Greinasafni: Orka
Fjárfest í jarðorkuþekkingu

Geysir Green Energy er fjárfestingarfyrirtæki á sviði endunýjanlegrar orku með megináherslu á jarðhita. Fyrirtækið sem var stofnað í upphafi ársins beinir sjónum sínum sérstaklega að svæðum utan Íslands, einkum í Bandaríkjunum, Mið- og Austur-Evrópu og ákveðnum svæðum í Asíu.

Ásgeir Margeirsson forstjóri 

„Við förum ýmsar leiðir í fjárfestingum okkar, segir Ásgeir Margeirsson forstjóri fyrirtækisins. Við eigum hlut í þremur íslenskum félögum sem eru með starfsemi erlendis og í gegnum þau tökum við þátt í erlendum verkefnum. Þau eru ENEX, ENEX KÍNA og EXORKA. Þar fyrir utan er Geysir með verkefni, ótengd þessum félögum, í vinnslu á áðurnefndum svæðum.“ Þegar Ásgeir er spurður hvað hann eigi við með endurnýjanlegri orku segir hann það geta verið jarðhita hvort sem er heitt vatn eða gufa, sem og sól, vindur og vatnsafl en minni og meðalstórar vatnsaflsvirkjanir eru í mörgum löndum taldar endurnýjanlegar. 
Einnig segir hann lífrænan úrgang, sem kallaður er lífmassi eða lífgas vera endurnýjanlegan. „Við erum hins vegar ekki að beita okkur á þessum sviðum enn sem komið er. Við einbeitum okkur að jarðhitanum, í fyrsta lagi vegna þeirrar þekkingar sem hér er orðin til á því sviði. Hún er afar mikilvæg. Í öðru lagi vegna þess að við teljum að jarðhiti hafi ekki fengið nægilega athygli. Við viljum leggja okkar af mörkum til að efla vægi hans. 
Annars staðar hafa menn lagt mikla áherslu á sólar- og vindorku, sem og orku úr lífrænum úrgangi en okkur finnst eðlilegt að við komum okkar þekkingu á beislun jarðvarma á framfæri.“ 

Ódýrara að grípa til aðgerða strax
 
Þegar Geysir Green Energy var stofnað í upphafi ársins lágu fyrir eignarhlutar í áðurnefndum þremur fyrirtækjum, auk hugmynda um fleiri verkefni. Eigendur Geysis eru FL Group, með 35% eignarhluta, Glitnir með 25% hlut, VGK hönnun með 10% og Reykjanesbær 2,5 %. Þessa dagana er verið að ganga frá sölu þeirra hluta sem út af stóðu við stofnun. Heildarhlutafé Geysis er eitt hundrað milljónir bandaríkjadala eða um sjö milljarðar króna. 
Ásgeir segir fyrirtækið ekki vera að fara á markað strax. Við reiknum með að auka hlutafé og tvö til þrefalda það á næstu misserum, segir hann. „Það er geysimikill áhugi á fjárfestingum af þessu tagi í heiminum og við reiknum með að setja félagið á markað eftir 4-5 ár. En áður en það verður, áætlum við að fjárfestingageta þess verði orðin um einn milljarður bandaríkjadala.“ Ásgeir segir áhuga á endurnýjanlegri orku ekki nýjan af nálinni en hann fari örtvaxandi. 
„Fyrir því liggja nokkrar ástæður. Á síðasta ári komu fram margar stórar skýrslur um loftlslagsbreytingar, meðal annars frá Sameinuðu þjóðunum, Evrópusambandinu og MIT en kannski var Stern-skýrslan frá Bretlandi þeirra mikilvægust. Niðurstöðum þessarra rannsókna bar saman í öllum meginatriðum sem varð til þess að menn hættu að rífast um það hvers vegna loftslagsbreytingar eiga sér stað; hvort þær eru af náttúrulegum völdum eða mannavöldum. 
Í stað þess að þrasa um ástæður eru menn farnir að sammælast um að bregðast við þessum breytingum. Ef ekkert er að gert núna, getur orðið æði dýrt að ætla að bregðast við seinna. Það er mun ódýrara að grípa til aðgerða nú þegar. Það er ekki síst Stern-skýrslunni að þakka að menn fóru að sammælast um aðgerðir. Stern var ekki bara að sýna fram á líffræðilegar og tæknilegar afleiðingar, heldur hagfræðilegar en allar þessar skýrslur ýta undir nýtingu endurnýjanlegra orkulinda.

Islenska lúxusvandamálið
 
Hvað varðar ákvörðun Geysis um að leggja megináherslu á nýtingu jarðhita, segir Ásgeir mörg lönd hafa mikla reynslu af vinnslu á endurnýjanlegri orku en þó ekki jarðhita. „Á meðan aðrar þjóðir hafi einbeitt sér að sólar- og vindorku, sem og lífmassa og -gasi, hafi Íslendingar byggt upp gríðarmikla þekkingu á jarðhita og vatnsafli. Hins vegar er ekki nóg að búa yfir þekkingunni. 
Það verða að vera vissar forsendur fyrir hendi til að hægt sé að koma henni á markað, segir hann. Við höfum notið mjög dyggs stuðnings stjórnvalda hér á landi í okkar starfi, svo sem forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, utanríkisráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, umhverfisráðuneytis sem og forseta Íslands og Útflutningsráðs. 
Þessir aðilar hafa allir verið mjög jákvæðir og þar hefur utanríkisþjónustan spilað stórt hlutverk vegna þess að sendiherrar okkar í ýmsum ríkjum hafa aðstoðað okkur af fremsta megni. Ég vil, til dæmis, leyfa mér að fullyrða að þau verkefni sem við höfum starfað að í Kína á seinustu misserum hefðu aldrei orðið að veruleika ef við hefðum ekki sendiráð þar í landi. 
Er of algengt að Íslendingar sjái ofsjónum yfir þeim fjármunum sem varið er í rekstur sendiráða erlendis en staðreyndin er sú að án þeirra yrði mun flóknara fyrir okkur að flytja út sérstöðu okkar og þekkingu. Kostnaðurinn skilar sér margfalt til baka.“ Ásgeir segir okkur Íslendinga mjög meðvitaða um gildi endurnýjanlegrar orku en kannski ekki að sama skapi upplýsta um hversu mikil verðmæti felast í henni. 
„Við Íslendingar verjum, til dæmis, lengri tíma undir sturtunni en þekkist annars staðar á byggðu bóli. Við opnum líka gluggana þegar okkur verður of heitt í stað þess að skrúfa niður í ofnunum. Við eigum svo mikla endurnýjanlega orku að við búum við lúxusvandamál og höfum full lítinn áhuga á því hvernig við nýtum þessa orku.“ 

Vilji og þor til fjárfestinga 
En fleira þarf að koma til í fjármögnun útrásar á orkusviðinu en stuðningur stjórnvalda. 
Grunnurinn sem Geysir sprettur upp úr er sú þekking sem hefur orðið til hér á landi á fjölmörgum áratugum, sem og það efnahagsumhverfi sem við búum við í dag. „Verkefni af þessu tagi væri ekki mögulegt hér, ef ekki væru til fyrirtæki sem hefðu vilja og þor til að fjárfesta erlendis, segir Ásgeir. 
Tæknilegu forsendurnar hafa legið fyrir í marga áratugi. Til að ýta fyrirtæki eins og Geysi af stað þurfa þrjár forsendur að vera fyrir hendi, það er að segja, tæknilegur grunnur, fjárfestingargeta okkar og þörfin erlendis sem er alltaf að aukast. 
Þegar þú leggur þetta þrennt saman, gengur dæmið upp. Fjárfestingargetan er til staðar núna. Hún var það kannski ekki fyrir þremur árum og ef við hefðum beðið í þrjú ár í viðbót, hefðum við að öllum líkindum misst af lestinni. Þess vegna var ákveðið að fara af stað í upphafi þessa árs. Við höfum tæknilegt forskot og ef það verður stöðnun í orkumálum á Íslandi, þá töpum við þessu forskoti. 
Við Íslendingar erum núna með sérstaklega góða stöðu vegna þess að mesta þróun sem orðið hefur í jarðhitamálum í heiminum á seinustu árum, hefur verið hér á landi. Þessu forskoti megum við ekki glutra niður. Þetta er bara eins og í öllum keppnisíþróttum. 
Maður verður ekki lengi bestur ef maður hættir að æfa. Fjárfest í jarðorkuþekkingu Ásgeir Margeirsson forstjóri Geysis Green Energy ehf. segir rétta tímann til að markaðssetja sérstöðu Íslands erlendis vera núna Ásgeir Margeirsson forstjóri Geysis Green Energy ehf.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga