Greinasafni: Orka
Verkefni í 30 löndum

Orka er okkar mál 

Línuhönnun fæst við alhliða ráðgjöf í verkfæði, í tæknigreinum og við misflókin skipulagsverkefni. Fyrirtækinu er skipt í deildir eða svið. Orkusvið Línuhönnunar er samsett úr tveimur starfseiningum sem fást við undirbúning, hönnun og eftirlit orkumannvirkja. 
Önnur einingin sér um háspennulínur og tengivirki og á rætur að rekja til stofnunar fyrirtækisins. Hin einingin er umsvifamikil og fæst við virkjanir. Orkusviðið hefur unnið að undirbúningi, hönnun og eftirliti háspennulína og tengivirkja í 30 löndum en auk þess hefur Línuhönnun tengst verkfræðivinnu við nær allar innlendar háspennulínur hér á landi. 
Verkfræðistofan hefur líka unnið lengi að ráðgjöf er varðar viðhald og viðgerðir á stöðvarhúsum vatnsaflsvirkjana, mannvirkjum vegna jarðgufuvirkjana og steyptum stíflum. Nú hefur undirbúningsvinna við vatnsaflsvirkjanir og hönnun þeirra bæst við, auk almenns eftirlits með framkvæmdum við þær. 

Að þjónusta notendur um allan heim 
Nýjustu línuverkefni okkar hér á landi lúta að hönnun 400 kV háspennulína frá Sultartanga að álveri í Hvalfirði og hönnun 400 kV háspennulína frá Kárahnjúkavirkjun til álvers í Reyðarfirði. 
Af erlendum verkum má nefna hönnun einnar stærstu háspennulínu í Evrópu, í Póllandi, og hönnun háspennulínu á Suður-Grænlandi með vírum yfir Einarsfjörð í 3,6 km löngu bili milli mastra, en það er eitt af tíu lengstu höfum í heimi. 
Verkfræðistofan hefur unnið mörg verk í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Frakklandi og í Afríku og er sumum ekki lokið. Í Frakklandi hefur Línuhönnun, ásamt Hecla, unnið við verkefni í þrjú ár og enn eigum við eftir að vinna í tvö ár við að styrkja franska raforkukerfið. 
Orkusviðið hannar líka styrkingar í háspennulínu í Burkina Faso og Línuhönnun kannar þjónustumarkaði í Rússlandi og víðar. 

Faglegt öryggi í fyrirrúmi 
Eftirlit með endurbyggingu rafstöðva við Sogið var á hendi Línuhönnunar en Landsvirkjun rekur stöðvarnar. Í um 20 ár höfum við sinnt faglegri ráðgjöf vegna viðhalds orkuvers í Svartsengi fyrir Hitaveitu Suðurnesja. 
Árið 2001 vann fyrirtækið, með samstarfsaðilum, samkeppni um hönnun Búðarhálsvirkjunar á Þjórsár-Tungnaársvæðinu (100 MW) og í framhaldi var útboðshönnun verksins unnin. Við, ásamt innlendum og erlendum samstarfsaðilum, urðum árið 2003 hlutskarpastir í samkeppni um faglegt eftirlit með byggingu 50 km langra ganga og þriggja stífla (hæst 200 m), vegna Kárahnjúkavirkjunar (690 MW). 
Línuhönnun tók einnig þátt í að hanna steypt mannvirki Kárahnjúkastíflu. Árið 2006 vann verkfræðistofan samkeppni, ásamt Verkfræðistofu Austurlands, um faglegt eftirliti með framkvæmdum við Ufsárstíflu og Hraunaveitu sem eru hluti vatnsaflsmannvirkjanna eystra. 

Hönnun og viðgerðir 
Línuhönnun leggur metnað í viðgerðir og endurbætur gamalla og merkra mannvirkja, allt frá Þjóðmenningarhúsinu og Alþingishúsinu til Hólakirkju og Þjóðleikhússins. Fyrirtækið annaðist t.d. endurbætur á Ljósafosstöð við Sog sem tók til starfa 1937. Það hefur einnig komið að hönnun nýrra orkumannvirkja, t.d. að útboðshönnun Búðarhálsvirkjunar og hönnun Kárahnjúkastíflu, auk annarra mannvirkja heima og heiman.

Eftirlit 
Afar mikilvægt er að hafa faglegt eftirlit með mannvirkjagerð, þ.e. sjá til þess að farið sé eftir teikningum, útreikningum og forskrift hönnuða, innan áætlaðs tíma- og kostnaðarramma. Þetta er sérlega ljóst þegar um stórframkvæmdir er að ræða, t.d. stíflugerð, jarðgangagerð og virkjanasmíði. Línuhönnun hefur m.a. tekið þátt í eftirliti með gerð Kárahnjúkavirkjunar og tilheyrandi mannvirkja.

Útrás 
Línuhönnun hefur um árabil sinnt erlendum verkefnum sem varða háspennulínur. Fyrirtækið átti þátt í að stofna ráðgjafafyrirtækið Hecla í París og hefur unnið við verkefni í 30 þjóðlöndum, frá Grænlandi og Póllandi til Tyrklands og Burkina Faso. Línuhönnun hefur keypt hlut í hönnunarfyrirtæki í Rússlandi og Póllandi.

Línuhönnun hf. | Suðurlandsbraut 4A | 108 Reykjavík | sími: 585 1500 | fax: 585 1501 | lh@lh.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga