Greinasafni: Orka
Arctic-HYDRA
Arctic-HYDRA 

Vatnafræðilegar rannsóknir á Heimskautaárinu 2007-2008 

Alþjóðlegu átaki í rannsóknum á heimskautasvæðunum hefur verið hrundið af stað undir merkjum Heimskautaársins 2007-2008, International Polar Year 2007-2008 (IPY 2007-2008). Að Heimskautaárinu standa annars vegar Alþjóðavísindasambandið, ICSU, (International Council of Scientific Unions) og hins vegar Alþjóðaveðurfræðistofnunin, WMO. 
Arctic-HYDRA er klasi vatnafræðirannsóknarverkefna innan IPY 2007-2008 sem ætlað er að fylla í eyður þekkingar okkar á ferskvatnshringrás Norðurslóða. Verkefnið er undir forystu Vatnamælinga Orkustofnunar og er það eina rannsóknarverkefnið innan IPY sem leitt er af Íslendingum. Verkefnið er stutt af Norrænu ráðherranefndinni, Alþjóðaveðurmálastofnuninni WMO og World Climate Research Program, Climate and Cryosphere (- WCRP/CliC). Í verkefninu eru þátttakendur frá öllum löndum innan Norðurheimskautsráðsins (Arctic Council). 
Í nýjum niðurstöðum IPCC er talið mjög líklegt að hafstraumar í Norður- Atlantshafi muni hægja á sér með hlýnandi veðurfari og hefur ferskvatnshringrás á Norðurslóðum veruleg áhrif þar á. Þær fræðilegu spurningar sem einkum liggja til grundvallar Arctic-HYDRA eru eftirfarandi: 


Talið er mjög líklegt að hafstraumar í Norður-Atlantshafi muni hægja á sér 
með hlýnandi veðurfari og hefur ferskvatnshringrás á Norðurslóðum veruleg 
áhrif þar á.


- Hvert er hlutverk ferskvatnshringrásar Norðurslóða í hinu hnattræna loftslagi? 

- Hver eru áhrif loftslagsbreytinga og breytileika á ferskvatnshringrás Norðurslóða? 

- Hverjar eru afleiðingar þess að ferskvatnshringrás Norðurslóðakunna að breytast (undir breyttu veðurfari) fyrir svæðisbundnar og hnattrænar breytingar á loftslagi? 

- En hvað skortir á að viðunandi skilningur sé á ferskvatnshringrás Norðurslóða? 

- Vatnamælikerfi eru ekki fullnægjandi og fer hnignandi sumstaðar, jafnvel eru stór svæði án mælinga. 

- Rekstur mælikerfanna er bæði erfiður og kostnaðarsamur. Því er mikil þörf á því að þróa nýjar aðferðir við mælingar, s.s. notkun gervihnattamælinga til þess að leysa hefðbundnar mælingar af hólmi. 

- Ferskvatnshringrás Norðurslóða er mjög flókin og er nauðsynlegt að beita samræmdum gagna-úrvinnsluaðferðum og líkönum á svæðið í heild sinni. 

- Samstarf allra heimskautalanda er forsenda fyrir því að árangur náist. 

Markmið Arctic-HYDRA er að koma í rekstur vatnamælingakerfi sem tekur til alls þess svæðis sem á afrennsli til Íshafsins og nærliggjandi svæða og leggja á grundvelli þess fram mat á innrennsli ferskvatns til Norðurhafa, en einungis hluti þess innrennslis er mældur. Jafnframt að beita vatnafræðilegum líkönum samþættum við mælingar á veðri, vatni, jöklum, sífrera og öðrum þeim þáttum sem ráða vatnafari til þess að fylla í eyður mælinga, bæði í tíma og rúmi. Innrennsli ferskvatns og breytileiki þess er talið vera veigamikill þáttur í breytileika í veðurfari og ástandi hafsins á Norðurslóðum, sem aftur hefur hnattræn áhrif í hafi og á veður og vatnafar. 

Nánari upplýsingar um verkefnið má nálgast á vefslóðinni:
http://classic.ipy.org/development/eoi/proposal-details.php?id=104 

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga