Greinasafni: Orka
Orkustofnun

Niðurgreiðslur og styrkir til rannsókna.

Ríkissjóður leggur á annan milljarð króna árlega til niðurgreiðslna á orkukostnaði landsmanna og auk þess eru veittir styrkir til rannsókna, einkum þeirra sem miða að því að minnka notkun jarðefnaeldsneytis. Hér verður gerð grein fyrir helstu liðum í þessu sambandi.
 

Nánari upplýsingar er að finna á vef Orkustofnunar www.os.is  og vef Orkuseturs www.orkusetur.is  

Jöfnun raforkuverðs til húshitunar
 
Raforka til hitunar íbúðarhúsa hefur í rúma tvo áratugi verið greidd niður og leggur ríkissjóður 1.093,1 m.kr.til málaflokksins á fjárlögum ársins 2007. Niðurgreiðslurnar eru til að jafna búsetuskilyrði landsmanna og renna til þeirra sem búa á svonefndum köldum svæðum og njóta ekki jarðvarma til hitunar íbúðarhúsa, en það eru um 10% þjóðarinnar. 


Ragnheiður Þórarinsdóttir
aðstoðaorkumálastjór.


Stofnstyrkir til hitaveitna
 
Unnið hefur verið að jarðhitaleit á köldum svæðum á undanförnum árum með góðum árangri og njóta sífellt fleiri landsmenn jarðvarma til hitunar. Til að hvetja til stofnunar nýrra hitaveitna og stækkunar þeirra sem fyrir eru, er samkvæmt lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar heimilt að verja árlega allt að 20% af heildarfjárveitingu til niðurgreiðslna húshitunarkostnaðar til að styrkja stofnun nýrra hitaveitna eða til stækkunar hitaveitna. 

Jöfnun kostnaðar í dreifbýli
 
Auk þess að veita styrki til húshitunar leggur ríkið á fjárlögum ársins 2007 230 m.kr. til að jafna kostnaði við dreifingu raforku. Því fjármagni er ráðstafað til að greiða niður kostnað almennra notenda vegna dreifingar raforku á þeim svæðum þar sem Orkustofnun hefur heimilað sérstakar dreifbýlisgjaldskrár. Skilyrði fyrir niðurgreiðslu er að meðaldrefingarkostnaður notenda á orkueiningu sé umfram viðmiðunarmörk sem iðnaðarráðherra setur í reglugerð og er þar tekið mið af hæstu gjaldskrá dreifiveitu í þéttbýli. 

Orkusetur
 
Samkvæmt lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar skal verja til orkusparnaðaraðgerða allt að 1% af því fé sem ákveðið er í fjárlögum til niðurgreiðslna á kostnaði við húshitun og til að styrkja nýjar hitaveitur. Orkusparnaðaraðgerðir skulu stuðla að því að draga úr kostnaði við niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði. Til að vinna að þessum málum var sett á fót svonefnt Orkusetur með aðsetur á Akureyri í samvinnu við KEA, Samorku, iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun og með styrk frá Evrópusambandinu Hlutverk Orkuseturs er reyndar víðtækara en lögin mæla fyrir um, en það er að stuðla að aukinni vitund almennings og fyrirtækja um skilvirka orkunotkun og möguleika til orkusparnaðar. Verkefni Orkuseturs eru ennfremur á sviði nýrra orkugjafa og gerð fræðsluefnis. 

Styrkir til bættrar einangrunar íbúðarhúsnæðis 
Orkusetur veitir á árinu 2007 í fyrsta sinn styrki til bættrar einangrunar húsnæðis. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að húshitunarkostnaður sé niðurgreiddur úr ríkissjóði. Við forgangsröðun umsókna er horft til orkunotkunar í samanburði við viðmiðunargildi fyrir sambærilegt veleinangrað húsnæði. Upphæð styrks til einstakra verkefna getur numið allt að kr. 500 þús., en þó aldrei hærra en 50% af raunkostnaði verkefnis. 

Vettvangur um vistvænt eldsneyti
 
Vettvangur um vistvænt eldsneyti var stofnaður árið 2004 og hefur það markmið að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í málefnum er varða eldsneytisnotkun. Eitt meginverkefnið er að kanna möguleika á því að nota hinar endurnýjanlegu orkulindir okkar til þess að búa til eldsneyti (eða orkubera) sem er umhverfisvænna en það jarðefnaeldsneyti sem við notum og um leið samkeppnishæft. Sem dæmi um orkubera má nefna vetni, lífdísilolíu sem unnin er úr lífrænum úrgangi, metan sem einnig er unnið úr úrgangi, tilbúna gerfidísilolíu og rafmagn.
 
Styrkir Orkusjóðs til verkefna 
Orkustofnun annast daglega umsýslu Orkusjóðs. Hjá Orkustofnun starfar orkuráð sem gerir tillögur til ráðherra um greiðslur úr Orkusjóði. Orkusjóður úthlutar einkum fé til verkefna er miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Þetta skal gert með því: 1. að veita lán til að leita að jarðvarma þar sem hagkvæmt þykir til að draga úr kostnaði þjóðfélagsins við upphitun húsnæðis, 2. að veita styrki eða áhættulán til hönnunar eða smíði frumgerðar tækja og búnaðar til rannsóknar og nýtingar orkulinda, 3. að veita styrki til sérstakra verkefna á sviði hagkvæmrar orkunotkunar, þ.m.t. til fræðslu og upplýsingastarfsemi, 4. að veita styrki til verkefna sem stuðla að nýtingu á innlendri orku í stað jarðefnaeldsneytis og styrkja alþjóðasamvinnu um slík verkefni. Orkusjóður hefur auglýst eftir verkefnum á ofannefndum sviðum einu sinni á ári og úthlutað styrkjum til u.þ.b. 15 verkefna á hverju ári. Fjármögnun úr ríkissjóði árið 2007 er 33 m.kr. 

Styrkir Norræna Orkurannsóknarsjóðsins
 
Norræni orkurannsóknarsjóðurinn http://www.nordicenergy.org/ veitir styrki til rannsókna á sviði orkumála, einkum á sviði loftslagsmála, orkuhagkvæmni, endurnýjanlegrar orku og vetnisrannsókna. Styrkjum var úthlutað síðastliðið haust til fjögurra ára alls 86,2 millj. NOK til 17 verkefna. Tvö verkefnanna eru undir íslenskri stjórn, Climate and energy systems sem Árni Snorrason Vatnamælingum Orkustofnunar stýrir og Nordic CoE on H2 storage sem Hannes Jónsson Háskóla Íslands stýrir. Auk þess eru Íslendingar meðumsækjendur í 5 öðrum verkefnum: Primary energy efficiency, BioH2, Nordic Energy, Energy Forum og New innov. pretreatm. of wood. Næst verða veittir styrkir úr svonefndu N-INNER-verkefni, sem norræni orkurannsóknarsjóðurinn hefur umsjón með, en Orkusjóður tekur þátt í. Þar er nú verið að fjalla um forumsóknir og hafa íslenskir vísindamenn verið duglegir að taka þátt. 


Þeistareykir eru um 20 km suður af Húsavík og hefur hlutafélag verið starfandi mörg
undanfarin ár um rannsóknir á svæðinu með það fyrir  augum að raforkan verði nýtt til
atvinnusköpunar í sýslunni.


Mikil sóknarfæri framundan 
Hér hefur verið fjallað um helstu verkefni Orkustofnunar á sviði styrkveitinga og niðurgreiðslna. Mikil umræða um orku- og umhverfismál hefur átt sér stað að undanförnu og er ljóst að Íslendingar standa framarlega í flokki hvað varðar endurnýjanlega orku. Þá hefur umfjöllun um orkuhagkvæmni eflst að undanförnu, ekki síst með tilkomu Orkuseturs og Vettvangs um vistvænt eldsneyti. Eðlilega horfa þjóðir heims því til Íslands í leit að lausnum og mikil sóknarfæri eru framundan. 


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga