Greinasafni: Orka
Verkfræðistofan Afl
AFL í Evrópu og Afríku
Verkfræðistofan AFL hefur á 20 ára ferli sinnt fjölmörgum verkefnum á sviði orkumála. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í verkefnum sem tengjast athugunum og rannsóknum á raforkukerfum og raforkuflutningi, raforkuspám og söfnun og úrvinnslu orkugagna. Þá tekur fyrirtækið þátt í hönnun orkumannvirkja og iðjuvera.
Verkfræðistofan AFL var stofnuð árið 1987 og hefur þann tíma sinnt verkefnum á þremur meginsviðum, þ.e. orkumálum, stýringum í iðnaði og orkuverum og hugbúnaðargerð. Meðal viðskiptavina innanlands eru öll stærstu orkufyrirtæki landsins og stofnanir er tengjast orkugeiranum svo sem Landsvirkjun, Landsnet, Orkuveita Reykjavíkur, Rarik, Orkustofnun og Iðnaðarráðuneytið.

Starfsemi
AFL hefur lagt áherslu á að hafa á á að skipa vel menntuðu og þjálfuðu starfsfólki til að hægt sé að sinna viðskiptavinunum með sem bestum hætti. Í dag starfa 13 manns hjá fyrirtækinu, þar af 11 með háskólamenntun. Að undanförnu hefur Verkfræðistofan AFL unnið að innleiðingu gæðakerfis þar sem lögð er áhersla á stöðugar umbætur í reksti og framkvæmdum verkfræðistofunnar þannig að þjónusta við viðskiptavini verði ávallt í höfð í fyrirrúmi. Unnið er að því að fá fyrir mitt þetta ár gæðavottun á starfsemi fyrirtækisins skv. alþjóðlega staðlinum ISO9000:2000.
AFL hefur síðastliðin 20 ár séð um alla fagvinnu vegna gerðar raforkuspár fyrir Ísland. Raforkuspáin segir fyrir um líklegan vöxt í orkueftirspurn og er mikilvægt hjálpartæki fyrir orkufyrirtækin og gerir þeim kleift að laga framkvæmdir sínar sem best að orkuþörfinni. Spáin er gefin út af orkuspárnefnd sem er samstarfsvettvangur orkufyrirtækjanna og stofnana sem sinna gerð hagskýrslna. Síðasta raforkuspá kom út haustið 2006. AFL hefur lengi unnið að kerfisrannsóknum og áætlanagerð sem tengist uppbyggingu íslenska raforkukerfisins, einkum til að meta þörf á nýjum flutningsvirkjum vegna nýrra virkjana og nýs orkufreks iðnaðar. Má þar m.a. nefna umfangsmiklar rannsóknir vegna álvers í Reyðarfirði.
AFL hefur í auknum mæli tekið þátt í hönnun hvers kyns flutningsmannvirkja og unnið að mati á umhverfisáhrifum framkvæmda. Fyrirtækið hefur yfir að ráða þeirri þekkingu og þeim hugbúnaði sem þarf til þess að greina raffræðileg umhverfisáhrif flutningsvirkja og bera saman við alþjóðlegar viðmiðanir og staðla. Hagnýting jarðhita hefur verið mjög samofin starfsemi fyrirtækisins og vann AFL að hönnun, forritun og uppsetningu tölvustjórnkerfa fyrir varmaorkuverið á Nesjavöllum. Var þar um að ræða gufuveitu, orkuver og dælingu.

Útflutningur
AFL hefur tekið þátt í verkefnaútflutningi í meira en 10 ár og unnið að verkefnum í Evrópu og Afríku. Þau verkefni eru bæði á sviði raforkuflutnings og orkufreks iðnaðar. Þá tók AFL þátt í stofnun verkfræðifyrirtækisins HECLA í París ásamt Landsvirkjun, Línuhönnun og frönskum samstarfsaðila. Þátttaka í fleiri fyrirtækjum erlendis er í undirbúningi.

Framtíðarsýn
AFL telur að nýting umhverfisvænna orkugjafa verði sífellt mikilvægari og Íslendingar séu í góðri stöðu til að miðla af reynslu sinni við hagnýtingu þeirra. AFL telur að í framtíðinni verði mikil þörf fyrir óháða ráðgjafa á orkusviði sem geti komið að verkefnum innanlands og utan með fjárfestingaraðilum.

Myndin sýnir börn að leik við járnbrautarteinana í
þorpinu Mlimba.

AFL hafði með höndum verkefnisstjórn og gerð tölvulíkans af raforkukerfinu í mið-Tansaníu vegna útreikninga og mælinga á truflunum af völdum nýrrar 245 kV háspennulínu yfir í síma- og merkjakerfi járnbrautarlínu frá Tanzaníu til Zambíu. Háspennulínan var reist í tengslum við Kihansi virkjunina sem fjármögnuð var af fjölþjóðlegum stofnunum. Verkefnið var unnið í samvinnu við Fortum í Finnlandi og Norplan í Noregi, fyrir rafveituna í Tanzaníu (Tanesco) og Fjárfestingabanka Evrópu (EIB).

Myndin er frá borginni Mostar. Gamla brúin var sprengd í ófriðnum.

AFL, ásamt norskum samstarfsaðilum, tók þátt í enduruppbyggingu raforkukerfis Bosníu-Herzegóvínu eftir ófriðinn þar 1992-1995. Starfsmaður frá fyrirtækinu var staðsettur í Sarajevo veturinn 1996-1997 og vann fyrir Alþjóðabankann og rafveituna þar að ýmsum verkefnum sem tengdust enduruppbyggingu kerfisins sem var illa farið eftir ófriðinn. AFL kom einnig að verkefnum þar í landi á árinu 1999 á vegum norsku þróunarsamvinnustofnunarinnar Norad og sá m.a. um alútboð á nýrri 110 kV línu í norðausturhluta landsins og viðgerð á annarri línu í nágrenni Mostar í suðvesturhluta landsins.

Mastur í 4 rása línu
í Póllandi
.

Verkfræðistofurnar Línuhönnun og AFL hönnuðu á árunum 2002-2004 eina öflugustu háspennulínu sem hefur verið byggð á síðustu árum í Evrópu. Um er að ræða 32 km langa línu sem er í raun fjórar línur á sömu möstrum. Í heild getur línan flutt um 4.500 MW en til samanburðar má geta að uppsett afl íslenskra virkjana er nú um 1.600 MW samanlagt. Línan var hönnuð samkvæmt pólskum stöðlum og voru gerðar strangar kröfur um rafsegulsvið og hávaða í nágrenni hennar. Verkefnið fékkst á grundvelli alútboðs í samvinnu við verktakana Transel í Frakklandi og SelPol í Póllandi.


Gufuveita á Nesjavöllum.

AFL hefur unnið að uppbyggingu Nesjavallavirkjunar frá upphafi framkvæmda og setti upp og forritaði iðntölvukerfi vegna gufuveitu, varmaorkuvers og dælingar. Þá hefur AFL sett upp iðntölvukerfi í fjölmörgum dælustöðvum Orkuveitu Reykjavíkur.

Þrívíddarmynd af segulsviði undir tveimur samsíða 420 kV línum.

AFL hefur komið að hönnun flestra háspennulína hér á landi síðustu 15 árin sem raffræðilegur hönnuður. Umhverfisþættir verða æ mikilvægari við hönnun háspennulína og hefur AFL lagt mikla áherslu á að nýta þekkingu starfsmanna og fullkominn hugbúnað við mat á rafsegulsviði og hávaða í kringum háspennulínur.

Alcan í Straumsvík.

AFL hefur unnið að uppsetningu og forritun margra stjórnkerfa í orkufrekum iðnaði á undanförnum 20 árum. AFL tók þátt í stækkun ÍSAL í samstarfi við erlenda aðila og vann einnig að verkefnastjórn í stækkuninni. Fyrir Norðurál hefur AFL unnið að mörgum verkefnum við stækkun verksmiðjunnar að Grundartanga.

Skemmd í háspennulínu.

AFL hannaði og setti upp skráningarkerfi rekstrartruflana í raforkukerfinu. Þar skrá rafveitur inn upplýsingar um þær truflanir sem verða á rekstri raforkuvera og í flutnings- og dreifikerfum. Skráðar eru upplýsingar um orsök og afleiðingu truflana, m.a. viðgerðartíma og umfang orkuskerðingar. Úr þessum gögnum má síðan vinna hvers kyns tölfræðilegar upplýsingar og bera saman milli veitna og bera saman við aðrar þjóðir.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga