Greinasafni: Orka
Auður í iðrum jarðar
Undirbúningur rannsóknaverkefnis um djúpboranir hefur verið í gangi frá því á árinu 2000. Markmiðið er að kanna hvort í rótum jarðhitasvæðanna sé að finna jarðhitavökva sem er orkuríkari en sá vökvi sem þegar er nýttur. Hiti og þrýstingur vex með auknu dýpi og spurningin er hvort vinna megi margfallt meiri orku úr háhitasvæðunum með því að bora dýpra.


Stefnt er að borun fyrstu djúpborunarholunnar í Kröflu á næsta ári.
Mynd: Mats Wibe Lund

Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja hafa nú ákveðið að bora þrjár 4,5 til 5,0 km djúpar holur á háhitasvæðunum við Kröflu, Hellisheiði og Reykjanesi. Gert er ráð fyrir að í Kröflu verði vísindahola en á hinum svæðunum hefðbundnari rannsóknarholur. Orkustofnun mun leggja til fjármagn, ásamt alþjóðlegum stofnunum, í vísindaholuna við Kröflu en Orkuveitan og Hitaveita Suðurnesja munu einnig veita fé í rannsóknarþáttinn fyrir Kröfluholuna. Alcoa mun jafnframt leggja til fjármagn til borunar við Kröflu og fleiri fyrirtæki hafa lýst áhuga á að taka þátt í verkefninu. Heildarkostnaður við vísindaholuna er áætlaður um tveir milljarðar króna. Orkuveita Reykjavíkur gerir hins vegar ráð fyrir að að kostnaður við holuna á Hellsiheiðinni verði tvöfalt til þrefalt meiri en við hefðbundna borholu, eða alls 600 til 700 milljónir króna. Undirbúningur djúpborunarinnar tekur um eitt ár.

Þekkingarbanki framtíðarinnar
Í mars síðastliðnum hafði Guðlaugur Þór Þórðarson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, þetta um djúpborunarverkefnið að segja: „Það er óumdeilt að Íslendingar eru í forystu á heimsvísu í umhverfisvænni nýtingu jarðhita. Þeirri forystu þarf að halda og til þess þarf rannsóknir. Það er ekki víst að okkar kynslóð njóti efnahagslegs ábata af djúpborunarverkefninu en við erum að leggja inn í þekkingarbanka framtíðarinnar.“


Líkanmynd af Hellisheiði. Myndin sýnir borholur á Hellisheiði og stefnur þeirra.
Teiknuð hefur verið inn djúpborunarhola til að sýna mun á dýpi hefðbundinna hola og djúpborunarholu.


„Vatnið er þá nær því að vera gastegund en sú blanda gufu og jarðvatns sem nú er nýtt á háhitasvæðunum. Vitað er að þetta ástand efnisins er mjög orkuríkt en óvíst er hvernig gengur að beisla orkuna.“
Vinnslugeta háhitasvæða fer eftir því rúmmáli sem hægt er að nálgast með borholum. Til þessa eru borholur á háhitasvæðum 1.500 - 2.500 m djúpar. Dýpri holur geta því bætt við stærð vinnslusvæðisins auk þess að þar má búast við orkuríkari vökva. Hreint vatn sýður við stöðugt hækkandi hitastig með auknu dýpi og þrýstingi þar til komið er í 374°C hita og yfir 220 bar þrýsting. Við hærri hita og þrýsting er komið í svokallað yfirkrítiskt ástand. Vatnið er þá nær því að vera gastegund en sú blanda gufu og jarðvatns sem nú er nýtt á háhitasvæðunum. Vitað er að þetta ástand efnisins er mjög orkuríkt en óvíst er hvernig gengur að beisla orkuna. Aukið magn efna í vatni hefur veruleg áhrif á krítisku mörkin. Vinnslueiginleikar yfirkrítisks vökva eru ekki þekktir.

Orkuveita Reykjavíkur hefur ákveðið að bora djúpa holu á Hengilssvæðinu sem uppfylli kröfur íslenska djúpborunarverkefnisins. Tilgangurinn er að efla þekkingu á jarðhitasvæðinu og jarðhita almennt. Boranir standa yfir á Hengilssvæðinu og  finnist heppileg hola verður hún afhent Íslenska djúpborunarverkefninu til frekari rannsókna"

Fyrstu skrefin
Stefnt er að borun fyrstu djúpborunarholunnar í Kröflu á árinu 2008 en jafnvel þó vel gangi að bora þá er enn eftir mikil vinna við að kanna þann vökva sem upp kemur og hvernig hægt er að nýta hann. Þar sem vinnslueiginleiki vökvans sem upp kemur er óþekktur getur það tekið áratugi að læra að umgangast þennan vökva og gera hann vinnsluhæfan til orkuvinnslu.
Með djúpborunum má hugsanlega draga úr umhverfisáhrifum jarðhitavinnslu til langs tíma litið, auka nýtni háhitavinnslu umtalsvert og hugsanlega vinna verðmæt steinefni og málma úr djúpvökva. Hvað steinefni og málma varðar er þó einkum hugsað til söltu jarðhitakerfanna. Áhersla verður hins vegar lögð á heildstæða vinnslu auðlindanna þ.e.a.s. athugað verður með hvaða hætti megi flétta saman framleiðslu raforku, framleiðslu varmaorku til iðnaðar, lífræna og ólífræna efnavinnslu, skipulagða fræðslu, ferðamennsku og fleira. Eiginleikar háhitakerfana til niðurdælingar á vatni, bæði til förgunar á affallsvatni og varmavinnslu, verða einnig kannaðir.
Djúpborunarverkefnið hefur þegar vakið mikla athygli á heimsvísu, enda eru talsverðar vonir bundnar við að aukin þekking á nýtingu jarðhita komi að góðum notum til að stemma stigu við gróðurhúsaáhrifunum. Náið er fylgst með því í hinu alþjóðlega vísindasamfélagi og fjölmiðlar víðsvegar að úr heiminum hafa fjallað ítarlega um djúpborunina. Ljóst er að í tengslum við verkefnið verður stofnað til fjölda alþjóðlegra rannsóknarverkefna, enda er eitt af skilmálum verkefnisins að niðurstöður þess verði öllum aðgengilegar.

Þróun raforkuverðs til almennings
Ýmsir hafa haldið því fram að almenningur á Íslandi greiði niður raforkuverð til stóriðju. Staðreyndirnar tala öðru máli og á myndinni má sjá að á sama tíma og raforkusala til stóriðju hefur aukist þá hefur raforkuverð til almennings stórlækkað að raunvirði.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga