhæfar en ein hola til viðbótar verður boruð á komandi sumri. Verði af áformum um álver við Húsavík er ljóst að bora þarf eina til tvær holur á ári frá 2008 til 2012 til að fullnægja ætlaðri raforkuþörf álversins. Eftir að borunum ársins 2007 lýkur er reiknað með að til staðar verði gufa á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum sem dugi fyrir 40 prósent af raforkuþörf fyrri áfanga álvers sem taka á til starfa 2012.

Stíga létt til jarðar
Forsvarmenn Orkuveitu Húsavíkur segja Þeistareykjasvæðið heitara svæði en Hellisheiðina og því ekki síður vænlegt til raforkuframleiðslu. Þeir vilja þó fara hægar í sakirnar en áformað er syðra. „Við ætlum að taka fyrstu 40 MW í notkun á árinu 2012 en til samanburðar var áformað að framleiðslan á Hellisheiðinni verði komin í 300 MW árið 2010. Við viljum hafa vaðið fyrir neðan okkur og lágmarka mistök eins og frekast er kostur. Ferillinn hjá okkur varðandi álvershugmyndir við Húsavík er mjög rólegur og hann fellur vel að þeim hugmyndum sem við viljum vinna eftir gagnvart orkuöfluninni á jarðhitasvæðunum. Ég tel okkur því vera að fara að öllu með gát, bæði gagnvart fjármunum og umhverfinu,“ segir Hreinn Hjartarson, veitustjóri Orkuveitu Húsavíkur.

Umhverfismat
Framundan er umhverfismat vegna orkuvers á Þeistareykjum en Hreinn segir kostnaðinn við slíkt mat geta numið allt að þriðjungi kostnaðar við borun einnar holu sem kostar nú um 200 milljónir króna. „Þegar við höfum áttað okkur á því með rannsóknarholum hvernig orkan liggur á svæðinu þá stillum við upp orkuveri miðað við þá vitneskju og fyrirætlanir sem við höfum og heildarframkvæmdin fer þannig í umhverfismat. Ég reikna með að slíkt mat verði unnið á næsta hálfa öðru árinu en umhverfismatið er eins og allt annað í þessu langtímaferli sem við höfum unnið eftir lengi,“ segir Hreinn Hjartarson.

Jötunn á norðurslóðum


Borun 2006

Borinn Jötunn kom til Húsavíkur í byrjun apríl siðastliðnum en Jötunn var við boranir á Azoreyjum og er nokkur fjöldi Húsvíkinga í áhöfn borsins. Til Húsavíkur kom borinn vegna borunar fjögurra rannsóknarhola á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum í tengslum við hugsanlegt álver Alcoa við Bakka. Eftir boranir sumarsins er reiknað með að búið verði að afla um 40 prósenta af þeirri gufu sem þarf vegna fyrri áfanga álvers við Bakka en áætluð gangsetning þess er á miðju ári 2012. Fyrsta rannsóknarhola ársins verður boruð í Sandabotnaskarði við Kröflu en boraðar verða þrjár holur á Kröflu- og Bjarnarflagssvæðum og ein hola á Þeistareykjum. Áætlaður rannsóknarkostnaður á þessum svæðum í ár er um 1 milljarður króna eða svipaður kostnaður og á árinu 2006.

  • Metan hefur verið nýtt á Íslandi sem eldsneyti á ökutæki frá árinu 2000.
  • Uppsett afl í jarðgufustöðvum á Íslandi er 170 MW og er Ísland í áttunda sæti á þessu sviði. Ísland er hins vegar í fjórða sæti á heimslistanum hvað varðar notkun jarðhita til upphitunar en uppsett varmaafl í jarðhita á Íslandi er um 1.500 MW eða um tíundi hluti þess jarðvarmafls sem virkjaður er í heiminum. Aðeins Kína, Japan og Bandaríkin nota meiri jarðhita til upphitunar en Íslendingar.
  • Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Orkuveita Reykjavíkur hafa undirritað samkomulag um að byggja upp sameiginlegt alþjóðlegt framhaldsnám í orkuvísindum. Settur verður á fót alþjóðlegur skóli sem kenndur verður við Orkuveitu Reykjavíkur, Reykjavik Energy Graduate School of Sustainable Systems.
  • Íslenskar verkfræðistofur hafa á undanförnum árum öðlast mikla og dýrmæta þekkingu í tenglsum við verkefni í orkugeiranum. Þessi þekking og reynsla er verðmæt útflutningsvara þar sem flest verkfræðifyrirtæki í Evrópu, og víðar um heim, hafa ekki haft sambærileg tækifæri í heimalöndum sínum á sama tíma.
  • VistOrka hyggst verja á þriðja hundrað milljónum króna til kaupa á vetnisbílum og vetnisljósavél í bát. Markmiðið er að fá til landsins um 30 vetnisknúna fólksbíla og í ár munu 12 bílar koma til landsins; ýmist búnir efnarafali eða sprengihreyfli.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga