Greinasafni: Orka
Landsnet stjórnar og starfrækir flutningskerfi fyrir raforku í landinuViljum vera góður granni

Stórar háspennulínur sem flytja rafmagn frá virkjunum til viðskiptavina verða í ríkari mæli lagðar í jörð í framtíðinni, enda aukin krafa um slíkt vegna sjónrænna áhrifa í umhverfinu. Kostnaður við þetta er hins vegar allt að nífallt meiri og því viðbúið að það komi fram í flutningskostnaði þeirrar orku sem viðkomandi flutningsvirki þjóna. Þetta segir Þórður Guðmundsson forstjóri Landsnets hf. en hann telur að hærri flutningskostnaður leiði ekki til hækkunar raforkuverðs, heldur muni fyrirsjáanlegar raunlækkanir á gjaldskrá ekki ná jafn hratt fram að ganga og áætlað var. 
Landsnet hf. er með höfuðstöðvar sínar við Krókháls í Reykjavík - en flytur brátt að Gylfaflöt í Grafarvogi þar sem öll meginstarfsemin verður undir einu þaki. Þá hefur fyrirtækið nýlega opnað starfsstöð á Austurlandi vegna aukinna verkefna í tengslum við stóriðjuna þar og hugmyndir eru uppi um samskonar starfsstöð á Norðurlandi í komandi framtíð. Starfsmenn á launaskrá hjá Landsneti eru nú 78 auk þess sem fjöldi verktaka kemur að starfseminni með einum eða öðrum hætti. 
Það var í ársbyrjun 2005 sem Landsnet tók til starfa, í kjölfar breytinga á raforkulögum, en inntak þeirra er að koma á samkeppni á íslenskum raforkumarkaði. Landsnet gegnir mikilvægu hlutverki við að skapa markaðsumhverfi fyrir samkeppni með raforku, ásamt því að starfrækja og annast uppbyggingu flutningskerfis fyrir raforku en samkvæmt lögunum lýtur sú starfsemi sérstöku eftirliti Orkustofnunar, m.a. varðandi verðlagningu. 
„Það má segja að flutningskerfið sé markaðstorgið, þar sem heildsöluviðskipti með raforku fara fram, einskonar þjóðbraut sem rafmagnið streymir um og allir eiga jafnan aðgang að. Hlutverk okkar er að starfrækja kerfið og stýra umferðinni,“ segir forstjóri Landsnets og bætir við að nú þegar hafi verið innleidd öll þau lög og reglugerðir sem nauðsynleg hafi verið, svo eðlileg markaðsviðskipti í raforkugeiranum geti átt sér stað.

Flæði raforku frá virkjunum til notenda. Myndin sýnir flæði orkunnar frá virkjunum inn á flutningsnet Landsnets og þaðan til stórnotenda eða dreifiveitna sem flytja orkuna áfram til heimila og fyrirtækja um sín eigin dreifikerfi. 

Flæði raforku frá virkjunum til notenda. Myndin sýnir flæði orkunnar frá virkjunum inn á flutningsnet Landsnets og þaðan til stórnotenda eða dreifiveitna sem flytja orkuna áfram til heimila og fyrirtækja um sín eigin dreifikerfi.

Aukin samkeppni þegar fram í sækir
 
Fyrirtækin sem í dag framleiða og selja raforku sem fer inn á kerfi Landsnets eru Orkuveita Reykjavíkur, Hitaveita Suðurnesja, Rarik, Orkbú Vestfjarða og Landsvirkjun - sem er þeirra langstærst og einbeitir sér að orkusölu til stórnotenda. „- 
Í dag getur sérhver raforkunotandi valið frá hverjum hann kaupir raforkuna. Fólk hefur frjálst val. Samkeppnin er hins vegar takmörkuð enn sem komið er, sem sést best á því að gjaldskrá raforkufyrirtækjanna er nokkuð sambærileg.“ 
Á þeim rúmlega tveimur árum sem liðin eru frá því markaðurinn opnaðist hafa mun færri orkukaupendur hérlendis skipt um orkusala en gerst hefur erlendis. „Meðan verðmunur frá einu fyrirtæki til annars er jafn lítill og raunin ber vitni þykir fólki ekki taka því að skipta um orkusala. Ég hef þó trú á að þetta breytist eftir því sem orkufyrirtækin styrkjast og samkeppnin á milli þeirra eykst. Við slíkar aðstæður aukast líkur á virkum raforkumarkaði.“

Skyndimarkaður fyrir raforku 
Forstjóri Landsnets segir að undanfarið hafi einnig verið unnið að því á vegum fyrirtækisins að koma á laggirnar „skyndimarkaði“ fyrir raforku. Á stundum geti myndast þær tímabundnu aðstæður að raforkuframleiðandi sé með umframgetu; framleiði meira af rafmagni inn á kerfi Landnets en fastir viðskiptavinir hans hafi þörf fyrir. Á sama tíma geti og verið uppi þær aðstæður að aðrir framleiðendur hafi ekki sakir álags svigrúm til að sinna eftirspurn viðskiptavina sinna eftir orku. Við þessar kringumstæður myndist því ákveðið svigrúm og þörf fyrir vettvang til að geta átt viðskipti með þessa raforku. 
„Þeir sem gætu orðið virkir kaupendur á raforkumarkaðnum auk orkufyrirtækjanna eru stóriðjuver, fiskvinnslufyrirtæki og svo garðyrkjubændur sem eru mjög stórir orkukaupendur vegna næturlýsingar í gróðurhúsum sínum yfir vetrartímann,“ segir Þórður. Hann segir að undanfarið hafi Landsnet átt í viðræðum við norrænu raforkukauphöllina, Nord Pool, um að taka að sér að annast þessi viðskipti. „Það myndi opna möguleika á viðskiptum með raforku á opnum markaði með öruggum og hagkvæmum hætti því við myndum ganga beint inn í fullmótað og þrautreynt markaðsumhverfi fyrir raforkuviðskipti sem væri öllum til mikilla þæginda.“


Milljarða uppbygging 
Framkvæmdir og fjárfestingar við uppbyggingu flutningskerfisins síðustu fjögur árin hafa verið þær mestu frá upphafi. Fjárfest hefur verið að jafnaði fyrir um sex milljarða króna á ári síðustu þrjú árin. Lang stærsta verkefnið hefur verið lagning Fljótsdalslínu 3 og 4, frá Fljótsdalsstöð að álveri Alcoa við Reyðarfjörð, en það er fjárfesting upp á um 10 milljarða króna. Þá er nýlega lokið umfangsmiklum framkvæmdum við Sultartangalínu 3 og spennustöðina á Brennimel á Hvalfjarðarströnd vegna stækkunar Norðuráls, svo fátt eitt sé nefnt. 
„Ef þær framkvæmdir við uppbyggingu orkufreks iðnaðar sem hafa verið í umræðunni verða að veruleika, sjáum við fram á að þurfa að fjárfesta fyrir um 30 milljarða króna til viðbótar á næstu fimm árum,“ segir Þórður. 
Af öðrum stórum verkefnum sem Landsnet vinnur að má nefna mat á öllum svæðisbundnum flutningskerfum fyrirtækisins. „Við höfum þegar lokið vinnu við úttekt og gerð kerfisáætlana fyrir Suður- og Austurland og nú er unnið að samskonar áætlun fyrir Vestfirði,“ bætir forstjórinn við.

Aukin áhersla á jarðstrengi 
Umhverfismál skipa æ meiri sess í rekstri fyrirtækja og leggur Landsnet áherslu á að fylgja ítrustu kröfum í því sambandi. Fyrirtækið setti sér strax metnaðarfulla stefnu í umhverfismálum og hefur leitast við að bregðast við þeim óskum og kröfum sem fram hafa komið í þeim efnum. 
„Á síðustu mánuðum höfum við til dæmis skynjað að kröfurnar eru aðrar og meiri en áður var og því hefur verið ákveðið að leggja strengi í jörð í meiri mæli en tíðkast hefur til þessa. Þetta á til dæmis við um nýja háspennulínu frá Nesjavöllum til Reykjavíkur og sama gildir um línurnar sem lagðar verða að fyrirhuguðu álveri Norðuráls vð Helguvík. 
„Almennt má því segja að reynt sé að horfa til lagningu jarðstrengja eins og þess er frekast kostur og kostnaður leyfir,“ segir Þórður en sums staðar geti lagning strengja í jörðu valdið meiri röskun á umhverfinu en lagning línu þó svo sjónrænu áhrifin af línunni geti verið meiri. Þá þurfi einnig að taka tillit til þess að strengir séu ekki eins áreiðanlegir og loftlínur. Ef þeir bili, eða fari í sundur, geti tekið lengri tíma að finna bilunina og gera við hana. „Við leggjum því mikla áherslu á að finna hentugustu lausina hverju sinni til að flytja rafmagnið frá virkjunum til notenda, hvort heldur sem er til einstaklinga eða til atvinnustarfsemi.“ 

„Við viljum vera góður granni,“ segir Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets með áherlsu. „Allt okkar starf tekur mið af því. Umhverfisáhrif framkvæmda eru alltaf metin áður en hafist er handa og þegar verkefni lýkur bjóðum við sveitarstjórnum, hagsmunaaðilum og raunar öllum þeim sem áhuga hafa, að taka verkið út og koma með thugasemdir ef einhverjar eru.“

Landsnet tekur virkan þátt í uppgræðslu 
„Við viljum vera góður granni,“ bætir forstjóri Landsnets við með áherlsu. „Allt okkar starf tekur mið af því. Umhverfisáhrif framkvæmda eru alltaf metin áður en hafist er handa og þegar verkefni er lokið þá bjóðum við sveitarstjórnum og hagsmunaaðilum að taka verkið út með okkur og koma með athugasemdir ef einhverjar eru. Þetta hefur gefist afar vel og skapað gagnkvæmt traust milli aðila. Því verður hins vegar ekki á móti mælt að mannvirkin setja svip á landið - sem sumir vilja kalla sjónmengun - og fyrir slíkt viljum við að sjálfsögðu bæta með einhverju móti. Þannig veittum við tíu milljóna króna styrk vegna Sultartangalínu 3 sem að ráði Landgræðslunnar verður varið til uppgræðslu á örfoka svæði inn við Hofsjökul,“ segir Þórður. 
Hann bætir við að sama verði gert á Austurlandi vegna Fljótsdalslínu, þótt ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvaða landbótaverkefni eystra muni njóta stuðnings Landsnets. „Ég tel þetta skýran vitnisburð um metnaðarfulla stefnu okkar í umhverfismálum - og að við erum góðir grannar,“ segir Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, að lokum.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga