Greinasafni: Orka
Sól og vindur

Vindrafalar af stærri gerðinni í Póllandi.
Óhætt er að segja að áherslan á endurnýjanlega orkugjafa hafi aldrei verið meiri en einmitt nú. Áframhaldandi bruni jarðefnaeldsneytis verður að minnka hvort sem menn horfa til orkuverðs, loftlagsbreytinga, orkuöryggis eða hreinlega til þeirrar staðreyndar að jarðefnaeldsneyti er endanleg auðlind og bruni þess því ósjálfbær. Menn hafa lengi glímt við að finna og betrumbæta tækni sem gefið getur orku með endurnýjanlegum hætti. Fyrir utan jarðhita og sjávarföll er það einkum bein eða óbein orka frá sólinni sem menn rembast við að beisla. Það eru ekki allir sem átta sig á því að orkan í vatnsafli, vindi og sjávarstraumum á uppruna sinn frá sólu. Sólin veldur uppgufun vatns sem rignir niður á hálendi og fær því ákveðna stöðuorku sem hægt er að beisla. Geislar sólar dreifast einnig ójafnt á jarðkúluna og þessi ójöfnuður veldur bæði vindum og sjávarstraumum. 
Hingað til hefur vatnsaflið verið eina endurnýjanlega orkan sem hefur verið samkeppnishæf við jarðefnaeldsneyti í einhverju mæli. Vatnsafl stendur fyrir um 17% af raforku í heiminum, en yfir 90% af endurnýjanlegri orkuframleiðslu heims. Íslendingar búa yfir mikilli sérstöðu þar sem við eigum nóg af endurnýjanlegum orkugjöfum í formi vatnsafls og jarðhita.

Vindrafall af smærri gerðinni en á Íslandi eru slíkir einkum notaðir í sumarhús, útihús bænda og til gagnasendinga  

Sólarorka 
Sólin færir okkur orku í gríðarlegu mæli en hingað til hafa einkum frumbjarga lífverur, plöntur og þörungar, beislað þessa orku og byggt upp lífrænt efni með ljóstillífun. Ein af ástæðum þess að hið tæknivædda mannkyn hefur ekki verið duglegra í að virkja þessa orku er sú að fyrir röskum 200 árum fundum við leið til að dæla og grafa upp miklu magni af fornri sólarorku. Þessi forna sólarorka er í formi jarðefneldsneytis sem í raun og veru eru eldgamlar leifar plantna sem bundu sólarorku í lífrænu efni fyrir milljónum ára. Það er þó líklega lítil skynsemi í því að brenna allri þessari auðlind á nokkrum sekúndum ef við miðum við lífsklukku jarðar. 
Við notum þó meira af sólarorku en marga grunar. Notkun glers í byggingum er t.d. ekkert annað en fullkomin leið til að virkja sólarorku. Glerið hleypir hita og ljósi inn en sleppir ekki innrauðum langbylgjum út. Glerið virkar eiginlega eins og tvöföld sía, þ.e. lokar af vind að utan og hitageislun að innan. Glerið er því af flestum vanmetið framlag til nútíma lífsgæða. Þess bera geta að nýjar tegundir glerja hafa mun betri einangrunareiginleika en eldri gerðir. 
Menn hefur lengi dreymt um að meginhluti raforku framtíðarinnar verði framleiddur með sólarorku. Uppgötvun sólarsellunnar, sem er að stærstum hluta úr kísil, vakti miklar væntingar en kostnaður er enn of hár, þó svo að hann þokist hægt og bítandi niður á við. Það er þó talsvert líf í sólarsellumarkaðnum og margir virðast tilbúnir að niðurgreiða þessa umhverfisvænu orku. Sólarsellur hafa einnig reynst afar vel utan dreifikerfa og má sjá þær víða s.s. við mælitæki vegagerðarinnar um land allt. Bændur nota einnig sólarsellur í töluverðum mæli og knýja með þeim t.d. rafmagnsgirðingar, lýsingu í útihúsum, auk þess sem sumir bændur nota þær vegna brynninga. Sólarsellur eru jafnframt nokkuð algengar í hjólhýsum og sumarhúsum. Stærsta sólarsellueining á Íslandi er á þaki Sesseljuhúss á Sólheimum í Grímsnesi. 
Aðrar leiðir til að framleiða raforku með sólargeislum eru þó á tilraunastigi. Til dæmis er verið að setja upp sólarorkuver á Spáni sem notar tækni sem upprunalega var þróuð í Kaliforníu. Þar er fjölda spegla raðað í kringum turn og sólarorku safnað í einn brennipunkt. Í brennipunktinum er saltlausn sem geymir varma vel þannig að mögulegt er að halda uppi jafnri orkuframleiðslu allan sólahringinn. Það er einmitt vandamál sólarorkunnar að á nóttunni er framleiðslan engin og rafmagn er ekki hægt að geyma nema í afar takmörkuðu magni. 
Önnur leið sem menn hafa verið að skoða og er á teikniborðinu í Ástralíu er sú að mynda staðbundin gróðurhúsaáhrif með gríðarstóru glerþaki. Þar undir myndast mikið af funheitu lofti sem leitar svo út um miðlægan stromp. Á inntaki strompsins eru fjölmargar túrbínur sem snúast í hitauppstreyminu og framleiða raforku. Hugmyndin er allt annað en hógvær og hæð turnsins, sem framleiða á 200 MW, er litlir þúsund metrar. Ástralir sjá fyrir sér nokkra slíka turna í eyðimörkum sínum. Eitthvað verður þó næturframleiðslan takmörkuð ef að líkum lætur.


Íslendingar nota sólarsellur
aðallega á felliog hjólhýsi, húsbíla
og í sumarbústaði. 
Mynd: rotor.is

„Önnur leið sem menn hafa verið að skoða og er á teikniborðinu í Ástralíu er sú að mynda staðbundin gróðurhúsaáhrif með gríðarstóru glerþaki. Þar undir myndast mikið af funheitu lofti sem leitar svo út um miðlægan stromp. Á inntaki strompsins eru fjölmargar túrbínur sem snúast í hitauppstreyminu og framleiða raforku. Hugmyndin er allt annað en hógvær og hæð turnsins, sem framleiða á 200 MW, er litlir þúsund metrar.“ 

Vindorka 
Segja má að vindorkan sé á fjúkandi siglingu og vindmyllum vítt og breitt um heiminn fjölgar gríðarlega ár frá ári. Hlutur vindorku í heildarorkuframleiðslu er þó enn hverfandi enda eykst orkunotkun mikið í heiminum. Þrátt fyrir gríðarlegan vöxt í uppsetningu vindmylla er óvíst að nokkur breyting verði á hlut þeirra í heildarorkuvinnslu heimsins. 
Menn hafa lengi notað vindorku, m.a. til að knýja skip með seglum og mala korn og fleira. 
Vindorka til raforkuframleiðslu kom síðar og það vita t.d. ekki allir að á fimmta áratug síðustu aldar voru vindmyllur um allt land á Íslandi og urðu flestar um tvö þúsund. Þær hurfu þó jafnt og þétt þegar bændur tengdust almennum veitum. 
Nútíma vindmyllan öðlaðist líf með skattaívilnunum sem hleyptu af stað stórfelldri uppbyggingu með vindafli í Kaliforníu í byrjun níunda áratugarins. Þetta hafði mjög jákvæð áhrif á þróun iðnaðarins sem smátt og smátt skilaði betri og betri vöru og er nú sumstaðar að verða samkeppnishæf við kolaorkuver. Kostnaður við uppsett kW hefur hrunið úr 1.000 USD niður í 600 USD og uppsett afl vindorkuvera í heiminum er nú um 60 þúsund MW. 
Það hlógu margir af vindorkuuppbyggingu Dana á sínum tíma og töldu að þar væru menn að henda fé út í veður og vind í orðanna fyllstu merkingu. Þrátt fyrir að Danir hafi sett gríðarlegt fé í vindorkuverkefni sitt þá hafa þeir fengið það margfalt til baka í formi atvinnuuppbyggingar en tveir af stærstu vindmylluframleiðendum veraldar í dag, Westas og Bonus, eru í Danmörku. Síðarnefnda fyrirtækið var nýverið keypt af risafyrirtækinu Siemens. 
Þriggja blaða vindmyllan virðist vera að ná ríkjandi markaðshlutdeild og stærstu vindmyllurnar hafa 5 MW uppsett afl og eru engin smásmíði. Hæð slíkra risavindmylla er um 120 metrar og er þeim yfirleitt komið fyrir á hafi úti. 
Það dylst engum sem úti gengur hér á landi að ekkert skortir á framboðið af vindi. 
Ástæðan fyrir því að hér má ekki finna glæstar vindmyllur um sveitir landsins er einkum sú að ofangreind sérstæða í orkumálum kemur í veg fyrir stórfellda uppbyggingu á vindorku. Vindurinn stenst illa samkeppni við gnægð af endurnýjanlegri orku sem finna má hér á landi í formi vatnsafls og jarðhita. Íslensk endurnýjanleg orka er ekki bara ódýr heldur er framleiðslan jöfn og viðráðanleg en það er einmitt megin ókostur vindorku hve háð hún er duttlungum Kára. 

- Íslensku verkfræðistofurnar Línuhönnun og AFL hönnuðu á árunum 2002-2004 eina öflugustu hápsennulínu sem hefur verið byggð á síðustu árum í Evrópu. Í heild getur línan flutt um 4.500 MW en til samanburðar er uppsett afl íslenskra virkjana nú um 1.600 MW samanlagt. 

- Á Íslandi eru um 165 sundlaugar í rekstri og af þeim eru flestar, 130, hitaðar með hitaveituvatni. Sífellt fleiri sundlaugar nota heitt vatn til að hita upp kalt vatn. 

- Samanlögð vatns- og jarðvarmaorka Íslendinga myndi anna raforkuþörf sex milljón manna þjóðfélagi. 

- Sólarsellur hafa reynst vel utan raforkudreifikerfa og má sjá þær víða, svo sem við mælitæki Vegagerðarinnar um land allt. Bændur nota sólarsellur í töluverðum mæli en stærsta sólarsellueining á Íslandi er á þaki Sesseljuhúss á Sólheimum í Grímsnesi. 

- Þorri íslenskra heimila, um 90%, er hitaður með jarðhita en um 10% með rafmagni.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga