Greinasafni: Skipulag
Arnarfell - Fjölbreytt verkefni á fjöllum

Arnarfell ehf. er verktakafyrirtæki sem fagnaði 20 ára afmæli á síðasta ári. Grunnurinn var þó lagður mun fyrr eða þegar Konráð Vilhjálmsson og Valgerður Sigurbergsdóttir, eiginkona hans, hófu rekstur vinnuvéla um 1960. 
Í dag er fyrirtækið rekið af börnum þeirra og eru viðfangsefnin fjölbreytt. Arnarfell fæst meðal annars við jarðgangagerð, efnis- og steypuframleiðslu, byggingarvirki, jarðvinnu og margt fleira. 

Jarðgangagerð 
Arnarfell er eitt fárra fyrirtækja á Íslandi sem sérhæfir sig í jarðgangagerð. Í dag rekur fyrirtækið fjóra jarðgangabori, ásamt tilheyrandi búnaði, og starfa um 60 manns við jarðgangagröft hjá félaginu. 
Fyrstu verkefnin við jarðgangagerð voru í hjágöngum Kárahnjúkastíflu sumarið 2004 en síðan tók við gangagerð í Jökulsárveitu og enn síðar Hraunaveitu. 
Frá árinu 2004 hafa starfsmenn fyrirtækisins unnið dag og nótt við jarðgangagerð allan ársins hring, að frátöldum helstu stórhátíðisdögum. 
Ekki er fjarri lagi að jarðgangamenn Arnarfells séu í heildina búnir að verja um einni milljón vinnustunda neðanjarðar við gangagröft. 

Jarðvinnudeild 
Arnarfell rekur jafnframt öfluga jarðvinnudeild og hefur fyrirtækið sérhæft sig í hverskonar jarðvinnu í gegnum árin. Þar má meðal annars nefna vegagerð en nærri lætur að fyrirtækið hafi lagt um 100 kílómetra af nýjum vegum, auk endurbóta á eldri vegum. 
Helstu framkvæmdir fyrirtækisins er tengjast vegagerð eru: Endurbygging þjóðvegar 1 um Skeiðarársand, Borgarbraut á Akureyri, Háreksstaðavegur um Möðrudalsöræfi, vegur um Vopnafjarðarheiði, Mývatnsöræfi, vegur um Bröttubrekku og svo mætti lengi telja. 
Nú um stundir er fyrirtækið að byggja stíflur við Hraunaveitur og nemur jarðvinna á þessu ári þar um 2 milljónum rúmmetra.
Sprengivinna 
Ásamt því að fást við alla hefðbundna jarðvinnu sérhæfir fyrirtækið sig í sprengingum og í upphafi framkvæmda við Kárahnjúka, haustið 2002, komu Arnarfellsmenn fyrstir á svæðið til undirbúnings framkvæmda. Gert var aðgengi að stíflustæðinu, 
Kárahnjúkurinn hreinsaður undir stífluna, inntak fyrir heilboruðu göngin sprengt og ýmislegt fleira. Í þessu samhengi er gaman að nefna að fyrirtækið er með samninga um framkvæmdir við Hraunaveitur til loka árs 2009 og verður því búið að vera að störfum á Kárahnjúkasvæðinu á áttunda ár. 
Eða eins og maðurinn sagði: Fyrstir á staðinn og síðastir heim! 

Byggingardeild 
Nýverið kom Arnarfell á fót byggingardeild sem hefur með höndum byggingu hverskonar mannvirkja við vatnsaflsvirkjanir. Nú starfa um 100 manns hjá félaginu við byggingarvinnu á Hraunaveitusvæðinu.
Virkjunarframkvæmdir 
Arnarfell kom fyrst að virkjunarframkvæmdum þegar fyrirtækið rak færanlega steypustöð vegna Kvíslarveitu. Í kjölfarið lá leiðin niður í Hágöngumiðlun og stuttu síðar var félagið komið í samstarf með öðru verktakafyrirtæki um gerð frárennslisskurðar Sultartangavirkjunar. 
Að því loknu fóru Arnarfellsmenn og gerðu frárennslisskurð Vatnsfellsvirkjunar og með viðkomu í undirbúningi framkvæmda við Búðarháls lá leiðin í Kárahnjúka. Arnarfell hefur því unnið að virkjunarframkvæmdum nánast óslitið undanfarin 12 ár. 

Tækja- og bílaflotinn
 
Í dag starfa á þriðja hundrað manns hjá Arnarfelli og um mitt sumar 2007 verður fjöldi starfsmanna við framkvæmdir á Hraunaveitusvæðunum komin á fjórða hundrað. Um 250 ökutæki og vinnuvélar af margvíslegri gerð voru í tækja- og bílaflota fyrirtækisins um síðustu áramót.

Þekking og reynsla 
 Af framansögðu má ljóst vera að Arnarfell býr yfir gríðarlegri reynslu og þekkingu varðandi hverskonar framkvæmdir á sviði vegagerðar, jarðgangagerðar, stíflugerðar, hafnargerðar, brúargerðar, byggingarvirkja, efnis - og steypuframleiðslu og fleiri framkvæmdaþátta. 
Þau fyrirtæki sem koma að stórframkvæmdum á borð við virkjunarframkvæmdir þurfa að búa yfir víðtækri reynslu þar sem oft er um margþætt og flókin verkefni að ræða. Arnarfell hefur lagt metnað í að bjóða upp á lausnir á sem flestum verkefnum er lúta að gerð virkjana. 
Í því ljósi má benda á að einu verkhlutarnir sem Arnarfell sér ekki um í gerð Hraunaveitu eru stálsmíði og uppsetning á lokum inntaksvirkja og botnrása. Allir aðrir verkhlutar, allt frá lagningu vega og jarðganga til framleiðslu steypu og fylliefna ásamt uppsteypum á byggingavirkjum, eru í höndum félagsins. 

Umhverfisog heilsuvernd 
Öryggi, heilsa og umhverfismál eru mikilvægur þáttur í rekstri fyrirtækja eins og Arnarfells. Hjá félaginu er þessum þáttum komið fyrir hjá öryggisstjóra fyrirtækisins sem hefur yfirumsjón með framkvæmd áhættugreininga fyrir alla verkþætti og eftirfylgni þeirra. 
Á vinnusvæðinu við Kárahnjúka er staðsettur öflugur sjúkra- og björgunarbíll sem Arnarfell gaf Björgunarsveitinni Héraði á Egilsstöðum í viðurkenningarskyni fyrir ómetanlegt starf sem björgunarsveitarmenn landsins vinna en hann er rekin í samvinnu við þá til verkloka. 
Arnarfell er eitt fárra verktakafyrirtækja á landinu sem kaupir endurnýtanlegar smurolíur og vökvakerfisolíur á vinnuvélar sínar. Notaðar eru sérstakar skilvindur til hreinsunar á olíunni svo endurnýta megi hana. 
Þessi aðferð skapar möguleika á því að margnýta sömu olíuna með tilheyrandi sparnaði og margfalt minni olíunotkun. 

Framtíðin
 Í framtíðinni mun Arnarfell sækja fram á sömu sviðum og undanfarin ár. Mikil þekking hefur skapast innan fyrirtækisins í jarðganga- og virkjanagerð og má segja að í báðum þessum þáttum séu horfurnar nokkuð góðar hér á landi. 
Fyrirhuguð er nokkur jarðgangagerð hér á landi og fetum við Íslendingar þar í fótspor nágranna okkar í Færeyjum og Noregi. Kröfur um bættar samgöngur fara vaxandi og til að svara þeim eru jarðgöng góður valkostur ef horft er til umferðaröryggis og umhverfisþátta. 
Einnig er umhverfisvæn orkuframleiðsla í örum vexti og endurnýtanlegir orkugjafar eins og vatnsföll og jarðhiti möguleikar sem horft er til í auknum mæli um allan heim. Verktakafyrirtæki eins og Arnarfelli er ekkert að vanbúnaði að takast á við verkefni eins og þau sem upp hafa verið talin hér að framan því þekkingin, reynslan og tækjabúnaðurinn er fyrir hendi. 

Fróðleiksmolar 
Arnarfell er eitt fárra fyrirtækja á Íslandi sem sérhæfir sig í jarðgangagerð og rekur nú fjóra jarðgangabori. Um 60 manns starfa við jarðgangagröft hjá félaginu. Arnarfell hefur lagt um 100 kílómetra af nýjum vegum, auk endurbóta á eldri vegum. Jarðgangamenn Arnarfells eru búnir að verja um einni milljón vinnustunda neðanjarðar við gangagröft. 
Á þriðja hundrað manns starfa nú hjá Arnarfelli og um mitt sumar 2007 verður fjöldi starfsmanna við framkvæmdir á Hraunaveitusvæðunum komin á fjórða hundrað. Arnarfell hefur unnið að virkjunarframkvæmdum nánast óslitið undanfarin 12 ár. 
Um 250 ökutæki og vinnuvélar af margvíslegri gerð voru í tækja- og bílaflota Arnarfells um síðustu áramót. Arnarfell er eitt fárra verktakafyrirtækja á landinu sem endurnýtir smurolíu og vökvakerfisolíu vinnuvéla með því að nota sérstakar skilvindur sem hreinsar olíuna.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga