Greinasafni: Orka
VGK Hönnun
Hrein orka er lúxusvandamál
Hrein íslensk orka er séríslenskt lúxusvandamál en í þessu felst þversögn. Íslendingar geta búið til græna orku og flutt hana jafnvel út eða fylgst með kola og olíubruna Evrópuríkjanna. Mikil tækifæri felast í sjálfbærri orkuframleiðslu sem er eitt af stefnumálum Evrópusambandsins.
Að undanförnu hefur ýmislegt verið bæði rætt og ritað um stóriðju og virkjanaframkvæmdir. Á meðan flest önnur lönd í heiminum nota ýmsa mengandi orkugjafa er Ísland svo lánsamt að öll orkuframleiðsla landsins er umhverfisvæn og sjálfbær. Mengun af hennar völdum er fyrst og fremst sjónræn, þ.e.a.s. mannvirki, háspennulínur og gufulagnir sem sjást á yfirborði jarðar. Kröfur um umhverfisvernd fara sífellt vaxandi og þess vegna er lögð æ ríkari áhersla á að öll hönnun og framkvæmd valdi eins litlu raski á umhverfinu og nokkur kostur er.

Höfundur
Finnur Sigurðsson
Kynning og ímynd, VGK-Hönnun hf.

Íslendingar hafa forskot
Það hefur orðið eins konar vakning í allri umræðu um orkumál. Íslendingar njóta virðingar á alþjóðavísu hvað varðar umgengni í tengslum við orkunýtingu og hafa ákveðið forskot í þeim efnum. Íslenskir tæknimenn og vísindamenn á þessu sviði eru jafnvel meðal þeirra fremstu í heiminum.Tækniþróun í nýtingu jarðhita hefur verið einna mest hér á landi síðastliðinn áratug eða svo, jafnvel þó að við höfum að mestu lokið því verkefni að hitaveituvæða landið. Það er því horft til Íslands þegar kemur að sjálfbærri orkunýtingu.
VGK-Hönnun hefur komið að hönnun nærri allra jarðvarma- og vatnsaflsvirkjana landsins, nú síðast á Hellisheiði og á Kárahnjúkum. Í undirbúningi eru frekari virkjanir á Hengilssvæði og í Neðri-Þjórsá en þau verkefni fékk fyrirtækið að loknu útboði sem í tóku þátt erlendar verkfræðistofur.

Einhversstaðar í heiminum þarf því að taka í notkun um þrjú ný álver á hverju ári um ófyrirséða framtíð af svipaðri stærð og álverið á Reyðarfirði. Það verður gert, hvort sem einhver af þessum álverum verða byggð hér á landi eða ekki.

Betri nýting á vatns- og gufuafli
Öllum framkvæmdum og allri landnýtingu fylgir rask en umræðan hér á landi er á villigötum þegar horft er til alþjóðlegs samhengis. Þar er umræðan á þá leið að nauðsynlegt sé að nýta betur þá sjálfbæru orkugjafa sem fyrir hendi eru, vatnsaflið og gufuaflið. Í skýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna er í raun sagt að hægt sé að draga úr losun koltvísýrings með því að draga úr notkun kola, olíu og gass til raforkuframleiðslu, en taka þess í stað upp umhverfisvæna orkugjafa í eins ríkum mæli og hægt er. Þessi umræða er mikið vatn á myllu Íslendinga.

Grænt er gott til útflutnings
Íslendingar starfa í alþjóðlegu umhverfi. Sífellt fleiri verkefni eru boðin út á Evrópska efnahagssvæðinu og íslensk fyrirtæki þurfa að kljást við erlenda samkeppni í auknum mæli. Að sama skapi þurfa nú erlend orkufyrirtæki að keppa við íslenskt hugvit þegar kemur að virkjun sjálfbærra og umhverfisvænna orkugjafa og það er vissulega ánægjuleg þróun.Verkefni VGKHönnunar erlendis standa nú undir rúmum 15% af veltu þess. Markmiðið er að auka það hlutfall verulega, meðan annars með því samstarfi sem fyrirtækið er í gegnum Geysi Green Energy.
Í Ungverjalandi er lághiti sem hægt er að nýta til hitaveitu og einnig raforku með tækni sem fyrirtækið hefur kynnt að undanförnu. Það eru miklir möguleikar í þessum efnum þar og reyndar víða annars staðar í Austur-Evrópu.
Sérstaða VGK-Hönnunar liggur í þekkingu og reynslu í grænu orkunni, þ.e. í jarðgufuafli og vatnsafli, en þó einnig á fleiri sviðum. Fyrirtækið er aðili að félagi sem heitir HRV, sem hefur sérhæft sig í þjónustu við áliðnaðinn. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá er aukning í notkun á áli í heiminum um 4% á ári eða um 1,2 milljónir tonna á ári. Einhversstaðar í heiminum þarf því að taka í notkun um þrjú ný álver á hverju ári um ófyrirséða framtíð af svipaðri stærð og álverið á Reyðarfirði. Það verður gert, hvort sem einhver af þessum álverum verða byggð hér á landi eða ekki. Vilji menn hugsa hnattrænt þá er álver á Íslandi knúið grænni orku klárlega betri kostur en kola- eða olíukynnt í öðru landi.

Nytsamleg nýsköpun
Undanfarið ár hefur VGK-Hönnun unnið að rannsóknum og tækniþróun á ýmsum sviðum. Fyrirtækið hefur í raun ákveðnum skyldum að gegna í þessum efnum, bæði við sig sjálft og við þjóðfélagið í heild. Nýjar hugmyndir kvikna út frá því sem starfsmenn eru að gera dags daglega, hugmyndir sem jafnvel geta orðið vænleg söluvara. Eitt dæmi er svokölluð polyol-tækni sem gengur út á að framleiða ýmsar vörur úr lífrænum hráefnum sem í dag eru framleidd úr olíu. Polyol eru notuð í einnota plastumbúðir, frostlög og fylliefni í snyrtivörur svo dæmi séu tekin. Tæknin er koltvísýringsbindandi og framleiðsluferlið því grænt, öfugt við hefðbundna framleiðsluaðferð sem notar olíu sem hráefni.
VGK-Hönnun hefur nýverið ákveðið að taka þátt í tilraun á Nesjavöllum þar sem hitakærar örverur verða notaðar til að eyða eða draga úr því magni gass sem annars fer út í andrúmsloftið, þar á meðal brennisteinsvetni og koltvísýringur. Fyrirtækið mun leggja áherslu á þessa þætti og leggja sitt af mörkum til að draga úr losun koltvísýrings. Í raun má segja að VGKHönnun geti því lagt ýmislegt að mörkum annað en hið hefðbundna sem verkfræðistofur hafi gert til þessa. Fyrirtækið er ráðgjafar- og þekkingarfyrirtæki sem byggir á traustum grunni undanfarinna 44 ára og góðu starfsfólki, og einmitt þess vegna eru tækifærin óþrjótandi.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga