Greinasafni: Orka
Olíuauðlindir
Olíuauðlindir norðaustur af landinu


Eiríkur rauði, í eigu norska fyrirtækisins Ocean Rig ASA, er dæmi um 
hálfsökkvanlegan olíuborpall sem hefur nauðsynlegan búnað til að vinna að 
borunum á norðanverðu Drekasvæðinu.
 

Niðurstöður jarðeðlisfræðilegra rannsókna á svo kölluðu Drekasvæði við Jan Mayen hrygginn gefa vísbendingar um að olíu og gas sé þar að finna í vinnanlegu magni. Svæðið er innan íslensku efnhagslögsögunnar og eitt þriggja svæða við Ísland þar sem hugsanlega má finna olíu og gas. Af þeim þykir Drekasvæðið vænlegast til vinnslu og því er nú horft þangað með vaxandi áhuga. 
Iðnaðarráðuneytið hefur lagt fram til umsagnar skýrslu með tillögu að áætlun um útgáfu sérleyfa til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á norðanverðu Drekasvæðinu ásamt drögum að umhverfismati þeirrar áætlunar. Samkvæmt tillögunni felur áætlunin í sér að gefin verði út sérleyfi til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á norðanverðu Drekasvæðinu, eða á vænlegustu svæðum innan þess. Niðurstöður hljóðendurvarpsmælinga gefa vísbendingar um að olíu og gas í vinnanlegu magni geti verið að finna þar. Frekari rannsóknir, þar á meðal rannsóknarboranir, þarf hins vegar til að sannreyna hvort að svo sé. 
Kristinn Einarsson landfræðingur er verkefnastjóri hjá Orkustofnun í olíuleitarverkefninu en Orkustofnun mun gefa út öll tilskilinn leyfi þegar og ef af því verður. Hann segir drauminn um að olíu sé að finna í vinnanlegu magni í íslensku efnahagslögsögunni ekki nýjan af nálinni. „Fyrsta landgrunnsnefndin var skipuð af þáverandi Rannsóknaráði ríkisins árið 1969 og síðan hafa allmargar slíkar nefndir verið að störfum, nú síðast í samstarfi ráðuneyta iðnaðar- og utanríkismála og með aðild Orkustofnunar sem ætíð hefur lagt rannsóknum á þessu sviði lið. Áhugamenn um málefnið hafa reglulega setið á Alþingi og má þar nefna Eyjólf Konráð Jónsson, sem nú er látinn, og Guðmund Hallvarðsson. Niðurstöður jarðeðlisfræðilegra mælinga og aukin þekking á jarðsögu Norður-Atlantshafsins kveiktu í upphafi vonir sem hafa fremur glæðst en minnkað í seinni tíð,“ segir Kristinn. 
Þau olíufyrirtæki sem sýnt hafa áhuga á olíuleit við Ísland á síðustu árum tilheyra hópi lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem sérhæfa sig í leit að vænlegum svæðum til frekari rannsókna og bjóða oft niðurstöður sínar til sölu. Þegar kemur að útboði á sérleyfum til rannsókna og vinnslu, með tilheyrandi aukningu á kostnaði, draga slík fyrirtæki sig gjarnan í hlé eða fá stærri olíufyrirtæki í lið með sér til að dreifa áhættunni. Nefna má í þessu sambandi bandaríska olíufyrirtækið Grynberg, norsku olíufyrirtækin Wavefield InSeis og TGS-NOPEC og norsk-íslenska olíufyrirtækið Sagex. 


Finnist olía og gas í vinnanlegu magni á
Jan Mayen-hryggnum gæti slíkt haft
kröftug efnahagsleg áhrif á íslenskan
þjóðarbúskap.


Áætlunin 
Drekasvæðið er um 42.700 km2 að flatarmáli. Um hluta svæðisins gildir milliríkjasamningur milli Íslands og Noregs frá 1981 um landgrunnið milli Íslands og Jan Mayen og þekur sá hluti 12.720 km2 innan þess, eða tæplega þrjá tíundu hluta svæðisins. 
Settir eru fram þrír valkostir: Fyrsti valkosturinn gerir ráð fyrir að heimilt verði að bjóða fram leyfi á öllu svæðinu, annar valkosturinn að stærð leyfisveitngarsvæðis verði takmörkuð við það svæði sem líklegast þykir að olíu og gas sé að finna á og þriðji valkosturinn er að veita engin leyfi á svæðinu, tímabundið eða til frambúðar. 
Tækni til borana á sjávarbotni hefur töluvert fleygt fram á undanförnum árum og segir Kristinn það forsendu þess að olíuiðnaðurinn sýni nú Drekasvæðinu áhuga. „Á norðanverðu Drekasvæðinu er hafdýpi yfir áhugaverðum fyrirbærum yfirleitt á bilinu 1.000 til 1.500 metrar. Það er aðeins á síðustu árum sem tækni hefur verið þróuð til að ráða við boranir á svo miklu dýpi og hefur það t.d. verið gert í Mexíkóflóa,“ segir Kristinn. 
Þó vísbendingar bendi til að vinnanlega olíu sé að finna á svæðinu segir Kristinn of snemmt að fullyrða að svo sé. „Um það er erfitt eða ómögulegt að segja á meðan ekki hefur verið borað í hafsbotninn. Aðeins liggja fyrir óbeinar vísbendingar en þær þykja gefa það góðar vonir að rétt sé að halda rannsóknum áfram. Í olíuleit er ætíð áhætta, ekki síst við byrjun rannsóknaborana, og því þurfa yfirleitt stór og reynd fyrirtæki að koma að því verki.“ 

Leit, rannsóknir og vinnsla 
Leit, rannsóknir og vinnsla á olíu og gasi hafa í för með sér mismunandi framkvæmdir og áhrif. Leitarstigið útheimtir ekki beinar framkvæmdir á svæðinu en leiðir af sér tímabundna aukningu á skipaumferð á tiltölulega fáförnu svæði. Á leitarstiginu er einkanlega um að ræða umferð skipa sem sigla um fyrirframákveðnar leiðir og gera hljóðendurvarpsmælingar, auk afmarkaðrar sýnatöku af yfirborðslögum hafsbotnsins. Aðgerðirnar geta staðið yfir í nokkra mánuði í senn yfir sumartímann en eru þó staðbundnar og tímabundnar. 
Rannsóknarstigið felur í sér beinar framkvæmdir á leitarsvæðinu, auk áframhalds á óbeinum mælingum sem falla undir leitarstigið. Hér er einkum um að ræða rannsóknarboranir sem verður að teljast flókin framkvæmd við þær aðstæður sem ríkja á svæðinu. Boranir fara annað hvort fram frá sérstökum borskipum eða borpöllum sem mara í sjónum. Eftir að borun rannsóknaholu lýkur hefjast margvíslegar prófanir á holunni sem einkum miða að því að finna hvort þar er að finna ummerki olíu. Verður því þegar frá upphafi að gera ráð fyrir hugsanlegri mengun frá slíkum framkvæmdum auk áhrifa af framkvæmdunum sjálfum á umhverfið. Ef rannsóknaboranir gefa góða raun getur verið hagkvæmt að setja upp vinnslubúnað og aðstöðu sem nauðsynleg er vegna þessa.

„Sveitarfélög hljóta að sækjast eftir öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi til að treysta undirstöður fyrir velsæld og lífsgæði íbúanna. Olíuboranir og olíuvinnsla lúta að flestu eða öllu leyti sömu lögmálum og annar atvinnurekstur í þessu sambandi.“ 

Vinnsla olíu eða gass úr jarðlögum sem liggja á miklu dýpi er tæknilega erfið og flókin iðnaðarstarfsemi sem hefur margvísleg áhrif á umhverfi sitt. Boranir, lagnir, meðhöndlun olíu og eða gass, starfsemi um borð í vinnslueiningu, starfsmannaíbúðir og önnur ívera, aðdrættir, mengandi efni sem koma upp með olíu eða eru notuð vegna framleiðslunnar, meðhöndlun úrgangs og flutningur olíu frá vinnslusvæði eru allt uppsprettur mengunar og annarra skaðlegra áhrifa á umhverfið sem hafa ber í huga þegar frá byrjun. Framkvæmdir neðansjávar, til að mynda lagning leiðslna og uppbygging ýmissa mannvirkja s.s. dælustöðvar hafa bein áhrif á hafsbotninn og lífsafkomu botndýra á svæðinu. 

Óvissuþættir 
Ýmsir óvissuþættir eru til staðar hvað varðar áætlun þessa. Óvissa er til að mynda um hversu mikinn áhuga olíufyrirtæki hafa á að fara í leit að olíu og gasi á svæðinu og óvissa er um hvort olía og gas í vinnanlegu magni finnist á svæðinu. Ekki liggur fyrir nákvæmlega hvaða aðferðir verði notaðar við boranir né vinnslu á svæðinu, ef af þeim verður, en gert er ráð fyrir í áætluninni að strangar kröfur verði gerðar til mengunarvarna til að sporna gegn mengun umhverfisins, auk þess sem strangar kröfur verði gerðar til öryggismála enda aðstæður erfiðar ásvæðinu. Mörgum spurningum verður auk þess ekki svarað fyrr en við mat á umhverfisáhrifum einstakra framkvæmda á svæðinu, svo sem við mat á umhverfisáhrifum einstakra borhola. Engar tæknilegar takmarkanir eða hindranir virðast hins vegar standa í vegi fyrir olíuog gasvinnslu á svæðinu, fari svo að slíkar auðlindir finnist þar. 

Kostnaður og ávinningur 
Vegna óvissu um hugsanlega framvindu leitar, rannsókna og vinnslu olíu og gass á norðanverðu Drekasvæðinu vann norska ráðgjafafyrirtækið Sagex skýrslu fyrir iðnaðarráðuneytið þar sem m.a. eru settar fram fjórar sviðsmyndir (scenarios) um hugsanlega þróun í rannsóknum og vinnslu á svæðinu. Í einu tilfelli var gert ráð fyrir að engin olía eða gas fyndist á svæðinu en í þremur tilfellum var gert ráð fyrir að olía í mismiklum mæli fyndist. Í einu þeirra var jafnframt gert ráð fyrir að finna nægilega mikið gas til þess að það stæði undir leiðslu í land og uppbyggingu vinnslustöðvar til þjöppunar og útskipunar á gasi. 
Kristinn segir áætlunina um að veita sérleyfi til rannsókna og vinnslu ekki fela í sér þann möguleika að gasleiðsla verði lögð til lands og vinnslustöð reist í landi - ekki að svo stöddu. „Ekki að öðru leyti en því að við viljum gera okkur grein fyrir stærðargráðu kostnaðar og tekna og mögulegum áhrifum á helstu þjóðhagsstærðir ef svo mikið gas fyndist að það yrði raunhæft. Nefna má fjarlægð til lands, aðstæður á hafsbotni, hafstrauma og möguleg umhverfisáhrif meðal þess sem þarfnast athugunar áður en hægt er að segja til um hvar slík leiðsla kæmi á land. Sá staður yrði þó líklega á Norðaustur- eða Austurlandi.“

Hagur heimamanna 
Kristinn segir ekki tímabært að skoða náið möguleika á vinnslustöð í landi en segir það sveitarfélag sem hýsa muni þjónustumiðstöð fyrir rannsóknarboranir og vinnslu á hafi úti njóta góðs af. „Slík þjónustumiðstöð þarfnast bæði hafnaraðstöðu, landrýmis og vinnuafls einhverra tuga manna sem vissulega hefði jákvæð áhrif á atvinnulíf viðkomandi sveitarfélags. Gera má ráð fyrir hafnar- og fasteignagjöldum og í þeim sveitarfélögum sem leggja til vinnuafl verða til útsvarstekjur en ekki er gert ráð fyrir íslensku vinnuafli svo neinu nemi við sjálfar boranirnar eða vinnsluna úti á hafi. Sveitarfélög hljóta að sækjast eftir öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi til að treysta undirstöður fyrir velsæld og lífsgæði íbúanna. Olíuboranir og olíuvinnsla lúta að flestu eða öllu leyti sömu lögmálum og annar atvinnurekstur í þessu sambandi,“ segir Kristinn. Sagex áætlaði að kostnaður við leit og rannsóknir væri 15-26 milljarðar króna miðað við mismunandi sviðsmyndir um fjölda rannsóknarborhola. Fyndist olía eða gas á svæðinu gæti stofnkostnaður vegna vinnslu olíu og gass og undirbúnings þar að lútandi verið á bilinu 200-580 milljarðar króna miðað við mismunandi sviðsmyndir um heildarmagn olíu- og gass á svæðinu, auk þess sem árlegur rekstrarkostnaður vegna vinnslu gæti verið á bilinu 6 -17 milljarðar króna. Þessar fjárhæðir eru miðaðar við verðlag ársins 2005 en stofnkostnaður hefur hækkað mikið síðan þá. Nýrri tölur eru ekki handbærar en Kristinn segir að komi til leyfisveitinga vegna rannsókna og vinnslu verði tölurnar að sjálfsögðu endurskoðaðar. „Á þessu stigi undirbúnings gefa þær fullnægjandi upplýsingar um stærðargráðu mögulegs kostnaðar og tekna. Áætlunin sem nú liggur fyrir snýst um það að bjóða út sérleyfi til rannsókna og vinnslu til einkafyrirtækja og þau myndu greiða kostnaðinn. Íslenska ríkið greiðir aðeins þær grunnrannsóknir sem nauðsynlegar eru til undirbúnings fyrir leyfisveitingar,“ segir Kristinn.

Kristinn Einarsson

Skattar og gjöld 
Við töku ákvörðunar um gjöld og skattheimtu er mikilvægt að annars vegar sé tryggt að ásættanlegur arður af olíustarfsemi renni til íslenska ríkisins og hins vegar að samanlögð skattheimta á olíustarfsemi hér á landi verði ekki hærri en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar til að tryggja að skattaumhverfið hérlendis sé fullkomlega samkeppnishæft samanborið við nágrannaþjóðir okkar. Sérstakur vinnuhópur, undir forystu fjármálaráðuneytis, var stofnaður til að skoða skatta og gjöld tengd olíustarfsemi í nágrannalöndum okkar og er sú vinna enn í gangi. Stærsta málið sem taka þarf afstöðu til áður en leyfi eru veitt til rannsókna og vinnslu á olíu og gasi er hvort setja eigi á sérstakan skatt á hagnað vegna slíkrar starfsemi hérlendis, eins og víða hefur verið gert, auk þess sem einnig þarf að skoða hvort innheimta eigi framleiðslugjöld eða taka hlutdeild í leyfum. 

Þjóðarhagur 
Finnist olía og gas í vinnanlegu magni á Jan Mayen-hryggnum gæti slíkt haft kröftug efnahagsleg áhrif á íslenskan þjóðarbúskap. Landsframleiðsla gæti hækkað umtalsvert þegar framkvæmdir og framleiðsla standa sem hæst í olíugeiranum. Reikna má með að tekjur ríkissjóðs hækki verulega. Í þessu sambandi kemur sterklega til greina að lagður verði sérstakur auðlindaskattur á greinina til viðbótar almennum tekjuskatti á félög. Tekjur af þessari skattlagningu gætu runnið í sérstakan olíusjóð. Útgjöld hins opinbera í tengslum við olíugeirann eru væntanlega lítið brot af þeim tekjum sem búist er við að skili sér í beinum sköttum í ríkissjóð. Ytra jafnvægi þjóðarbúsins, þ.e. viðskiptaog greiðslujöfnuður gagnvart útlöndum, gæti sveiflast sem birtist í auknum halla og skuldasöfnun á uppbyggingartíma olíugreinarinnar. Hins vegar má búast við viðsnúningi á þessu sviði þegar framleiðsla á olíu væri komin á fullt skrið.

„Fjárhagslega gæti verið um sömu eða svipaða stærðargráðu að ræða og Kárahnjúkaverkefnið. Hins vegar yrðu störfin væntanlega töluvert færri að því gefnu að ekki væri um íslenskt vinnuafl að ræða við olíuboranir og vinnslu á hafi úti.“  

Innra jafnvægi gæti raskast með auknum verðbólguþrýstingi og möguleika á ruðningsáhrifum í gegnum sterkara gengi krónunnar. Mótvægi við slíkum áhrifum felst í beitingu hefðbundinna efnahagsaðgerða en auk þess kæmi til greina að stofna sérstakan olíusjóð eins og hér að framan greinir. Til mikils er að vinna gangi verkefnið að vonum þeirra bjartsýnustu. „Fjárhagslega gæti verið um sömu eða svipaða stærðargráðu að ræða og Kárahnjúkaverkefnið. Hins vegar yrðu störfin væntanlega töluvert færri að því gefnu að ekki væri um íslenskt vinnuafl að ræða við olíuboranir og vinnslu á hafi úti,“ segir Kristinn. 

Viðbrögð við mengun 
Í dag eru tvö varðskip í rekstri hjá Landhelgisgæslunni en þau hafa engan mengunarvarnarbúnað. Nýtt varðskip er væntanlegt árið 2009 og er gert ráð fyrir í útboði að það verði búið mengunarvarnarbúnaði og tankarými til að taka við menguðum sjó. Núverandi eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar hefur ekki tækjabúnað til að greina mengun en gert er ráð fyrir að slíkur búnaður verði í nýrri eftirlitsflugvél sem boðin var út árið 2006. 
Skipta má viðbrögðum við mengunaróhöppum í þrjá flokka eftir umfangi mengunarinnar. Ef um er að ræða tiltölulega lítið og afmarkað óhapp má gera ráð fyrir því að starfsmenn sinni því, þ.e. ef á annað borð telst ástæða til aðgerða. Reynist óhappið meira en svo að hægt verði að ráða við það með mannskap og búnaði á staðnum koma inn viðbragðsaðilar úr landi. Vegna staðsetningarinnar getur slík aðstoð komið úr tveimur áttum, annars vegar frá Íslandi en einnig kemur vel til greina að hentugra væri að kalla eftir aðstoð frá Noregi. Í þeim tilfellum sem mengunaróhappið reynist umfangsmikið og útheimta mikinn búnað og sérfræðiþekkingu er Ísland aðili að samstarfi Evrópuríkja um viðbúnað og viðbrögð við bráðamengunaróhöppum og getur Umhverfisstofnun óskað eftir búnaði og sérfræðiaðstoð eftir þörfum. 

Fiskveiðar 
Ekki hafa verið gerðar tilraunir til botnfiskveiða á norðanverðu Drekasvæðinu svo vitað sé, og er vitneskja því lítil um botnfisk á þessum slóðum. Uppsjávarfiskur fer yfirleitt um mun stærra svæði en botnfiskur og eru áraskipti að göngu hans. Loðna hefur ekki veiðst á norðanverðu Drekasvæðinu á síðustu árum. Hins vegar veiðist síld úr norsk-íslenska stofninum á svæðinu þriðja til fjórða hvert ár að jafnaði, skv. þeirri reynslu sem fengin er síðan 1994. Mest fékkst á svæðinu árið 1998 tæp 4.800 tonn, en um 1.500 tonn árið 1996. 

Samgöngur 
Ekki er talið að starfsemi á Drekasvæðinu hafi áhrif á siglingar. Megin siglingaleiðir flutningaskipa frá meginlandi Norður-Ameríku og norður fyrir Noreg liggja bæði suður og norður fyrir Ísland og fara þessar tvær brautir að mestu hvor sínu megin við norðurhluta Drekasvæðisins. 
Ekki er heldur talið að starfsemi á Drekasvæðinu hafi áhrif á flugsamgöngur og ekki er vitað um aðra starfsemi á þessu svæði sem gæti orðið fyrir áhrifum vegna leitar, rannsókna og vinnslu á olíu. 


Norðurhluti Drekasvæðisins er rauðlitaður.

Framhaldið 
Næsta skref er að hefja undirbúning fyrir veitingu sérleyfa til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á norðanverðu Drekasvæðinu eða á vænlegustu svæðum innan þess. Meta þarf á grundvelli framkominna tillagna þörfina á frekari rannsóknum á veður- og náttúrufari á Drekasvæðinu, sem og hvort stjórnvöld eigi að standa að þeim rannsóknum eða hvort sú skylda verði lögð á þau fyrirtæki sem fá munu úthlutað sérleyfum til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á svæðinu. 
Ef ákveðið verður að hefja leyfisveitingaferli í samræmi við framangreindar tillögur tekur við frekari undirbúningsvinna og gera má ráð fyrir að a.m.k. eins til tveggja ára vinna sé framundan áður en hægt verði að úthluta sérleyfum til rannsókna og vinnslu olíu og gass á norðanverðu Drekasvæðinu.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga