Greinasafni: Orka
Aðkoma Landsbankans að orkumálum

Landsbankinn markar sér stöðu á sviði endurnýjanlegrar orku.


Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, þáverandi stjórnarformaður Landsvirkjunar, og Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrituðu samning um stofnun HydroKraft Invest hf. á blaðamannafundi 16. febrúar sl.

Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) spáir því að eftirspurn eftir orku í heiminum muni aukast um 50% næsta aldarfjórðunginn. Þetta mun gerast óháð viðleitni stjórnvalda til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda en stór hluti þeirra er tilkominn vegna brennslu jarðefnaeldsneytis til raforkuvinnslu. Því virðist hækkun á raforkuverði í heiminum vera óhjákvæmileg í framtíðinni. Sú staðreynd, auk væntinga manna um lækkun kostnaðar við virkjun sjálfbærra orkulinda vegna tækniframfara, mun gera aðra virkjunarkosti en þá sem notaðir eru í dag enn fýsilegri. 
Landsbankinn hefur, í ljósi þessarar þróunar og væntingar markaðarins um mikinn vöxt fyrirtækja á sviði grænnar orkuvinnslu, markvisst unnið að því að marka sér stöðu í öllum helstu sviðum endurnýjanlegrar orku, þ.m.t. vindorku, vatnsorku, sólarorku, jarðvarma, lífmassaorku og framleiðslu lífdísels og etanóls. 

Aðkoma Landsbankans að orkumálum 
Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, segir áhuga bankans á orkumálum alls ekki nýjan af nálinni. „Landsbankinn hefur um áratugaskeið veitt íslenskum orkufyrirtækjum almenna fjármálaþjónustu og jafnframt stutt við nýtingu endurnýjanlegra orkulinda hérlendis, m.a. með lánsfjármögnun til iðnfyrirtækja sem nýta raforku sem framleidd er með nýtingu jarðvarma og orku fallvatna. Auk þess hefur Landsbankinn veitt verktökum og þjónustuaðilum stærri og smærri virkjana heildstæða fjármálaþjónustu,“ segir Halldór og bendir ennfremur á að bankinn hafi verið aðalfjármögnunaraðili margra smærri vatnsaflsvirkjana sem byggðar hafa verið á undanförnum árum eftir að löggjöf var rýmkuð og einkaaðilum gert hægara um vik um byggingu og rekstur virkjana. 

Stuðningur við menntun 
Nýverið kom Landsbankinn að stofnun RES orkuskóla á Akureyri, en þeim skóla er ætlað að vera alþjóðlegt kennslu- og fræðasetur á sviði nýtingar endurnýjanlegrar orku. „Með þátttöku í því merkilega frumkvæði sem þar er faglega og myndarlega staðið að, vill Landsbankinn tryggja nauðsynlega nýliðun í hópi sérfræðinga á sviði endurnýjanlegrar orku og stuðla að samstarfi ólíkra fyrirtækja í greininni. Þetta tvennt er mikilvægt fyrir framtíð og framþróun greinarinnar,“ segir Halldór. 
Innan samstæðu Landsbankans er að finna mikla þekkingu á evrópskum fyrirtækjum sem sérhæfa sig í endurnýjanlegri orku. Sem dæmi má nefna að verðbréfafyrirtækin Merrion Capital, Teather & Greenwood og Kepler Equities, sem öll tilheyra Landsbankasamstæðunni, greina samtals yfir 30 af stærstu fyrirtækjum Evrópu á sviði endurnýjanlegrar orku s.s. sólarorku, vindorku og biomassa. Markaðsvirði orkufyrirtækjanna er frá 100 milljónum evra til 7 milljarða evra og verðbréfafyrirtækin veita þeim mjög sérhæfða þjónustu; allt frá aðstoð við fjármögnun sprotafyrirtækja til skráningar á verðbréfamarkaði. 


Halldór J. Kristjánsson 

Útrás í orkumálum 
„Landsbankinn hefur um nokkurt skeið skoðað beinar fjárfestingar í orkuverkefnum erlendis og kom nýlega að stofnun Blåfall Energy,“ segir Halldór en Blåfall Energy er félag stofnað um fjárfestingu í smávirkjunum í Noregi. „Þar er um að ræða áhugavert fjárfestingartækifæri vegna hagkvæmra virkjunarkosta, hækkandi orkuverðs og sveigjanleika á orkumarkaði. Heildar fjárfestingargeta félagsins er um 130 milljónir evra og Landsbankinn á nú ríflega 25% hlutafjár á móti alþjóðlegum fjárfestum,“ segir Halldór. 
Landsbankinn stofnaði nýverið útrásarfyrirtækið HydroKraft Invest hf. í samvinnu við Landsvirkjun og lagði hvor aðili til tvo milljarða króna í hlutafé eða 4 milljarða samtals. „HydroKraft Invest er ætlað að fjárfesta í orkuverkefnum erlendis sem byggja á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, einkum vatnsafls. Til að byrja með mun félagið reyna fyrir sér með fjárfestingar í Austur-Evrópu en aðrir markaðir verða einnig til skoðunar,“ segir Halldór. 
Stjórnendur Landsbankans telja samstarf fjármálafyrirtækja og orkufyrirtækja afar heppilegt form á útrás á sviði orkumála. Í því sambandi vill Halldór undirstrika mikilvægi sterks heimamarkaðar sem íslensku útrásarfyrirtækin byggja á og þar séu orkufyrirtækin ekki undanskilin. „Útrásarfyrirtækin byggðu í upphafi á sérþekkingu sem aflað var á heimamarkaði. Kröfuharður heimamarkaður á Íslandi skapar öflug fyrirtæki, fjárhagslega, tæknilega og rekstrarlega, og byggir að auki undir alþjóðlega samkeppnishæfni fyrirtækjanna,“ segir Halldór og leggur áherslu á að sömu sjónarmið eigi við um útrás orkufyrirtækja. 

Útrás vatnsorkuþekkingar

Gunnar Tryggvason.

Gunnar Tryggvason, einn af sérfræðingum Landsbankans í orkumálum og starfandi framkvæmdastjóri HydroKraft Invest, segir einkum tvær ástæður liggja að baki þeirri ákvörðun Landsbankans að hefja útrás á sviði vatnsafls. „Í fyrsta lagi er hlutdeild vatnsafls í raforkuvinnslu heimsins töluverður eða um 17% og hins vegar er ástæðan mikil og góð þekking okkar Íslendinga á sviði vatnsafls. Þessari þekkingu er stöðugt við haldið enda hefur meðeigandi okkar í HydroKraft Invest, Landsvirkjun, byggt vatnsaflvirkjanir með nýjustu tækni síðustu áratugina.
 
Hvaða tegundir fjárfestinga er Hydro- Kraft invest að horfa til? 
„Til að byrja með erum við að skoða aðkomu að virkjunum í rekstri sem þurfta endurbóta við. Endurbæturnar geta verið hvort tveggja tæknilegar eða rekstrarog viðskiptalegar en við gerum okkur grein fyrir því að vatnsaflsvirkjanir eru ekki alltaf fáanlegar einar og sér. Því útilokum við ekki kaup á orkukerfum en vatnsafls verður að vera stór hluti þess. Þótt Íslendingar séu vanir að hugsa um vatnsaflsvirkjanir með uppistöðulón sem notuð er til miðlunar þá eru fleiri tegundir vatnsaflsvirkjana sem til greina koma. Hér á ég við bæði rennslisvirkjanir, sem enga miðlunargetu hafa, og svo umsnúanlegar lónsvirkjanir, þ.e. virkjanir sem geta dælt vatni t.d. úr árfarvegi sínum og upp í lónin. Þær hafa þann ótvíræða kost að geta mætt sólarhringssveiflu raforkueftirspurnar á mjög hagkvæman hátt og aukið þannig tekjur virkjunarinnar.“ 

Hvað með nýbyggingar? 
Þótt umbótaverkefni séu efst á forgangslista okkar er ekki loku fyrir það skotið að fyrirtækið taki þátt í nýbyggingarverkefnum, sér í lagi á síðari stigum. Í mörgum þeirra landa sem við erum að horfa til eru margir nýjir virkjunarkostir mögulegir og hagkvæmir miðað við núverandi orkuverð.“ 

Vatnsafl er fjárfestingafrek starfsemi. Hefur HydroKraft í hyggju að auka fjárhagslegan styrk sinn í bráð? 
Já, eigendur félagisns lögðu því til fjóra milljarða í upphafi og ljóst er að það dugar skammt í svo fjárfestingafrekri starfsemi sem vatnsafl er. Við hyggjumst því skjóta frekari stoðum undir kaupgetu félagsins þegar við höfum nálgast okkar markmið betur og höfum þá í hyggju að standa að frekari fjármögnun hér innanlands, þ.e. bjóða innlendum fjárfestum aðkomu. Því næst kemur til greina að skrá félagið á markað erlendis. 

Raforkuvinnsla í heiminum 2004

Endurnýjanleg orka í Evrópu

Ingo Queieser.

Ingo Queieser, sérfræðingur Landsbankans í fyrirtækjagreiningum, hefur á undanförnum árum tileinkað sér greiningar á fyrirtækjum í græna orkugeiranum sem skráð eru á hlutabréfamarkðinum í Frankfurt. Hann stýrði fyrir stuttu ráðstefnu sem Landsbankinn hélt í París þar sem 20 af stærstu skráðu fyrirtækjum í græna orkugeiranum kynntu sig fyrir 150 fagfjárfestum. 

Geturðu lýst fyrir okkur stöðu fyrirtækja sem starfa á sviði endurnýjanlegar orku og skráð eru á hlutabréfa markaðinum í Frankfurt? 
„Græn sýn, sem drifin er áfram af umræðu um baráttuna við kolefnisútblástur og hlýnun andrúmsloftsins, hefur fest rætur sínar í hugum fólks og haft jákvæð áhrif á stefnu stjórnvalda hvað varðar stuðning við greinina. Ég held að fullyrða megi að Evrópubandalagið, og þá sérstaklega Þýskaland, sé komið á óviðsnúanlega braut í átt til frekari nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Nú þegar eru sem dæmi 50.000 störf í sólarorkuiðnaðinum í Þýskalandi og frekari aukning væntaleg. Þó Þýskaland sé komið lengst á þessari braut er sama þróun að hefjast í öðrum ES-ríkjum s.s. á Spáni, Ítalíu og Grikklandi, þá sér í lagi hvað sólarorku varðar.“ 
Ef við skoðum afkomu fyrirtækja má merkja greinilegan mun milli starfsgreina. Á meðan sólarorkufyrirtækin skila miklum hlutfallslegum hagnaði er stór hluti fyrirtækja í lífdíseliðnaðinum að berjast við að vera réttu megin við núllið. 

Er einhver grein markaðarins í örari vexti en önnur um þessar mundir? 
„Það er vöxtur alls staðar, hvort sem við tölum um sólarorku, lífrænt eldsneyti eða vindorku. Hinsvegar séð með augum markaðarins er vöxtur einn og sér ekki aðlaðandi. Það skiptir mestu að um sé að ræða ábatasaman vöxt sem skilar hagnaði. Í því ljósi nýtur sólarorkan mestrar athygli. Sú grein nýtur ekki aðeins tveggja tölustafa vaxtar um þessar mundir heldur skila sólarorkufyrirtækin góðum hagnaði einnig.“ 

Hversu miklum hagnaði? 
Það fer eftir því hvar í virðisaukakeðjunni fyrirtækin starfa en hagnaðarhlutfall þeirra getur verið allt frá 5% til 50%. Mestur er hagnaðurinn efst í virðisaukakeðjunni s.s. í framleiðslu á pólysílikoni vegna viðvarandi skorts á framleiðslu í þeim geira. Það má líkja því við gullnámufund að hafa tryggt sér afhendingu á pólysílikon í dag.“ 
Aðra sögu er að segja af framleleiðslu lífeldsneytis. Í þeim geira eru nánast engar aðgangshindranir, sérstaklega ekki í stærsta hluta þess geira - lífdísel. Afleiðing þess birtist í því að snögglega hefur myndast framleiðslugeta umfram eftirspurn með tilheyrandi áhrif á verðmyndun. 

Evrópusambandið kynnti fyrir stuttu markmið sitt um að 20% af orku sambandsríkjanna muni vera græn árið 2020. Hefur þetta hástemmda markmið endurspeglast í verðmyndum fyrirtækja á markaðinum? 
„Áhrifin hafa verið mismunandi. Hlutabréf í sólarorkufyrirtækjum ruku upp um 20% -50%. Hinsvegar hafa fyrirtæki í lífræna eldsneytisgeiranum verið að lækka af ástæðnum sem ég tilgreindi áðan. Þar höfum við séð leiðréttingar upp á 30% - 50%. Þessar lækkanir voru greinilegri í lífdíselgeiranum en etanól-fyrirtæki lækkuðu einnig.“ 

Raforka á Íslandi er eingögnu unnin úr vatnsorku og jarðvarma. Telur þú Ísland geta haft einhverju hlutverki að gegna í þróun annara umhverfisvænna orkugjafa? 
„Já heldur betur. Ein dýrmætasta eign Íslands er augljóslega aðgangur að ódýrri orku - fyrir utan auðvitað Bláa Lónið,“ segir Ingo og hlær við. “Ísland gæti því gengt hlutverki í framleiðslu fyrir sólarorkugeirann. Hvað polysílikon varðar, þar sem þrálátt undirframboð hefur verið, er raforka um 1/3 af framleiðslukostanðinum. Leiðandi pólísylikonframleiðndur heimsins, fyrirtækin Hemlock, Wacker, REC, Tokuyama og MEMC hafa ekki aðgang að ódýrri raforku í framleiðsluverum sínum. Sum þeirra hafa þegar hafið leit að hentugri staðsetningu næstu framleiðslueiningu sinna. Þar liggur tækifæri fyrir Ísland. Dæmigerð pólysílikonverksmiðja af stærðinni 5,000 tonn kostar um 30 milljarða króna.“ 
 

Fyrirtæki Afurð Land Markaðsvirði (m€)
Biopetrol Lífdísill Þýskaland 224
Conergy Sólarorkukerfi og fleira Þýskaland 1.658
CropEnergies Etanól Þýskaland 632
EOP Biodiesel Lífdísill Þýskaland 44
ErSol Sólarsellur Þýskaland 544 
Petrotec Lífdísill Þýskaland 77 
Q-Cells Sólarsellur Þýskaland 3.870 
REC Sólarsellur og pólysílikon Noregur 10.766 
Solar Millennium Sólarvarmaorkuver Þýskaland 385 
Solarvalue Pólysílikon Þýskaland 32 
Solarworld Sólarsellur Þýskaland 3.206
Verbio Etanól Þýskaland 488 
Wacker Chemie Pólysílikon Þýskaland 7.860

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga