Greinasafni: Orka
Íslensk Nýorka - Vetnissamfélagið

Vetnisstrætisvagn og vetnisfólksbíll frá Daimler Chrysler hlið við hlið.

Fyrir um þrjátíu árum spáði Bragi Árnason, prófessor við Háskóla Íslands, að Ísland gæti orðið óháð jarðefnaeldsneyti og hélt því fram að vetni yrði eldsneyti framtíðarinnar. Teknar voru saman skýrslur og áætlanir á vegum Orkustofnunar um framleiðsluhætti, hugmyndir að dreifingu og aðlögun að núverandi orkukerfi, svo fátt eitt sé nefnt. 
Árið 1999 var ákveðið að láta reyna á kenninguna um að vinna og nota vetni sem eldsneyti. Íslensk NýOrka var stofnuð með það að leiðarljósi að nýta niðurstöður tilrauna til að undirbúa og stuðla að vetnisvæðingu íslenskra samgangna ef úr niðurstöðunum fengist jákvæður árangur. Markið var sett á að gera þrjár megintilraunir með að nota vetni við íslenskar aðstæður: Tilraunaakstur strætisvagna í Reykjavik, akstur fólksbíla á vetni og ekki síst að nýta vetni til sjós. Nú er síðari hluti þessara tilrauna að skríða af stað og niðurstöður fyrri verkefna gefa tilefni til að halda áfram af krafti. 
Stærsti hluthafi NýOrku er Vistorka, en að henni standa Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins, Orkuveita Reykjavikur, Landsvikjun, Áburðarverksmiðjan, Háskóli Íslands, Iðntæknistofnun, Iðnaðarráðuneytið og Aflvaki. Tæplega helmingur NýOrku, eða 49%, er í eigu alþjóðlegra fyrirtækja: DaimlerChrysler, Norsk Hydro og Shell Hydrogen. 

Vetnisljósavél verður komið fyrir 
í hvalaskoðunarskipinu Eldingu og 
þar verður möguleikar vetniskerfa kynntir ítarlega.


Vetnisstrætisvagnarnir framar björtustu vonum 
NýOrka sótti um styrk til Evrópusambandins til að hrinda ECTOS (Ecological City TranspOrt System) í framkvæmd en fyrst var byggð vetnisstöð við Grjótháls. Í þrú ár, 2003 -2006, voru vagnarnir á götum borgarinnar í almennri umferð. Fylgst var grannt með vögnunum, nýtni þeirra mæld, bilanatíðni skráð, þægindi í akstri metin og upplýsingum safnað um viðhorf farþega og almennings til tilraunanna. Niðurstöðurnar voru teknar saman árið 2006 og eru öllum aðgengilegar á heimasíðu fyrirtækisins, www.vetni.is
Markmið verkefnisins var að læra af því að reka slíkt kerfi frá upphafi til enda og greina bílaframleiðendum, orkuveitendum, viðhaldsteyminu og þeim sem byggðu stöðina frá því hvernig búnaðurinn reyndist. Ítarlegum gögnum var safnað um framleiðslueininguna, rafgreininn í stöðinni og efnarafölunum á vögnunum. Í fyrstu var ætlunin að keyra vagnanna, sem einungis voru smíðaðir í tilraunaskyni, í tvö ár. Reynslan var hins vegar svo góð að haldið var áfram í ár til viðbótar með sama búnaði til að prófa ýmis samhæfingaratriði kerfisins enn frekar. Í verkefnislok voru tveir vagnanna hlutaðir sundur og þeir endurnýttir í aðra vagna en þriðji vagninn fer í heilu lagi á samgöngusafnið í Skógum í fræðsluskyni. 
Af þeirri reynslu sem fékkst af akstrinum, sem og sambærilegri tilraun sem ýtt var úr hlaði hálfu ári síðar í mörgum borgum Evrópu, var síðan tekið mið við framleiðslu næstu kynslóðar vagna sem beðið er með óþreyju. Tæknin stóðst væntingar þótt nýtinging hefði mátt vera betri. Þrjátíu kg af vetni dugðu til 100 - 250 kílómetra aksturs, allt eftir því hvort um langkeyrslu eða borgarakstur var að ræða. Í næstu kynslóð vagnanna verður efnarafalinn léttari, minni um sig og sparneytnari. Önnur rafkerfi (þurrkur, hitun, ljósabúnaður) verða endurbætt og sett upp með rafgeymum, ofurþéttum (super-capacitors) og búnaði sem geymir orku frá hemlun vagnsins sem verður staðalbúnaður í flestum gerðum ökutækja í framtíðnni. Segja má að efnarafalar séu enn í svo örri þróun að framleiðendur veigri sér við að setja þess háttar ökutæki í fjöldaframleiðslu því að daginn eftir að bíll keyrir úr hlaði er til enn betri útfærsla. 
Íslensk NýOrka hefur tekið þátt í fjölmörgum Evrópusamstarfsverkefnum svo sem gerð handbókar um hönnun vetnisstöðva, framtíðarsýn vetnisnotkunar í Evrópu og rannsóknaverkefni er lýtur að umhverfisáhrifum mismunandi orkutækni. Þá hefur félagið einnig tekið þátt tilraun með að nýta rafala og vetni sem vararafstöð, lífsferilgreiningu á vetnistækni og fleiru sem nýta má til að skipuleggja og fullnýta reynsluna til frekari afreka. 


Ýmis tæki eru fáanleg sem ganga fyrir vetni, hljóðlausar skellinöðrur, 
togvagnar fyrir sjúkrahús og flugvelli og lyftarar.


Framtíðin er komin 
Undirbúningur að næstu skrefum til aukinnar notkunar vetnis sem eldsneytis á farartæki er nú hafinn. Ýmsar gerðir vetnisfólksbíla verða notaðar í þjónustuflota fyrirtækja og gerðar verða tilraunir með notkun vetnis um borð í báti. 
VistOrka hefur ákveðið að leggja fram á þriðja hundrað milljónir króna til kaupa á vetnisbílum og vetnisljósavél í bát. Markmiðið er að fá til landsins um 30 vetnisknúna fólksbíla til að safna reynslu og þekkingu. Í ár munu 12 bílar koma til landsins, ýmist búnir efnarafala eða sprengihreyfli. Notendur verða einkum orkufyrirtækin en einnig mun Hertz á Íslandi taka bíla sem almenningur eða ferðamenn geta tekið á leigu og þannig reynt tæknina. 
Vetnisknúnum ökutækjum mun fjölga jafnt og þétt á Íslandi á næstu árum og því er mikilvægt að finna lausn á því hvernig hentugast er að standa að vetnisdreifingu fyrir hinn almenna neytanda. Fram til ársins 2009 verða mörg tilraunaökutæki í umferð og enn er hægt að fjölga fyrirtækjum sem áhuga hafa á að taka þátt í verkefninu. Tilraunabílarnir verða undir ströngu eftirliti og gögnum verður safnað um elsneytisnýtingu, bilanatíðni og aksturseiginleika. 
Ljóst er að með vaxandi eftirspurn er erfitt fyrir notendur að sækja alla þjónustu á eina vetnisstöð en ef vel gengur er stefnt að því auka dreifingu vetnis í Reykjavík. Það mun skoðast með tilliti til borgarskipulags, umferðarþróunar og eftirspurnar hversu hratt er hægt að auka dreifinguna. Einungis þarf vatn og rafmagn til að framleiða vetni og því eru engir tæknilegir annmarkar á að setja niður fleiri stöðvar, að því gefnu að þetta tvennt fari saman. 

Samgöngur á sjó 
Vetnisljósavél um borð í haffari er nýjung í heiminum en bátar knúnir efnarafali hafa eingöngu verið reyndir á vötnum hingað til. Óvíst er hvaða áhrif sjávarumhverfi hefur á efnarafala en alla jafnan fer selta og bleyta ekki vel í rafbúnað. Þetta verkefni er að stofni til islenskt. Öll hönnun kerfisins verður unnin af innlendum aðilum og niðurstöður verða því eign innlendra aðila sem sjá markaðstækifæri þessu tengd. Það er eingöngu efnarafalinn og kerfið sem verða erlend smíð. Vetnið mun koma frá vetnisstöðinni í Grjóthálsi en fjölmörg innlend fyrirtæki koma að framkvæmdinni. Slík þróunarverkefni gefa innlendum aðilum möguleika á að taka þátt í tækniþróun á heimsmælikvarða og niðurstöðurnar gætu orðið mikilvægt skref varðandi orkuþróunarverkefni á Íslandi. 
Verkefnið er ekki síður merkilegt fyrir þær sakir að ákveðið hefur verið að setja búnaðinn um borð í hvalaskoðunarbátinn Eldingu. Vetnisljósavélin verður því sýnileg almenningi og gæti það orðið merkileg upplifun fyrir ferðamenn, jafnt innlenda sem erlenda, að fljóta um Atlantshafið í yndislegri þögn, fjarri hávaða sem fylgir díselvélum. Að auki er engin mengun frá þessari ljósavél; einungis hreint eimað vatn. 


Samfella í verkefnum NýOrku. Vetnisvagnaverkefnið hófst árið 2001, Vetnisstöðin 
var vígð 2003 og vögnumum ekið þar til í janúar 2007 (þó með hléum). Nokkur 
bátarannsóknaverkefni (New-H-Ship) hófust þegar árið 2004 en í ár verður fyrst 
sett vetnisljósavél um borð í skip. Tilraunaakstur með vetnisfólksbíla hefst 2007 
en það verkefni hefur einnig átt sér langan aðdraganda.

 
Af alþjóðavettvangi 
Verkefni Íslenskrar NýOrku hingað til sýna þann hug sem er í íslenskum fyrirtækjum varðandi framtíð vetnissamfélags. En NýOrka er ekki ein í heiminum. Nýlega komu út á meginlandi Evrópu tvær skýrslur sem skýra frá því að hægt er að útvega næga orku með því að virkja vind og nýta nýjustu sólarorkutækni til að vinna vetni fyrir samgöngur allra Evrópubúa. Margar þjóðir hafa nú þegar komið sér upp stefnu í vetnis- og eldsneytismálum. 
Öll stóru bílafyrirtækin og flest olíufyrirtækin miða sína þróun við að vetni verði lykileldsneyti sem taka muni við af jarðefnaeldsneyti. Þó er ljóst að mismunandi eldsneyti verður fyrir valinu eftir þvi hvaða auðlindir eru fyrir hendi á hverjum stað. Ef tekst að nýta endurnýjanlega orku og hámarka nýtni hverrar orkukeðju þurfa þjóðir ekki að óttast eldsneytisþurrð. Hér á landi er til gnægð rafmagns og vatns. Jafnframt nær dreifikerfi rafmagns til hvers landshluta svo líklegast er að vetni verði unnið á hverjum stað í samræmi við eftirspurn. Þungaflutningar eldsneytis myndu þar með snarminnka sem aftur myndi minnka álag á þjóðvegi landsins og draga úr slysahættu í umferðinni. Þjóðhagslegur ávinningur af almennri notkun vetnis er því mikill og margþættur. 
Spáð er framleiðsluaukningu á vetnisbílum eftir árið 2012 og því er skynsamlegt að huga nú þegar að nauðsynlegum samfélagslegum ráðstöfunum. Breytingarnar ganga ekki yfir á einni nóttu og rétt er að hafa í huga að tækifærin eru mörg. Því er mikilvægt að sem flestir íslenskir aðilar leggist á árarnar en með þeim hætti getur vetnissamfélagið orðið að veruleika fyrr en margur heldur - Framtíðin er núna! 

Fróðleiksmolar 
-Dreifikerfi rafmagns nær til allra landshluta svo líklegast er að vetni verði unnið vítt og breitt um land í framtíðinni og þá í samræmi við þarfir og eftirspurn á hverjum stað. Draga mun úr þungaflutningum eldsneytis um þjóðvegi landsins sem aftur leiðir til minna slits á vegum og minni slysahættu í umferðinni 
-Borgir beggja vegna Atlantsála hafa tekið höndum saman um að bjóða út smíði nokkur hundruð vetnisstrætisvagna. 
-Vetni og súrefni verður til þegar rafmagn klýfur vatn. Efnarafli breytir vetni og súrefni í rafmang og vatn. 
-Norðmenn, Kanadabúar, Bandaríkjamenn, Þjóðverjar og Japanar eru öflugir í vetnisþróun. Indverjar smíða efnarafala og í Peking í Kína eru þrir vetnisvagnar í akstri.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga