Greinasafni: Orka
Rafhönnun
Rafmagnsverkfræði í mikilli sókn. Mannauður og umhverfisvæn orka eru hornsteinar verkfræðistofunnar Rafhönnunar.
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi

Rafhönnun er rótgróin verkfræðistofa, tæplega 40 ára, sem hefur vaxið mikið undanfarin ár og eru starfsmenn hennar í dag um 65. 
Hjá Rafhönnun er unnið að verkefnum sem ná yfir flest svið rafmagnsverkfræðinnar og þjónustan nær yfir öll stig framkvæmda, m.a. hagkvæmniathugun, útboð, hönnun, verkefnisstjórn og eftirlit allt til verkloka.


Verkefni stofunnar eru mjög fjölbreytt, m.a. hönnun álvera, virkjana, veitna, stórra bygginga og fjarskiptakerfa, auk margvíslegra annarra verkefna af ýmsum toga. Stýritækniverkefnum fyrir álver og annan iðnað sem og orkufyrirtæki, hefur fjölgað mjög á undanförnum árum hjá Rafhönnun. 
Fyrirtækið hefur einnig sérhæft sig í gerð hermilíkana og þjálfunarherma, einkum í tengslum við jarðvarmaorkuver og hitaveitur, jafnt innanlands sem erlendis. Undanfarið hefur verulegur hluti af starfsemi Rafhönnunar tengst byggingu álvera og virkjana, fyrst og fremst Fjarðaáls, og stækkun Norðuráls, og nýverið einnig við endurnýjun Kubal álversins í Svíþjóð. Vinnan við álver fer fram í nafni HRV hf, sem er í eigu verkfræðistofanna VST, VGK-Hönnunar og Rafhönnunar. 


Norðurál í hvalfirði
Starfsmenn fyrirtækjanna sem standa að HRV eru tæplega 500 og þeir búa að mikilli og verðmætri reynslu úr áliðnaðinum. HRV hefur á undanförnum árum vaxið og orðið að mjög öflugri verkfræðistofu á heimsmælikvarða í áliðnaðinum og við bindum miklar vonir við enn frekari eflingu HRV-samstarfsins á næstu árum með útflutning á verkfræðiþekkingu í huga. 
Virkjun vatnsafls og jarðhita og uppbygging veitukerfa fyrir rafmagn og heitt og kalt vatn og uppbygging frárennslis- og fjarskiptakerfa tilheyra einnig kjarnastarfsemi Rafhönnunar. Á undanförnum árum höfum við átt gott samstarf við Jarðhitaháskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og höfum við tekið þátt í að leiðbeina mörgum nemendum hans, okkur til bæði gagns og ánægju. 


Skjámynd úr stjórnkerfi jarðvarma hitaveitu í Tanggu (hafnarborg Beijing) í Kína. Rafhönnun tók þátt í byggingu veitunnar í nafni Virki-Orkint, forvera Enex. Tanggu verkefnið hefur vakið athygli og aukið áhuga á nýtingu jarðhita í Kína.

Í kjölfarið hefur oft þróast samstarf með fyrrverandi nemendum skólans um jarðhitaverkefni í heimalöndum þeirra. Virkjun umhverfisvænnar orku, eins og vatnsafls og jarðhita, verður í mikilli sókn um allan heim á komandi árum vegna baráttunnar við hlýnun andrúmsloftsins. Hér búa íslenskir verkfræðingar að verðmætri reynslu og eiga öflugan heimamarkað sem vonandi nýtist í ríkum mæli í verkefnasókn erlendis. 
Þetta er eftirsóknarvert því að verkfræðiþjónusta skapar vel launuð störf fyrir menntafólk. Hönnun tæknikerfa í stórar byggingar er líka ein af meginstoðum starfsemi Rafhönnunar. Nokkur nýleg dæmi eru Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Smáralind, Tónlistarhúsið og höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur auk fjölmargra skóla, heilsugæslubygginga o.fl. 


220 kV tengivirki við Búrfellsvirkjun

Fjarskiptaráðgjöf er vaxandi þáttur í starfsemi okkar og höfum við annast útboð á mörgum stærstu verkum hérlendis á því sviði undanfarið. Við höfum einnig sérhæft okkur í hönnun fyrir flugvelli og tekið þátt í flugvallarverkefnum bæði innanlands og erlendis. Í sérfræðifyrirtæki eins og Rafhönnun er mannauðurinn undirstaðan. Við leggjum því áherslu á aðlaðandi vinnustað og góðan starfsanda. 
Við kappkostum að vinnuaðstaðan sé sem best, m.a. með öflugu tölvukerfi. Starfsmannavelta er mjög lítil og það staðfestir að okkur hefur tekist vel til. Til lengri tíma horfum við til verkefnasóknar erlendis sem byggir á umfangsmikilli reynslu undanfarinna ára af framkvæmdum innanlands við álver og virkjun vatnsafls og jarðhita. Miklar vonir eru bundnar við að nýstofnuð íslensk fjárfestingarfyrirtæki á orkusviði efli útflutning á íslenskri verkfræðiþekkingu. 
Nauðsynlegt er að geta vísað til umfangsmikilla verkefna á heimamarkaði þegar sótt er í sambærileg verkefni erlendis. Innlendi markaðurinn er því grunnurinn sem allt byggist á.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga