Greinasafni: Orka
Orkubú Vestfjarða - fossarnir beislaðir.


Á áttatíu árum hefur þurft að virkja fjölda fossa á Vestfjörðum til að sjá hinum dreifðu byggðum fyrir rafmagni
Sögu rafvæðingar á Vestfjörðum má rekja aftur til ársins 1920 þegar nokkrir Ísfirðingar stofnuðu Raflýsingarfélag Ísafjarðar. Bæjarstjórnin veitti félaginu leyfi til þess að koma upp mótorrafsstöð með því skilyrði, að hún yrði lögð niður ef komið yrði upp vatnsorkuveri fyrir bæinn. Félagið fékk Jochum Ásgeirsson, rafmagnsfræðing frá Arngerðareyri, til þess að koma rafveitunni á fót, setja niður vélar og leggja dreifikerfi um kaupstaðinn. Verkið hófst þegar sumarið 1920 og tók rafveitan til starfa árið eftir. Notendur voru 60 fyrsta árið en voru ornir um 400 árið 1930. Rekstur félagsins var erfiður, einkum síðari árin, og var honum hætt í febrúar 1937 þegar Fossavatnsvirkjun tók til starfa. Sú virkjun var sú fyrsta af mörgum vatnsaflsvirkjunum sem reistar hafa verið á Vestfjörðum til að þjónusta hinar dreifðu byggðir.
Rafstöð við Ísafjörð 
Framkvæmdir hófust í maímánuði 1936 og gengu greiðlega. Byggingarkostnaður virkjunarinnar fór þó langt fram úr áætlunum. Verkið varð umfangsmeira en gert hafði verið ráð fyrir, stífla við Fossavatn var höfð mun hærri, skurður úr vatninu dýpri og vélarafl stöðvarinnar varð meira en áætlað hafði verið. 
Stöðvarhúsið í Engidal var byggt úr steinsteypu, liðlega hundrað fermetrar að grunnfleti, einlyft með flötu bárujárnsþaki. Yfir vélunum er færanlegur krani. Húsið var stækkað árið 1956 þegar dísilvélum var komið þar fyrir til viðbótar. Ný stífla ásamt lokuhúsi var steypt fyrir neðan þá gömlu og var því verki lokið 1974. Með henni hækkaði yfirborðið um 2 m og rúmmálsaukningin var allveruleg. 
Fljótlega kom í ljós, að Fossavatnsvirkjun myndi ekki nægja vaxandi orkuþörf Ísfirðinga. Árið 1942 hófust framkvæmdir við virkjun Nónhornsvatns, en þaðan rennur Selá niður í Engidalinn, rétt við Fossavatnsvirkjunina (fallhæð 380 metrar). Bætt var við vélakosti í rafstöðinni og komst Nónhornsvatnsvirkjun í gagnið í mars 1946. 

Mjólkurárveiturnar 
Rafmagnsveitur ríkisins hófu árið 1956 byggingu virkjunar í Mjólká sem nýtti fallið úr Borgarhvilft niður í Borgarfjörð, um 210 m. Þessi virkjun tók til starfa haustið 1958. Á árunum 1958 til 1960 lauk tengingu Mjólkárvirkjunar við kauptúnin frá Patreksfirði til Bolungarvíkur, ásamt tengingu við Reiðhjallavirkjun. Hér er um allmikið línukerfi að ræða sem liggur yfir hinar háu heiðar Vestfjarða með sæstrengi yfir ála Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Þessi veita var nefnd Mjólkárveita. Árið 1972 hófu sömu aðilar síðan undirbúning að annarri virkjun í Mjólká sem nýtir fallið úr Langavatni og niður í Borgarfjörð, um 490 m. Byggð var stífla við Langavatn til miðlunar fyrir þáverandi virkjun í Mjólká. Framkvæmdir hófust við byggingu á Mjólká II 1973 og þar með talið Tangavatnsmiðlun. Virkjunin var gangsett 1975. Núverandi Mjólkárvirkjun er því í raun tvær virkjanir sem nýta sama stöðvarhús og aðstöðu í botni Borgarfjarðar.

Á fornleifaslóðum 
Þverá í Steingrímsfirði rennur úr Þiðriksvallarvatni, sem er í um 78,5 m hæð yfir sjávarmáli. Snemma árs 1951 var Rafmagnsveitum ríkisins falið að byggja virkjunina. 200 m langur skurður var sprengdur í haftið út úr vatninu að væntanlegu stíflustæði, vegir lagðir um svæðið og allt efni pantað. Sumarið 1952 var unnið við uppsteypu stíflu, undirstöður fyrir pípu og stöðvarhúsið. Uppsteypu hússins lauk um haustið og var það innréttað um veturinn. 
Sumarið 1953 lauk gerð stíflunnar og þrýstivatnspípan lögð. Um haustið var unnið að uppsetningu vél- og rafbúnaðar. Þverárvirkjun tók til starfa í desember 1953 og var vígð við hátíðlega athöfn 4. september 1954. Næstu áratugina var stöðugt verið að stækka virkjunina og auka afkastagetu hennar en árið 1999 hófst undirbúningur að byggingu 500 m langri jarðvegsstíflu, þar sem núverandi steinsteypt stífla yrði hluti af þeirri nýju. Meðal annars fóru fram athuganir á plöntu- og fuglalífi. Einnig skráning fornleifa. Sumarið 2000 hófust verklegar framkvæmdir við stífluna og lauk gerð hennar um haustið. Einnig fór fram fornleifauppgröftur á bæjarhól Þiðriksvalla. 

Mikið puð 
Reiðihjallavirkjunin á sér líklega sérstæðustu söguna af þeim virkjunum sem reistar hafa verið á Vestfjörðum. Fyrstu framkvæmdir hófust á vegum Hólshrepps sumarið 1929, með stíflugerð fyrir 0,05 Gl inntakslón uppi á Reiðhjallanum. Reiðhjallinn er í um 330 metra hæð og til gamans má geta þess að steypuefni varð að flytja neðan frá sjó, fyrst með bíl fram að Syðradalsvatni þar sem efnið var sekkjað. Þaðan var efnið flutt með pramma yfir vatnið fram í Gilsodda, en áður hafði ós vatnsins verið stíflaður til að hækka vatnsborð til þess að pramminn flyti hlaðinn. Frá Gilsoddanum var síðan efnið flutt að rótum Reiðhjallans og eftir það á klakki upp að stíflustæðinu. Þennan burð þoldu ekki nema hraustustu hestar, því um klungurveg var að fara. 
Í febrúar 1960 voru virkjanirnar í Engidal, Reiðhjallavirkjun í Bolungarvík, Mjólkárvirkjun í Arnarfirði og dísilstöðvar á svæðinu samtengdar. Í maí sama ár var aðveitustöð Rafmagnsveitna ríkisins í Stórurð á Ísafirði tilbúin til notkunar, en þar lágu þræðir stöðvanna saman. Hinn 1.janúar 1978 tók Orkubú Vestfjarða til starfa og tók það við öllum eignum og rekstri Rafveitu Ísafjarðar og þar með Fossavatnsvirkjun. Orkubú Vestfjarða hóf starfsemi sína 1. janúar 1978, með yfirtöku á rekstri Rafveitu Ísafjarðar, Rafveitu Patrekshrepps og þeim hluta Rafmagnsveitna ríkisins er var í Vestfjarðarkjördæmi. Ári síðar bættust við Rafveita Snæfjalla og Rafveita Reykjafjarðar og Ögurhrepps.

Ein heild 
Orkubú Vestfjarða var sameignarfyrirtæki ríkissjóðs og sveitarfélaganna í Vestfjarðarkjördæmi. Eignarhluti ríkissjóðs var 40% en sveitarfélaganna 60%, og skiptist eignarhlutdeild þeirra innbyrðis í hlutfalli við íbúatölu hverju sinni. Þessi skipting eignarhlutdeildar sveitarfélaganna byggði á þeirri hugsun, að rétt sé að hlutur hvers einstaklings í þessu almenningsfyrirtæki vegi jafn mikið, hvar sem hann er búsettur á Vestfjörðum. Orkubú Vestfjarða HF tók til starfa 1. júlí 2001 og tók þá við öllum eignum og skyldum sameignarfélagsins Orkubú Vestfjarða.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga