Greinasafni: Orka
VSÓ Ráðgjöf
Málsmeðferð jarðhitanýtingarAð undanförnu hefur umræðu um orkuvinnslu ítrekað verið beint að jarðhita og hafa komið fram tillögur um að leggja meiri áherslu á nýtingu jarðvarma í orkuvinnslu en nú er gert. 
Nýting jarðhita krefst langs undirbúningstíma, sem getur verið á bilinu 2 til 10 ár. Þar eru rannsóknir á umfangi, eðli og afmörkun jarðhitageymisins veigamestar. Byggt á niðurstöðum þessara rannsókna er síðan tekin ákvörðun um hvort viðkomandi svæði sé hentugt fyrir nýtingu. 
Auk rannsókna þarf að huga að margvíslegum leyfisveitingum og skipulags- og umhverfismálum. Þessi hluti undirbúnings jarðhitavirkjana er að verða veigameiri. 
Til þess að fá að rannsaka og nýta jarðhitasvæði þarf viðkomandi framkvæmdaraðili að fara í gegnum flókið ferli, sem tengist ýmsum lögum, s.s. lögum um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu (nr. 57/1998), lögum um mat á umhverfisáhrifum (nr. 106/2000), skipulags- og byggingarlögum (nr. 73/1997), lögum um náttúruvernd (nr. 44/1999) og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir (nr. 7/1998). 
Ferli og málsmeðferð leyfisveitinga og gerð og breytingar á skipulagsáætlunum eru tímafrekar og því mikilvægt að hafist sé handa eins snemma og kostur er. Mikilvægt er að tryggja að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir hverju sinni, samráð hafi verið með helstu hagsmunaaðilum og stefnumörkun um landnotkun liggi fyrir. 

Eðli jarðhitanýtingar 
Eðli jarðhitanýtingar er þannig að hún er ólík annarri landnýtingu. Mikil óvissa ríkir um umfang og tilhögun framkvæmda og möguleg áhrif jarðhitanýtingar á umhverfið við upphaf undirbúnings. Nýting jarðhitasvæða er ekki línulaga ferli sem felur í sér opnun vel afmarkaðra svæða með fyrirfram skilgreindri staðsetningu og umfangi mannvirkja og nýtingu auðlinda. 
Jarðhitanýting er dýnamískt ferli fremur en afmörkuð framkvæmd. Í ferlinu leiðir eitt þrep af öðru án þess að vitað sé fyrirfram um næstu skref, s.s. hvar eigi að bora, hvaða svæði ber að rannsaka betur, hvar eigi að staðsetja mannvirki tengd mögulegri nýtingu o.fl. 
Eðli jarðhitanýtingarinnar hefur því orðið til þess að málsmeðferð í skipulags- og leyfismálum hefur verið tímafrek. VSÓ hefur því lagt áherslu á skipulagsstig, svæðisnálgun og samráð til að einfalda og gera málsmeðferð skilvirkari. 

Orkuvinnsla á skipulagsstigi 
Þróunin er sú að um leið og áhugi vaknar á svæði, þ.e. að rannsaka og kanna möguleika á nýtingu ákveðinna svæða, þarf um leið að hefjast handa við að koma því til skila í skipulagsáætlun viðkomandi sveitarfélags. 
Afmarka þarf á aðalskipulagi landsvæði fyrir orkuvinnslu, eða mögulega orkuvinnslu ef nægar upplýsingar liggja ekki fyrir um gæði auðlindar. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að ekki þurfa að liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um nýtingu, gæði og afkastagetu jarðhitageymisins. Fyrst og fremst þarf að koma fram stefna sveitarfélagsins í orkuvinnslumálum, t.d. að stefnt sé að nýtingu jarðhita, og gerð sé grein fyrir þeirri óvissu sem er til staðar, t.d. að ekki sé vitað um stærð og afkastagetu jarðhitageymisins. Þegar frekari og ítarlegri upplýsingar liggja fyrir er aðalskipulagi breytt og aðlagað að fyrirliggjandi upplýsingum. 
Samhliða þarf að vinna að umhverfismati skipulagsáætlunarinnar, skv. lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Það mat á að fjalla um áhrif þeirrar ákvörðunar að stefna að jarðhitanýtingu á svæðinu. Mikilvægt er að umhverfismat skipulagsins fjalli um þá stefnu að nýta jarðhita og viðkomandi landnotkunarkosti sem sveitarstjórn sér fyrir sér á svæðinu. Á skipulagsstiginu er tekin ákvörðun um hvort að stefna skuli að orkuvinnslu eða annarri landnotkun. Með því að vanda til þeirrar ákvörðunar og tryggja að hún taki tillit til margvíslegra sjónarmiða, gerir það alla þá málsmeðferð sem á eftir fylgir mun skilvirkari.
Jarðhitasvæði og stefnumörkun í náttúruvernd. Tillögur Umhverfisstofnunar 
voru að stefna ætti að friðlýsingu 75 svæða á landinu. Alþingi hefur samþykkt 
í náttúruverndaráætlun 2004-2008 að stefna skuli á að friðlýsa 14 svæði.
 
- Ef samþykkt er að skilgreina ákveðin svæði fyrir orkuvinnslu er kominn grunnur fyrir áframhaldandi rannsóknar- og nýtingarferli, en mikilvægast er að tekin sé ákvörðun um mögulega landnotkun snemma í ferlinu sem dregur úr óvissu um leyfisveitingu. 

- Á skipulagsstigi er þess gætt að samræmi sé milli mismunandi áætlana, þannig að rætt er á sama grundvelli og sama tíma um náttúruverndaráætlun, orkuvinnslu, samgöngur, atvinnu o.fl. sem er ákveðinn grunnur fyrir sjálfbæra stefnu sveitarfélagsins og nýtingu orkuauðlinda. 

- Sveitarfélög geta skilgreint orkuvinnslusvæði, en ekki þarf að liggja fyrir ákveðin framkvæmdaáætlun. Á upphafsstigum þarf eingöngu að byggja tillögur á fyrirliggjandi gögnum og þekkingu á svæðinu. Þegar ítarlegri upplýsingar liggja fyrir verður landnotkun útfærð í deiliskipulagi. Orkufyrirtæki geta því gengið að ákveðnum svæðum þegar þörf er á orku og styttir það viðbragðstíma þess til muna. 

Ljóst er að ekki eru allir sammála um landnotkun sem snýr að orkuvinnslu, en með því að hefja umræðu um skipulag strax á fyrstu stigum er aflað mikilvægra gagna fyrir ákvarðanatöku, bæði hjá sveitarfélagi og orkufyrirtæki. Með því er frekar tryggt að ekki verði ráðist í umfangsmiklar rannsóknir þar sem líkur á leyfi eru litlar. 

Svæðisnálgun 
VSÓ hefur lagt áherslu á að beita svokallaðri svæðisnálgun við umsóknir um rannsóknar- og nýtingarleyfi sem og mat á umhverfisáhrifum. Skilgreina og afmarka þarf svæði sem gefur nauðsynlegt svigrúm til að rannsaka og nýta jarðhitageyminn. Um leið og slíkt svæði er skilgreint þarf, í samráði við hagsmunaaðila, að skilgreina þau svæði sem ekki verður raskað og / eða svæði sem skulu njóta verndunar. Helsti ávinningur svæðisnálgunar er að auka svigrúm orkufyrirtækja innan ákveðins svæðis, þ.a. unnt verði að færa til borsvæði, leggja til nýjar holur o.s.frv. án þess að ganga í gegnum allt mats- og skipulagsferlið í hvert sinn en um leið að tryggt sé hvaða svæði verði ekki raskað. 

Samráð 
Skortur eða ómarkvisst samráð á öllum stigum þessa málaflokks getur orðið til þess að hagmunaaðilar tjá sig ekki um sín sjónarmið fyrr en eftir að mikil vinna hefur verið lögð í vinnu og afgreiðslu mála. Þ.a.l. koma mikilvæg sjónarmið eða ábendingar gjarnan of seint fram í ferli ákvarðanatöku. Þetta veldur m.a. að afgreiðslu mála seinkar eða kallar á kostnaðarsamar aðgerðir eða breytingar sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir ef mismunandi sjónarmið hefðu komið fram á réttum tíma. 


Ferli málsmeðferðar

- Leita þarf til samráðsaðila á fyrstu stigum áætlanagerðar. Með samráði á þessu stigi má meta og undirbúa áframhaldandi samráð, þ.e. draga strax fram mikilvæg sjónarmið og kortleggja helstu áherslur sem munu einkenna málsmeðferðina í heild sinni. 

- Það má fræða samráðsaðila um eðli verkefna og sjónarmið framkvæmdaraðila og undirbúa þannig betri samráðsgrundvöll fyrir áframhaldandi málsmeðferð. 

- Snemma má greina og afmarka svæði þar sem mismunandi samráðsaðilar hafa sérstakra hagsmuna að gæta og haga áætlanagerð í samræmi við það. 

Mikilvægi skipulagsog umhverfismála 
Leyfisveitingar til jarðhitarannsókna og nýtingar byggja að stórum hluta á skipulags- og umhverfimálum. Með því að nálgast skipulagsog umhverfismál strax á kerfisbundinn hátt og þar með talið samráð við helstu hagsmunaaðila er unnt að bæta málsmeðferð verulega og gera hana skilvirkari m.t.t. flestra sjónarmiða.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga