Greinasafni: Orka
Netorka hf. stofnað af raforkufyrirtækjum
Raforkumarkaðurinn opnast - Einstök samvinna orkufyrirtækja

Starfsmenn Netorku.

Frá áramótum 2005/2006 hafa allir landsmenn átt kost á að velja sér af hvaða raforkusala þeir kaupa raforku. Raforkusala er nú ekki lengur bundin því orkufyrirtæki sem dreifir raforkunni á viðkomandi svæði, heldur opin öllum þeim sem hafa tilskilin leyfi. Netorka hf. er hlutafélag, stofnað af raforkufyrirtækjunum til að bregðast við nýjum raforkulögum frá árinu 2003, sem gegnir því hlutverki að vera sameiginlegt mæligagna- og uppgjörsfyrirtæki fyrir íslenskan raforkumarkað í markaðsvæddu umhverfi.
Í apríl 2006 tók Netorka í notkun upplýsingakerfi sem sér um vinnslu og miðlun sölumælinga og útvegar gögn til uppgjörs allrar sölu raforku til notenda. Kerfið miðlar orkumælingum til raforkusölufyrirtækja og heldur utan um breytingar á viðskiptum raforkuseljenda og notenda með sérhæfðu skeytakerfi.
Uppsetningin er einstök í heiminum á þann hátt að í fyrsta skipti er farin sú leið að byggja og viðhalda miðlægum gagnagrunni með þátttöku allra aðila raforkumarkaðarins, það er dreifingaraðila, framleiðenda og söluaðila raforku.
Kerfið tryggir að samskipti og uppgjör á íslenska raforkumarkaðnum eru í senn einfaldari, sveigjanlegri og skilvirkari en gerist hjá öðrum þjóðum.
Miðlægur gagnagrunnur orkumælinga gerir Netorku kleift að spá fyrir um raforkunotkun með tilliti til veðurfars, sögulegra gagna og hegðunarmynstra. Þessar spár nýtast til nákvæmari áætlunargerðar raforkukaupa.
Kerfi Netorku er í hýsingu hjá sérhæfðum hýsingaraðila og hefur það gert starfsmönnum Netorku kleift að sinna fyrst og fremst verkefnum sem snúa að vinnslu kerfanna, en minna að tæknilegum rekstri. Með þessum hætti hefur einnig tekist að lágmarka rekstrarkostnað kerfisins. Mikil þekking hefur byggst upp hjá starfsmönnum Netorku á uppbyggingartímabilinu, sem nýtist öllum orkufyrirtækjunum. Að sama skapi er vaxandi þekking á þessu nýja markaðsvædda umhverfi hjá starfsmönnum allra orkufyrirtækjanna.

Fróðleiksmolar
Heildarfjöldi notkunarstaða á Íslandi Fjöldi þeirra staða sem raforkusalar afhenda rafmagn í er nú um 175 þúsund.

Fjöldi þeirra sem skipta um raforkusala Árið 2006 skiptu fyrirtæki og einstaklingar um söluaðila raforku á 936 notkunarstöðum. Fyrstu fimm mánuði ársins 2007 hefur verið skipt um raforkusala á 359 notkunarstöðum.

Orkutorg.is Netorka rekur upplýsingavefinn www.orkutorg.is þar sem markmiðið er að auka upplýsingastreymi til neytenda og gera þá meðvitaðri um orkunotkun. Á Orkutorginu gefst almenningi kostur á að skoða upplýsingar er varða kaup á rafmagni, interneti, heitu- og köldu vatni auk ýmiss fróðleiks.

Samstarfsaðilar
Eftirfarandi orkufyrirtæki eru samstarfsaðilar Netorku:

Hitaveita Suðurnesja
Norðurorka
Fallorka
Orkubú Vestfjarða
Orkuveita Húsavíkur
Orkuveita Reykjavíkur
Rarik
Orkusalan
Rafveita Reyðarfjarðar
Skagafjarðarveitur
Landsnet
Landsvirkjun


Eyðslueinkunn bifreiða
Reiknivél á orkusetur.isOlíukostnaður er stærsti orkuútgjaldaliður meðalheimila og brennsla olíu leiðir auk þess til útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Bílafloti landsmanna er án efa einn sá allra eyðslumesti miðað við höfðatölu og brýnt að reyna bæta samsetningu flotans og hliðra honum í átt að meiri nýtni og minni útblæstri. Til að auðvelda fólki enn frekar að finna réttu bifreiðina hefur Orkusetur nú sett upp aðgengilegt einkunnakerfi á vefinn þar sem hægt er að sjá hvaða einkunn bifreiðin fær og um leið eyðslutölur og útblástursgildi. Kerfið er einfalt og fylgir hefðbundnum orkueinkunnum þar sem A er besti flokkurinn með litla eyldsneytisnotkun en G er lakasti flokkurinn þar sem nýtnin er slök. Einkunninni fylgir litur þar sem umhverfisvænni bílar eru grænir og eldsneytishákarnir rauðir. Forsendur eru fengnar frá Umferðarstofnun Danmerkur og eru gerðar meiri kröfur til díselbifreiða en bensínbifreiða. Viðmiðunartalan er miðuð við þá vegalengd sem bifreiðin kemst á einum eldsneytislítra miðað við blandaðan akstur. Ef nefna á einhverjar tölur þá má segja að útblástursgildi yfir 200 g/km og eyðsla yfir 10 L/100 km ættu að tilheyra fortíðinni og ekki sjást á götum framtíðarinnar.

Kraftmestu jarðhitasvæði heims eru í löndum þar sem eru virk eldfjöll. Á Íslandi eru kraftmestu jarðhitasvæðin, háhitasvæðin, á gosbeltum landsins.

Lághitasvæði er jarðsvæði þar sem hitinn á jarðhitavatninu er undir suðumarki. Slík svæði er að finna í flestum löndum heims.

„Hreyfing jarðarinnar um sólu og einkum hreyfing tunglsins á sporbaug um jörðu skapar aðdráttarkraftana sem leiða til sjávarfalla. Hugsum okkur að bunga á yfirborði sjávar myndist í sífellu og snúi að tunglinu. Þessi bunga felur í sér hæðarmun á yfirborði sjávar og þar með mikinn mun á stöðuorku sjávar. Virkjun slíkrar orku er áhugaverð, fremur dýr enn sem komið er.“
Þorsteinn I. Sigfússon prófessor.

Á árunum 2001 til 2006 vörðu íslensk orku- og veitufyrirtæki alls um fimmtán milljörðum króna vegna rannsókna og hönnunar, auk fimm hundruð milljóna króna í styrki til rannsókna- og vísindastarfa á annarra vegum.

Það er ekki á allra vitorði en á fimmta áratug síðustu aldar voru vindmyllur vítt og breitt um Ísland og urðu flestar um tvö þúsund talsins. Þær hurfu þó jafnt og þétt samhliða því að bændur tengdust almennum veitum.

Vísindamenn Alþjóðaorkustofnunarinnar, IEA, áætla að Kínverjar muni síðar á þessu ári fara fram úr Bandaríkjamönnum hvað varðar mestu losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Gangi það eftir hefur mengun í Kína aukist mun hraðar en búist var við. Mikill hagvöstur í Kína og uppbygging, til að mynda kolaorkuvera, er talin skýringin á stórauknum útblæstri gróðurhúsalofttegunda.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga