Greinasafni: Orka
Beislun sjávarfalla
Vísindamenn hefur lengi dreymt um að virkja orkuna í sjávarföllunum en því hefur verið haldið fram að í sjónum sé falin 5.000 sinnum meiri endurnýjanleg orka en sem samsvarar orkuþörf heimsins í dag.

Gerðar hafa verið nákvæmar dýptarmælingar í Hvammsfirði
og sundunum við Stykkishólm.


Tilraunir eru í gangi all víða um heim og sumstaðar stórtækar eins og hin mikla virkjun við Biscayaflóa í Frakklandi sem er um 100 MW. Kostnaður við sjávarfallavirkjanir er enn sem komið er hár en til mikils er að vinna. Félagið Sjávarorka ehf. var stofnað í Stykkishólmi árið 2001 af sex einstaklingum og fyrirtækjum. RARIK keypti síðar hlut í Sjávarorku en markmið félagsins er að rannsaka hvort mögulegt er og hagkvæmt að virkja sjávarföllin í Breiðafirði. 
Verði niðurstaðan jákvæð mun félagið hafa forystu um virkjunarframkvæmdir. Unnið hefur verið að dýptar- og straummælingum og nákvæmri kortagerð á svæðinu en það sem stjórn Sjávarorku hefur lagt aðaláherslu á er að kortleggja það afl og þá orku sem eru í sjávarfallastraumum í innanverðum Breiðafirði áður en ráðist verði í að setja niður hverfla og rafala. 
Að því hefur verið unnið með því í fyrsta lagi að semja við Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. (- VST) um að setja upp reiknilíkan af sjávarföllum við innanverðan Breiðafjörð og tengja það við reiknilíkan Siglingastofnunar af landgrunninu. Í öðru lagi hafa verið gerðar nákvæmar dýptarmælingar í Hvammsfirði og sundunum við Stykkishólm. Það sem hefur komið í veg fyrir að hægt væri að ljúka verkefninu er að ekki hafa fengist marktækar straummælingar sem hægt er að nota í reiknilíkanið og fá þannig heildarmynd af afli og orku svæðisins. Hægt er að virkja sjávarföll á tvo vegu: 
Annars vegar með því að stífla sund og firði, og virkja með þeim hætti hæðarmun sjávarfalla, og hins vegar að virkja hreyfiorku streymisins án þess að hindra streymið sjálft. Fyrri kosturinn hefur verið reyndur á nokkrum stöðum en þykir ekki umhverfisvænn kostur. Síðari kosturinn, að virkja hreyfiorkuna án stíflu, er sú aðferð sem helst er horft til í dag og flest þróunarverkefni byggja á. Til eru nokkrir flokkar straumvirkjana: 

Skrúfuhverflar - Hafa snúningsásinn í stefnu straumsins. 

Skötur - Vængir sem færast upp og niður og pumpa vökva sem drífur vökvamótor sem snýr rafali. 

Venturi - Framkalla sog sem dregur vatn eða loft í gegnum hverfil upp á landi. 

Gegnumstreymishverflar - Hafa snúningsásinn þvert á straumstefnu.
 
Fyrstu hugmyndir Sjávarorku ehf. hnigu í þá átt að leggja brú og veg yfir utanverðan Hvammsfjörð og hafa Darrieus hverfla frá Blue Energy neðan í brúnni. Margir annmarkar voru þó á þeirri framkvæmd og nú er einkum horft til þess að nota svo kallaða Gorlov hverfla en þeir eru ný útfærsla Darrieus hverflanna. 
Bæði Gorlov- og Darrieus hverflarnir eru gegnumstreymishverflar en fyrrnefnda tegundin er með mun betri nýtingu. Slík virkjun yrði alfarið neðanjarðar og hægt að byggja hana upp í áföngum og dreifa hverflunum um svæðið. 
Engar nákvæmar rannsóknir liggja fyrir um virkjanlegan sjávarorku við Ísland en Breiðafjörður virðist vera einn hagkvæmasti staður til virkjunar sjávarfalla. Munur á stórstraumsflóði og -fjöru er þar hátt í 5 metrar og straumhraðinn í Röstinni inn í Hvammsfjörðinn getur farið yfir 24 hnúta, yfir 12 m/sek, við bestu aðstæður. Því er hugsanlegt að í framtíðinni verði umfangsmikil raforkuframleiðsla í Breiðafirði og þá með lágum framleiðslukostnaði. 
Orkuöflunin yrði mjög umhverfisvæn og jafnframt afturkræf. Áður en af því verður er þó rétt að hafa í huga að enn er mörgum spurningum ósvarað og tæknileg og fjárhagsleg óvissa töluverð - hvað sem síðar verður. Beislun sjávarfalla Gorlov hverflar eru gegnumstreymishverflar, einfaldir í hönnun og til þess að gera ódýrir. 63 Gerðar hafa verið nákvæmar dýptarmælingar í Hvammsfirði og sundunum við Stykkishólm.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga