Greinasafni: Orka
Norðurorka
Vatn - raforka - varmi

Norðurorka er orku- og þekkingarfyrirtæki sem var stofnað árið 2000 með sameiningu Hita-og vatnsveitu Akureyrar og Rafveitu Akureyrar. 
Hlutverk Norðurorku er að sinna orkuþörf heimila og fyrirtækja á orkuveitusvæði sínu með því að dreifa vatni, raforku og heitu vatni til viðskiptavina sinna. 

Norðuroka á fyrirtækið Fallorku ehf 
Hlutverk Fallorku er að framleiða raforku sem og að kaupa og selja raforku um allt land og eru allir landsmenn velkomnir í viðskipti.
 
Hitaveita lögð til Grenivíkur og í Fnjóskadal
Nú er verið að leggja hitaveitu frá Reykjum í Fnjóskadal til Grenivíkur og með þeirri framkvæmd fækkar þeim verulega sem ekki eiga kost á hitaveitu við Eyjafjörð.

Glerárvirkjun 
Glerárvirkjun var fyrst byggð árið 1922 og endurbyggð 2005. Þegar staðið er við Glerárvirkjun sést aðeins virkjunin, gljúfrið, vatnið og himininn en þó erum við stödd í miðjum Akureyrarbæ. Þegar þú kemur til Akureyrar skaltu ganga niður í gljúfrið við göngubrúna yfir Glerá. 

 
 

Krafturinn í kúaskítnum 
Metanframleiðsla í þéttbýlum landbúnaðarhéruðum


Þóroddur Sveinsson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands og tilraunastjóri á 
Möðruvöllum er einn af verkefnisstjórum verkefnisins (Ljósm. LbhÍ).
 
Fyrir utan koldíoxíð (CO2) er metan (CH4) sú gróðurhúsalofttegund sem mest hefur aukist í andrúmsloftinu af mannavöldum. Metanmyndun (methanogenesis) er lokastig niðurbrots á lífrænu efni við loftfirrtar aðstæður og ein helsta uppspretta metans er í landbúnaði. Þar losnar það með viðrekstri búfjár, aðallega nautgripa, úr mykjuhaugum, við fóðurverkun og síðast en ekki síst úr vatnsmettuðum jarðvegi. Þá eru stórir urðunarstaðir sorps (landfyllingar) miklir metanframleiðendur. Víða um heim er hafin metanvinnsla úr hauggasi frá landfyllingum og á Íslandi hófst metanvinnsla úr sorpi árið 2000 á vegum Metans. Þar er metanið nýtt sem ökutækjaeldsneyti en einnig er óhreinsað hauggas (um 55% metan) notað til raforkuframleiðslu og sem orkugjafi í iðnaði. Á landsbyggðinni eru möguleikar til að virkja hauggas á urðunarstöðum sorps mun takmarkaðri. Hins vegar verður þar til mikið af annars konar lífrænum úrgangi sem mætti hugsanlega nýta til metanframleiðsu.
 
Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ), í samvinnu við VGK hönnun, Metan hf. og Sorpu bs stendur að verkefni sem hefur það að markmiði að efla grunnþekkingu á nýtingu lífræns úrgangs til metanframleiðslu. Einn liður þessa verkefnis felst í að rannsaka möguleikana hér á landi til þess að framleiða metan úr kúaskít í þéttbýlum landbúnaðarhéruðum eins og í Eyjafirði. Miðlægar hauggasvirkjanir þar sem búfjáráburður er grunnhráefnið, hafa víða rutt sér til rúms í nágrannalöndunum. Þessar virkjanir teljast umhverfisvænar og eru flokkaðar sem „koldíoxíðhlutlausar“. Það er því vel þekkt að hægt sé að framleiða metan úr kúaskít en hins vegar þarf rannsóknir til að meta hvort það sé hagkvæmt við íslenskar aðstæður. Rekstrarskilyrðin fyrir slíkar virkjanir eru háðar aðgengilegu magni og gæðum (metanhæfni) búfjáráburðarins, flutningavegalengdum og markaði fyrir afurðirnar í nærumhverfinu. Orkusjóður Orkuveitu Reykjavíkur veitti á dögunum LbhÍ styrk í verkefnið til þess að hefja þessar rannsóknir.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga