Greinasafni: Menntun einnig undir: Orka
Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna:Þekkingu miðlað til þróunarlanda

Markmið Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna er að aðstoða þróunarlönd og ríki Mið- og Austur- Evrópu (þó ekki aðildarlönd Evrópusambandsins), sem hafa umtalsverðan jarðhita, við að byggja upp sérfræðingahópa til að rannsaka og nýta jarðhitann. 

Aðalstarfsemi skólans eru árleg sex mánaða sérfræðinámskeið á Íslandi þar sem boðið er upp á níu sérhæfðar námsbrautir í jarðhitafræðum. Nemendur þurfa að hafa lokið háskólaprófi í raunvísindum eða verkfræði, hafa a.m.k. eins árs starfsreynslu í jarðhita í heimalandinu og vera þar í fullu starfi við jarðhita. Nemendur eru valdir með viðtölum í heimalöndum sínum.

Fá vettvangsskoðun 2005 við borholu við Hjalteyri viðEyjafjörð undir leiðsögn Árna Árnasonar frá Norðurorku.
Skólagjöld, ferðir og dagpeningar nemenda eru greiddir með styrkjum sem kostaðir eru að mestu af íslenskum stjórnvöldum en rekstur skólans er hluti af framlagi Íslands til þróunaraðstoðar. Jarðhitaskólinn starfar innan Orkustofnunar en kennarar og leiðbeinendur skólans eru flestir jarðhitasérfræðingar hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR), Háskóla Íslands, ráðgjafastofum og orkufyrirtækjum. 
Frá 1979 hafa 359 jarðhitafræðingar frá 40 löndum útskrifast eftir 6 mánaða nám við skólann og 10 þeirra hafa lokið meistaranámi við Háskóla Íslands. Nú í vor eru 21 í 6 mánaða námi og 8 í meistaranámi. Í mörgum löndum hefur skólinn aðstoðað við uppbyggingu sérfræðingahópa og þjálfað fólk frá þeim á flestum eða öllum námsbrautum. Flestir hafa komið frá Kína (65), Kenýa (42), Filippseyjum (31), El Salvador (25), Eþíópíu (23) og Indónesíu (22). 
Nemendur skólans eru leiðandi í jarðhitastarfsemi fjölmargra landa. Þetta kemur greinilega fram bæði innan viðkomandi landa og á alþjóðavettvangi.
 
Jarðhitanámskeið framlag Íslands til Þúsaldarmarkmiða Sþ
Á leiðtogaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (Sþ) um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg 2002 tilkynntu íslensk stjórnvöld að framlag Íslands til Þúsaldarmarkmiða Sþ yrðu jarðhitanámskeið í þróunarlöndunum sem kæmu til viðbótar starfsemi Jarðhitaskólans á Íslandi. 
Fyrsta námskeiðið fyrir lönd Austur- Afríku var haldið í Kenýa í nóvember 2005. Meðal þátttakenda voru yfirmenn orku- og umhverfisráðuneyta, stjórnendur raforkufyrirtækja og jarðfræðistofnana í Eþíópíu, Erítreu, Kenýa, Tansaníu og Úganda auk helstu jarðhitasérfræðinga landanna sem margir hafa útskrifast úr Jarðhitaskólanum. 


Frá vettvangsskoðun á Nesjavöllum undir leiðsögn Einars Gunnlaugssonar frá Orkuveitu Reykjavíkur
Markmið námskeiðsins var að gefa forsvarsmönnum orkumála í löndunum tækifæri til að kynnast persónulega og efla þannig samstarf landanna. Meðal umræðuefna var samnýting tækjabúnaðar og sérfræðiþekkingar í Austur-Afríku við að virkja þessa mikilvægu orkulind sem víða er að finna í Sigdalnum mikla. Um 19% raforkuvinnslu í Kenýa er í jarðgufuvirkjun. Annað námskeiðið í Afríku var haldið í Kenýa í nóvember 2006. 
Á námskeiðinu var farið yfir helstu aðferðir sem beitt er við yfirborðsrannsókn jarðhitasvæða, í jarðfræði, jarðeðlisfræði og efnafræði, bæði með fræðilegum fyrirlestrum og verklegri kennslu á jarðhitasvæði. Loks var sýnd notkun ýmissa tölvuforrita til túlkunar á rannsóknargögnum frá jarðhitasvæðum og kynnt hvernig þessar aðferðir hafa nýst til að skapa betri skilning á jarðhitakerfum og jafnframt leitt af sér betri árangur við boranir eftir jarðhita. 
Þátttakendur voru frá Eþíópíu, Djíbútí, Erítreu, Kenýa, Tansaníu og Úganda, alls 23 auk 21 fyrirlesara. Meðal fyrirlesara voru 14 fyrrum nemendur Jarðhitaskólans. Þriðja námskeiðið verður haldið í Kenýa í nóvember 2007. 
Fyrsta námskeiðið fyrir Mið-Ameríkulönd var haldið í nóvember 2006 í El Salvador fyrir yfirmenn orku- og umhverfisráðuneyta, stjórnendur raforkufyrirtækja og rannsóknarstofnana og helstu jarðhitasérfræðinga El Salvador, Níkaragva, Kostaríka og Gvatemala. Eitt aðalumræðuefni námskeiðisins var nýting jarðhita innan og á jöðrum þjóðgarða og friðlanda, með sérstakri áherslu á umhverfissjónarmið. 
El Salvador fær um 22% af raforku sinni úr jarðgufuvirkjunum, Kostaríka 15% og Níkaragva 10%. Þátttakendur voru liðlega fimmtíu og komu flestir frá löndunum fjórum en auk þess voru fyrirlesarar frá Íslandi, Bandaríkjunum, Filippseyjum, Ítalíu, Kenýa og Mexíkó. Meðal fyrirlesara voru níu fyrrum nemendur Jarðhitaskólans. Annað námskeiðið verður haldið í El Salvador í nóvember næstkomandi. 
Fyrsta árlega námskeiðið fyrir Asíulönd í beinni nýtingu jarðhita er í undirbúningi í Kína. Námskeiðin kunna að þróast yfir í sjálfbæra jarðhitaskóla á vegum stofnana í viðkomandi löndum með stuðningi Jarðhitaskólans. Óskir hafa komið fram um slíkt fyrirkomulag frá Indónesíu, Kenýa og Kína. 

Megnið
af innfluttu eldsneyti Íslendinga er notað við fiskveiðar og í samgöngum eða um 90% af innfluttri olíu. 
Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga notar megnið af innfluttum kolum eða um 90% og það sem eftir stendur er notað í Sementsverksmiðjunni. 
Það þarf um 30% minni orku ef kaffi er lagað í kaffivél í stað þess að nota hraðsuðuketil og hella upp á á gamla mátann. 
Notið hitakönnu til að halda kaffinu heitu en ekki hitaplötu kaffivélarinnar. 
Fyrsti vísirinn að orkufrekum iðnaði hér á landi var bygging 
Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi sem hóf rekstur árið 1953. Algjör umskipti urðu þó þegar Búrfellsvirkjun var reist 1969 vegna álversins í Straumsvík, en síðan þá hefur raforkuvinnsla til stóriðju aukist mikið og árið 2004 nam hún um 63% af heildarvinnslunni. 
Rafvæðing á Íslandi hófst fyrir 100 árum. Fyrsta rafstöðin sem þjónaði almennum notendum var 9kW vatnsaflsstöð sem Jóhannes Reykdal reisti við Hamarskotslæk í Hafnarfirði árið 1904. 

Sparnaðarráð.
Bæta má orkunýtni án aukakostnaðar. Hér eru tíu ráð sem kosta ekkert en geta dregið verulega úr orkurkostnaði heimila. 

Lækka innihita niður í 20°C. 
Slökkva alveg á raftækjum, ekki skilja þau eftir í biðstöðu. 
Hafa glugga lokaða nema við gagngera loftun. 
Ganga eða hjóla styttri vegalengdir. 
Fylla ávallt þvottavél og uppþvottavél. 
Hafa lok á pottum og pönnum og þekja alla helluna. 
Setja gluggatjöld fyrir glugga að næturlagi. 
Aka bifreiðinni mjúklega og hafa réttan loftþrýsting í dekkjum. 
Ekki birgja ofna með húsgögnum eða gluggatjöldum. 
Fara í sturtu frekar en bað.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga