Greinasafni: Orka
Metan ehf. stofnað með það fyrir augum að framleiða vistvænan innlendan orkugjafa
Úrgangi komið í verðÁrið 1996 ákvað stjórn Sorpu að hefja söfnun á hauggasi á urðunarstað fyrirtækisins í Álfsnesi í Reykjavík þar sem veruleg gróðurhúsaáhrif hljótast af óheftu útstreymi hauggass. Í fyrstu var gasið brennt og við það minnkuðu gróðurhúsaáhrif frá urðunarstaðnum nærri tuttugu falt. Mikil orka er falin í hauggasinu og því var fljótlega ákveðið að nýta metanið úr því sem eldsneyti á ökutæki. Í kjölfarið, 20. ágúst 1999, var Metan hf. stofnað með það fyrir augum að framleiða vistvænan innlendan orkugjafa úr rotnandi lífrænum úrgangsefnum. 
Stofnendur Metans hf. voru Sorpeyðing höfuðborgarsvæðisins bs. og Aflvaki hf. en núverandi eigendur eru Sorpa bs, Nýsköpunarsjóður, N1 hf. og Orkuveita Reykjavíkur. Aðalástæða stofnunar félagsins var að samkvæmt starfsleyfi Sorpu ber fyrirtækinu að safna hauggasi, sem myndast við rotnum lífrænna úrgangsefna á urðunarstað fyrirtækisins í Álfsnesi og eftir fremsta megni að nýta það. Til að uppfylla þá skyldu var Metan hf. stofnað. Tilgangur félagsins er dreifing og sala á metani og framleiðsla orku úr metani, þróun á umhverfisvænum orkugjöfum og önnur skyld starfsemi. 

Hvað er metan? 
Metan CH4 er lofttegund sem m.a. myndast á urðunarstöðum sorps við niðurbrot á lífrænum úrgangi. Metan er gróðurhúsalofttegund og hefur 21 sinnum meiri gróðurhúsaáhrif heldur en koldíoxíð, ef því er sleppt út í andrúmsloftið. 
Hauggasið sem myndast á urðunarstaðnum er blanda af metani og koldíoxíði og örfáum öðrum lofttegundum. Á urðunarstaðnum í Álfsnesi er hlutfall metans um 55%, koldíoxíðs um 42% og aðrar lofttegundir er um um 3%. 
Hægt er að vinna metan úr nánast öllum lífrænum úrgangi og áætlað er að nægjanlegt gas geti fengist á hverju ári úr Álfsnesi til að fullnægja þörf um 4.000 smærri ökutækja þegar hámarksframleiðsla verður úr haugnum.. 

Erlend fyrirmynd 
Sú tækni að hreinsa metan til eldsneytisnotkunar á ökutæki er vel þekkt í heiminum og eru hreinsunarstöðvar til víða en hinsvegar er sjaldgæft að hreinsa hauggas frá urðunarstað og nota á ökutæki. Til skamms tíma var aðeins þekktur einn staður í Kaliforníu þar sem slíkt er gert en á nokkrum urðunarstöðum er slík vinnsla til skoðunar. Vinnsla og hreinsun á hauggasi er hinsvegar mjög algeng úr skólpi, lífrænum úrgangi eða til þess ræktuðum plöntum. 

Ávinningur 
Að jafnaði er jafn mikill koltvíoxíðútblástur frá einum bensínknúnum bíl og 113 bílum sem knúnir eru metani. Með því að nýta metanið sem eldsneyti á ökutæki sparast einnig sá útblástur sem annars hefði orðið vegna notkunar á jarðefnaeldsneyti, bensíni eða díselolíu. Aukinheldur er metanið innlendur orkugjafi sem sparar gjaldeyri. 
Eldsneytiskostnaður er nú um 30 prósent minni á metanbílum en bensínbílum og verðmyndun á metani er óháð verðsveiflum á erlendum eldsneytismörkuðum. Metnaknúnar vélar eru hljóðlátari en díselvélar sem kemur sér vel þegar um er að ræða stór ökutæki á þéttbýlum svæðum. 
Ríkið felldi nýverið niður vörugjöld af ökutækjum sem ganga fyrir metani. Fyrir vikið eru smærri metanknúin ökutæki á sama verði og bensínknúin og dæmi um að þau metanknúnu séu ódýrari. 
Metan er hreinasta eldsneyti sem nú er fáanlegt á bíla, miðað við heildaráhrif á umhverfið, og það er jafnframt eina innlenda ökutækjaeldsneytið sem völ er á hér á landi.
Í samanburði við bensínbíl er a.m.k. 20% minna af koltvísýringi í útblæstri metanbíla, 74% minna af kolsýringi (CO), 36% minna af köfnunarefnisoxíði (NOX) og 60% minna af sóti. 

Söfnunarkerfið 
Þegar urðunarrein hefur verið þakin jarðvegi og yfirborð hennar orðið nokkuð jafnt þá er lóðréttum safnrörum komið fyrir með um það bil 25 m. millibili. Safnrörin eru 65 mm. sver rör sem eru þéttboruð götum. 
Hvert rör er síðan tengt með plaströri í svokallaðar safnkistur, sem komið hefur verið fyrir í 20 feta skipagámum. 
Safnkisturnar, sem eru þrjár talsins, eru síðan tengdar dælustöð sem sogar gasið úr haugnum og er sogkraftur stilltur þannig að súrefni sé ekki dregið inn í hauginn úr andrúmsloftinu. 

Hættulítið 
Metan er lyktarlaus lofttegund. Þess vegna er á lokastigi hreinsunar sett sérstakt lyktarefni saman við metanið til þess að ökumenn verði varir við ef fer að leka í lögnum. 
Metan er hins vegar ekki eitruð lofttegund. Metan er léttara en andrúmsloftið og gufar því mjög fljótt upp ef það lekur út úr lögnum. Sprengihætta af metani er aðeins til staðar ef geymsluflöskurnar hitna mjög mikið. Við slíka hitabreytingu eykst rúmmál metansins og skilyrði fyrir sprengingu geta skapast. Metanflöskur þola hins vegar mikil högg. Í reynd er metan hættuminni orkugjafi en bensín. Þau metanökutæki sem hér eru á markaði eru öll árekstrarprófuð eins og önnur ökutæki og því sprengihætta í algeru lágmarki. 
Byrjað er að leggja 10 km langa leiðslu frá Álfsnesi að afgreiðslustöð N1 á Bíldshöfða. Sú framkvæmd er forsenda þess að hægt sé að skoða staðsetningu nýrrar afgreiðslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu en með leiðslu sparast verulegur flutningskostnaður. 

Fróðleiksmolar 
- Frá einum bensínknúnum bíl kemur jafn mikið CO2 og frá 113 metanknúnum bílum. 
- Eldsneytiskostnaður er um 30 prósent minni á metanbílum en bínsínbílum. 
- Metan er innlent eldsneyti og sparar því gjaldeyri. 
- Almennt er minni íkveikjuáhætta af metani en hefðbundnu ökutækjaeldsneyti. 
- Á Íslandi eru á sjöunda tug ökutækja í umferð sem að hluta eða öllu leyti eru knúin 
metangasi.
- SORPA bs vinnu metangas úr lífrænum úrgangi í Álfsnesi á Kjalarnesi en Metan hf. sér um markaðssetningu metans. Miðað við núverandi magn lífræns úrgangs á urðunarstað fyrirtækisins væri hægt að anna orkuþörf um 2.500 smærri ökutækja en um 4.000 þegar mest verður. 
- Metan er eitrunarlaus lofttegund og hættulaust er að anda henni að sér. 
- N1 hf. býður viðskiptavinum sínum metan til kaups og er með átöppunarbúnað á N1-stöð sinni við Bíldshöfða. Metani er tappað á bíla með svipuðum hætti og bensíni, en tekur heldur lengri tíma. 

Umhverfisáhrif


Metan er innlendur orkugjafi sem framleiddur er úr rotnandi lífrænum úrgangsefnum.

Það metan sem myndast við niðurbrot lífrænna efna er í raun bundin sólarorka. Umbreyting metans í koldíoxíð (með bruna) bætir því ekki koldíoxíði í andrúmsloftið, heldur er eingöngu skilað til baka því sem plönturnar unnu úr andrúmsloftinu. Það er því um lokað hringrásarferli að ræða. 
Þegar metan er notað sem eldsneyti á bifreiðar myndast koldíoxíð í útblæstri bifreiðarinnar eins og áður. Þessi útblástur er hins vegar í reynd aðeins flutningur á myndunarstað þess koldíoxíðs, sem að öðrum kosti verður til við bruna metans á urðunarstaðnum. 
Aukning koldíoxíðs er því engin við brennslu þess í bílvél en við notkun á metani sparast hins vegar sú koldíoxíðsmengun sem annars hefði orðið til vegna bruna þess eldsneytis sem metanið kemur í staðinn fyrir. 
Sá sparnaður er um 260 gr. af koldíoxíði á hvern ekinn kílómetra fyrir meðalstóra bensínbifreið. 

Næsta umhverfi bifreiða 
Sé litið á næsta umhverfi bifreiðarinnar, minnkar útblástur koldíoxíðs um 20% miðað við bensín sem orkugjafa vegna betri nýtni metans en bensíns. Mestur umhverfisávinningur er í næsta umhverfi bifreiðarinnar vegna þess að metan er mun hreinna eldsneyti en bæði bensín og díselolía. 
Annað mikilvægt atriði er að vélar sem brenna metani eru hljóðlátari en díselknúnar vélar sem notaðar eru til að knýja bifreiðar auk þess sem reynslan hefur sýnt að margir hlutir vélanna endast mun betur sökum hreinleika eldsneytisins (s.s. kerti, olíuverk, smurolía). 
Metan er ekki eitruð lofttegund. Metan er léttara en loft og gufar því mjög fljótt upp. 

Notkunarmöguleikar Metans 
Ökutækjaeldsneyti 
Notkun á metani sem eldsneyti á bíla er löngu þekkt og mikil reynsla fyrirliggjandi. Til þess að það sé hægt verður að skilja metanið frá koldíoxíðinu í hauggasinu. Á Íslandi hefur metan verið nýtt sem ökutækjaeldsneyti frá árinu 2000. 

Rafmagnsframleiðsla 
Framleiðsla á rafmagni er mjög víða þekkt og eru til margar tegundir mótora sem ganga fyrir óhreinsuðu hauggasi. Hér á landi er metan nýtt til raforkuframleiðslu af Orkuveitu Reykjavíkur. 

Orkugjafi í iðnaði 
Nota má óhreinsað hauggas í margskonar iðnaði en sú forsenda liggur að baki að slík starfsemi sé rekin innan hæfilegrar fjarlægðar frá urðunarsvæði svo hægt sé að flytja hauggasið í rörum að notkunarstað. Um tíma var hér á landi í gangi tilraunaverkefni um notkun metans í iðnaði en þar var um að ræða samstarfsverkendi Metans hf. og Borgarplasts. 

Bílasprautun 
Frá því um mitt ár 2004 þá hefur Múli, bílaréttingar og sprautun ehf. rekið þurrkklefa sem nýtir metan sem þeir keyptu og fluttu inn frá Ítaliu. Þeir hjá Múla státa einnig af því að nota eingöngu íslenska orku á sínu verkstæði þ.e.a.s metan, heitt vatn og rafmagn. 

Upphitun 
Einfaldast er að hita vatn til upphitunar og er það víða gert. Metan er hins vegar ekki nýtt með þessum hætti hérlendis. Metan er innlendur orkugjafi sem framleiddur er úr rotnandi lífrænum úrgangsefnum .

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga