Greinasafni: Orka
Orkunotkun í Reykjavík
Undanfarin ár hafa komið fram ýmsar aðferðir við mælingar á framgangi markmiða og verkefna í umhverfismálum. Til mælinga eru notaðir svonefndir mælikvarðar, eða vísar, sem eiga að upplýsa það sem er almennt að gerast í þróun einstakra stefnumiða eða þátta í umhverfismálum og má því líta á þessa vísa sem litla glugga sem gefa innlit í stórt hús. Almennt eru þessir mælikvarðar kallaðir umhverfisvísar. 
Umhverfisvísar gefa til kynna þróun samfélagsins á sama hátt og líkamshiti og blóðþrýstingur gefur til kynna heilsuástand þegar mæling fer fram. Með umhverfisvísum leitum við að ítarlegum upplýsingum sem leiðbeina okkur í átt að sjálfbærri þróun samfélagsins. Þannig má greina ástandið fljótt og því hægt að bregðast við veikleikamerkjum skjótar og markvissar. Vélamælar svo sem olíumælir, vélarhiti og hleðsla rafgeymis geta verið sambærilegir mælikvarðar á frammistöðu vélar. Mælarnir segja okkur hvort vélin virkar eðlilega og gefa okkur vísbendingar um hvar á að leita vandamála. Á sama hátt sýna umhverfisvísar okkur hvort við séum á réttri leið í átt að sjálfbærri þróun, eru stefnumið eða ákveðnir þættir að fara minnkandi eða aukandi, batnandi eða versnandi eða erum við að upplifa sama ástandið ár eftir ár.
 
Hjalti J. Guðmundsson Höfundur
Framkvæmdastjóri stefnumörkunar 
og þróunar Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar


Almenn orkunotkun 
Orkumál eru mjög mikilvægur þáttur í heildar umhverfisáhrifum borga og því er orkunotkun og uppruni orkunnar góðir umhverfisvísar. Orkunotkun borga skiptist í grundvallaratriðum í þrennt; upphitun húsa, rafmagnsnotkun heimila og fyrirtækja og orkunotkun í samgöngum á landi. Framtíðarlausnir í orkumálum byggja á notkun endurnýjanlegra auðlinda til orkuframleiðslu en sjálfbærar orkuauðlindir hafa verið eitt sterkasta vopn Reykjavíkur í átt að sjálfbærri þróun borgarsamfélagsins síðustu áratugina. Reykjavíkurborg fór í miklar breytingar á orkuöflun þegar hitaveituvæðing hófst um miðja síðustu öld en með henni var olíu- og kolanotkun hætt. Sú breyting olli straumhvörfum og varð þess valdandi að stór hluti orkunotkunar borgarinnar varð sjálfbær á þeim tíma þegar einkabílanotkun var ekki eins algeng og nú er. Orkunotkun Reykvíkinga hefur verið að breytast hin síðari ár samfara aukinni ökutækjanotkun. Á mynd 1. má sjá að hlutur brennslu á jarðefnaeldsneyti (bensín, dísel) í samgöngum á landi vex hraðast milli áranna 2002 og 2005. Orkunotkun til upphitunar húsa með heitu vatni og neysla á því sem kranavatns vex einnig en óverulega í samanburði við jarðefnaeldsneytið. Rafmagnsnotkun breytist lítið á sama tíma. Ef litið er á heildar orkunotkun Reykvíkinga hefur hún aukist um 14,8% á ofangreindu tímabili. Nú er svo komið að svipuð orka fer annars vegar í upphitun húsa og neyslu á heitu vatni og hins vegar brennslu á jarðefnaeldsneyti í samgöngum á landi (mynd 2). Um 14% af heildarorkunotkuninni er rafmagn til heimila og fyrirtækja og virðist ekki vera mikil breyting á rafmagnsnotkuninni þrátt fyrir töluverða uppbyggingu í Reykjavík á tímabilinu. 

Endurnýjanleg orka 
Notkun á endurnýjanlegri orku fer stöðugt minnkandi hin síðari ár enda eykst brennsla á jarðefnaeldsneyti vegna mikillar bílanotkunar. Nú er svo komið að hlutfall endurnýjanlegra orkuauðlinda til framleiðslu á orkuþörf borgarbúa er 57,3% árið 2005 en var 62,7% árið 2002 (mynd 3). Þetta er töluverð breyting frá árinu 1996 þegar þetta hlutfall var 72,6% á móti 27,4% en þess ber að geta að orkutölur fyrir heitt vatn og rafmagn voru miðaðar við allt veitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur árið 1996 og því ekki fullkomlega samanburðarhæfar tölur. Þó má segja að tölurnar varpi ljósi á hlutfallið á þeim tíma enda starfsemi þeirra sveitarfélaga er mynda höfuðborgarsvæðið svipuð. Ef gert er ráð fyrir að starfsemin sé svipuð hefur hlutur endurnýjanlegra orkugjafa minnkað um 15,3% milli 1996 og 2005 í Reykjavík eða hlutfallslega um tæplega 27% á 9 árum. Þess má geta til samanburðar að þá er þetta hlutfall á landsvísu 70% endurnýjanlegar orkuauðlindir og 30% óendurnýjanlegt. Mismunurinn er falinn í mjög háu hlutfalli samgangna á landi í heildarorkunotkun í Reykjavík eða um 43% á móti um 18% á landsvísu. 

Til framtíðar 
Eins og fram kemur hér að ofan er orkunotkun Reykvíkinga að breytast. Stærri bílafloti og aukinn akstur hefur í för með sér vaxandi brennslu jarðefnaeldsneytis. Þetta dregur úr hlutfalli endurnýjanlegrar orku í heildarmenginu. Hliðaráhrif þessara breytinga á orkunotkun er aukning á útblæstri koltvísýrings vegna vaxandi brennslu á jarðefnaeldsneyti. Koltvísýringur (CO2) er lofttegund sem veldur gróðurhúsaáhrifum, þ.e. aukið magn þessarar loftegundar í lofthjúpi jarðar veldur hækkandi hitastigi hans. Reykjavíkurborg mun á næstu misserum marka sér stefnu til næstu 10 ára í loftslagsmálum samkvæmt áætluninni um Græn skref í Reykjavík. Með framgangi þeirrar áætlunar verður bílafloti Reykjavíkurborgar visthæfari og jafnframt verða borgarbúar hvattir til að nota vistvæna samgöngumáta svo sem hjól og almenningssamgöngur með ákveðnum aðgerðum þar að lútandi. Með þessum aðgerðum ætti að vera hægt að sporna við þessari þróun til lengri tíma og þar með auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa á ný og jafnframt minnka ústreymi koltvísýrings í lofthjúpinn. 

Heimild: Hjalti J. Guðmundsson 2007. Umhverfisvísar Reykjavíkurborgar 2002-2006. Skýrsla Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar UHR 03-2007-1. 29. bls. 


Mynd 1. Orkunotkun í Reykjavík 2002-2005. Hlutur jarðefnaeldsneytis 
fer vaxandi í heildar orkunotkun en rafmagnsnotkun eykst lítið. Árið 2005 
voru um 43% orkunotkunar til samgangna á landi og annað eins til upphitunar 
húsa og notkunar kranavatns. 


Mynd 2. Orkunotkun eftir flokkum 2002-2005. Á myndinni kemur
 fram að orkunotkun vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti hefur aukist 
mikið eða um 31,3%. Rafmagnsnotkun hefur hins vegar dregist saman 
milli áranna 2004 og 2005 um 4%. Nú er svo komið að jafnmikil orka 
er notuð í samgöngur á landi og hitun húsa í Reykjavík. 


Mynd 3. Hlutfall notkunar á endurnýjanlegum og óendurnýjanlegum 
orkuauðlindum í Reykjavík 2002-2005 og árið 1996 til samanburðar. 
Með aukinni brennslu á jarðefnaeldsneyti í samgöngum á landi undanfarin 
ár hefur hallað á hlutfall endurnýjanlegra orkuauðlinda. Árið 2005 var um 
43% orkunotkunar frá óendurvinnalegum orkuauðlindum. Tekið skal fram 
að við útreikninga fyrir árið 1996 er miðað við höfuðborgarsvæðið, ekki 
bara Reykjavík.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga