Greinasafni: Orka
Orkuöflun í Grímsey

Mynd: Mats Wibe Lund

Grímseyingar fá raforku frá RARIK og er hún framleidd með dísilrafstöð en kælivatn frá stöðinni er nýtt til að hita upp sundlaug eyjarskeggja. Vegna fjarlægðar frá fastalandinu, og fámennis í Grímsey, er ekki talið fýsilegt, með tilliti til kostnaðar, að leggja rafstreng út í eyjuna. Fyrir nokkrum áratugum var gerð tilraun með vindmyllu í Grímsey en sú tilraun fór út um þúfur. 
Í júlí 2001 skipaði þáverandi iðnaðarráðherra nefnd er kanna skyldi hvort og með hvaða hætti unnt væri að koma á fót sjálfbæru orkusamfélagi í Grímsey. Í megintillögum nefndarinnar var lagt til að rannsakaðir yrðu fyrst möguleikar á að finna þar heitt vatn en jafnframt að ráðist yrði í tæknilega úttekt á samkeyrslu á rekstri vindmyllu og dísilrafstöðvar í eyjunni. Gerður hefur verið vindatlas fyrir eyjuna á grunni afar nýtanlegra vindmælinga þar árum saman. RARIK hefur annast raforkuframleiðslu í Grímsey og hefur reglulega fylgst með þróun vindmylla fyrir aðstæður eins og þar eru. Enn sem komið er virðist ekki borga sig að reisa vindmyllur til raforkuframleiðslu í Grímsey, sem kæmu í stað dísilstöðvar, en á móti kemur að þróun í gerð vindmylla hefur á undanförnum árum verið ör. Því er ekki loku fyrir skotið að innan fárra ára verði hagkvæmt að reisa þar vindrafstöð sem rekin yrði samhliða dísilstöð. Grímseyjarhreppur hefur óskað eftir samvinnu við RARIK um jarðhitaleit í eynni á yfirstandandi ári. RARIK hefur ekki tekið þátt í jarðhitaleitinni í Grímsey hingað til en sumarið 2003 var gert átak í leit að jarðhita suðvestan megin á eyjunni. Nú liggja fyrir tillögur þar sem gert er ráð fyrir að bora sunnan byggðarinnar.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga