Greinasafni: Orka
Stækkun Lagarfossvirkjunar tilbúin til notkunar
Innan skamms verður tekin formlega í notkun 20 MW stækkun Lagarfossvirkjunar, en prófanir standa nú yfir. Eldri hlutinn er um 8 MW þannig að virkjunin verður nú samtals um 28 MW að afli. Með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar mun rennsli aukast um Lagarfljót sem gerir þessa stækkun fýsilega og er talið að orkuvinnsla muni aukast um 130 GWh á ári. 
Á undanförnum misserum hefur RARIK unnið að stækkun Lagarfossvirkjunar á Héraði og á árinu 2004 féllst Skipulagsstofnun á þá ósk RARIK að stækkun virkjunarinnar yrði undanþegin mati á umhverfisáhrifum. Framkvæmdin felur meðal annars í sér nýja aflvél með tilheyrandi búnaði, stækkun stöðvarhúss, dýpkun og breikkun aðrennslisskurðar. Í leiðinni var gangráður, segulmögnunarbúnaður svo og stjórn- og varnarbúnaður eldri vélar endurnýjaður. 
Í september 2004 óskaði RARIK formlega eftir því við iðnaðarráðherra að fá virkjunarleyfi vegna stækkunar Lagarfossvirkjunar um allt að 20 MW með um 130 GWh orkuaukningu á ári. Virkjunarleyfið var gefið út af iðnaðarráðherra í janúar 2005. Í kjölfar þess sótti RARIK um byggingar- og framkvæmdaleyfi vegna stækkunarinnar til Fljótsdalshéraðs og voru þau veitt á vormánuðum 2005. 
Véla- og rafbúnaður var boðinn út í október 2004. Tilboð voru opnuð í desember sama ár og bárust tvö tilboð. Ákveðið var að ganga til samninga við Litostroj frá Slóveníu um kaup á hverfli og gangráði og Koncar frá Króatíu um kaup á rafala og segulmögnunarbúnaði og er samningsverð um 854 Mkr sem var um 91% af kostnaðaráætlun. 
Útboð á byggingarhluta var auglýst um miðjan desember 2004 og voru tilboð opnuð um miðjan febrúar 2005. Ákveðið var að ganga til samninga við Íslenska aðalverktaka hf. (ÍAV) sem áttu næst lægsta tilboðið þar eð lægstbjóðandi féll frá sínu tilboði. Samningsupphæð var um 838 Mkr sem er um 75% af kostnaðaráætlun. 
Tilboð í lokur og ristar voru opnuð í maí 2005 og ákveðið að eiga viðskipti við Montavar Metalna Nova í Slóveníu en tilboð þeirra var upp á um 170 Mkr. Þá voru tilboð í stöðvarkrana opnuð í júní sama ár og samið við lægstbjóðanda sem var Munck Cranes frá Noregi með tilboð upp á um 18 Mkr. 
Stjórn- og varnarbúnaður fyrir báðar vélarnar var pantaður frá Koncar í nóvember 2005 eftir útboð þar sem tilboð þeirra var 76 Mkr sem var tæplega 90% af áætlun. 
Framkvæmdir ÍAV hófust um miðjan apríl 2005 með uppgreftri og aðstöðusköpun. Þá um sumarið var grafið og sprengt fyrir sográs og stöðvarhúsi ásamt fyrir inntaki og þrýstistokki. Þar sem grafa þurfti 13 m niður fyrir sjávarmál eða 16 - 17 m undir yfirborð bakvatns eldri virkjunarinnar varð verktakinn að byggja mikinn vatnsvarnargarð til að halda Lagarfljóti frá grunninum. Ekki tókst þó betur til en svo að í flóðum um miðjan október 2005 lak stíflan það mikið að grunnurinn fylltist af vatni þannig að steypuvinna tafðist nokkuð án þess þó að hafa varanleg áhrif á lúkningu verksins. 
Vegna framkvæmdanna þurfti að stöðva vélbúnað eldri hluta virkjunarinnar um tíma í fyrrasumar, en hann var endurræstur í október með nýjum stýri- og varnarbúnaði, samskonar og verður í nýja hlutanum. Ákveðið var ennfremur að taka í gegn yfirfallslokur fyrir flóðgáttum. Búið er að breikka aðrennslisskurðinn að virkjuninni sem var nauðsynlegt vegna þess að til viðbótar við þá 60 rúmmetra vatns á sekúndu, sem fóru í gegnum gömlu vélina, þá fara í gegnum nýja vél 125 rúmmetrar á sekúndu að auki, þannig að vatnsmagnið þrefaldast. Ákveðið var ennfremur taka í gegn yfirfallslokur fyrir flóðgáttum. 
Nú er búið að koma fyrir stærstu hlutum vélbúnaðar. Vatnshjólið er engin smásmíði, næstum 5 metrar í þvermál, en túrbínan er af Kaplan gerð, framleidd af Litostroj í Slóveníu. Rafali, stjórn- og varnarbúnaður er hinsvegar frá Koncar í Króatíu. Rótor rafalans er þyngsta einstaka stykkið í virkjuninni, vegur 105 tonn og var flutt frá höfninni á Reyðarfirði og upp í Lagarfossvirkjun. Flutningurinn gekk vel miðað við vetraraðstæður, en flutningurinn með flutningatækjunum var um 150 tonn að þyngd og vegir ekki í besta ástandi. 
Gert er ráð fyrir að prófanir á vélum fari fram í apríl og maí og virkjunin komist öll í gagnið í lok maí 2007 og frágangi ljúki síðar á árinu. Heildarkostnaður við framkvæmdir er um 3 milljarðar og stefnir í að kostnaðaráætlun standist nokkuð vel. Reiknað er með um 20 MW afli frá nýja hlutanum, og að afköst virkjunarinnar aukist 3-4 falt við þessa stækkun. 

Rarik flytur í júní
- Eftir áratuga veru við Hlemm, flytja skrifstofur RARIK í Reykjavík í nýtt húsnæði við Bíldshöfða 9 í Reykjavík upp úr miðjum júní. 
- RARIK hefur leigt núverandi húsnæði af fasteignum ríkissjóðs í 28 ár. Húsnæðið er fyrir löngu orðið óhentugt fyrir reksturinn, aðkoma erfið fyrir viðskiptavini og bílastæði af skornum skammti. 
- Hið nýja húsnæði er í eigu BYGG og er innréttað og sniðið að þörfum RARIK samkvæmt nútímakröfum. Gerður er leigusamningur nokkur ár fram í tímann. Þá mun Orkusalan ehf verða í sama húsi. Símanúmer verður óbreytt en hið nýja póstfang verður: RARIK ohf, Bíldshöfða 9, 110 Reykjavík.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga