Greinasafni: Orka
Kolviður
Skóginum skilað.
Umhverfisverkefninu Kolviði var formlega hrint af stað þann 15. maí síðastliðinn með opnun vefsíðunnar www.kolvidur.is. Markmiðið er að hvetja Íslendinga til þess að verða fyrsta þjóð heims til að kolefnisjafna útblástur samgöngutækja sinna með skógrækt. Landvernd og Skógræktarfélags Íslands höfðu frumkvæði að verkefninu en upphaflegu hugmyndina má rekja til tónleika sem pönkhljómsveitin Fræbbblarnir hélt árið 2003 í samvinnu við Landvernd og Skógræktarfélag Íslands. 
Hlýnun andrúmsloftsins er að stórum hluta rakin til losunar koldíoxíðs (CO2). Tré vinna koldíoxíð úr andrúmsloftinu; binda kolefnið (C) og leysa súrefni (O2) út í andrúmsloftið.


Kolviði fylgt úr hlaði í Grasagarði Reykjavíkur.
 
Fyrsta skógræktarland Kolviðar verður Geitasandur á Suðurlandi en Kolviður gerir langtímasamninga við landeigendur og skógræktendur um ræktun kolefnisskóga á áður skóglausu landi. Í fyrstu mun kolviður einbeita sér að bílaflota landsmanna en síðar er ætlunin að flugfarþegum verði boðið að kolefnisjafna flugferðir.


Soffía Waag Árnadóttir framkvæmdastjóri Kolviðar fylgist með þegar forseti
Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, opnar hér vefsíðu Kolviðar, www.kolvidur.is
með því að kolefnisjafna fyrstu einkabifreiðina.

 
Bakhjarlar verkefnisins eru ríkisstjórn Íslands, Kaupþing og Orkuveita Reykjavíkur og í kjölfar þess að Kolviði var ýtt úr vör ákvað ríkisstjórnin að allar bifreiðar stjórnarráðsins verði kolefnisjafnaðar. Jafnframt verður öllum ráðuneytum og ríkisstofnunum gert að kolefnisjafna vegna flugferða ríkisstarfsmanna innanlands og erlendis frá og með næstu áramótum. 
Nafnið Kolviður er rakið til Kolviðar á Vatni en sá var fornkappi sem felldur var við Kolviðarhól og heygður. Aðstandendum verkefnisins þótti nafnið við hæfi til að minna á að um þriðjungur Íslands var skógi vaxinn við landnám en í dag er einungis 1,3% landsins skógi vaxið.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga