Greinasafni: Orka
Orkustofnun: Íslendingar úti að aka

Íslendingar úti að aka
Við Íslendingar búum á fallegasta blettinum á fallegustu plánetunni í öllum heiminum. Við vitum þetta og höfum tekið því sem sjálfsögðum hlut. Við vitum líka að við eigum hreinasta vatnið, hreinustu höfuðborgina og tærasta loftið. Við höfum líka tekið þessu sem sjálfsögðum hlut. En nú erum við smám saman að vakna upp við það að þessi gæði eru ekki sjálfgefin og að við verðum að vernda náttúruna til þess að hún spillist ekki. 
Á sama tíma og við vöknum til vitundar um fallvaltleika náttúru Íslands, verðum við að gera okkur grein fyrir því að eitthvert sterkasta framlag hvers einstaklings til umhverfismála er val hans á bifreið. Núverandi bílaeign landsmanna gefur ekki til kynna að margir láti sig umhverfismál nokkru skipta. Pallbílar, jeppar og aðrar eyðslufrekar lúxuskerrur njóta æ meiri vinsælda, og teljast til eftirsóttra stöðutákna. 
En hver eru umhverfisáhrif stöðutáknanna? Tökum dæmi. Miðað við meðalakstur, losar stór pallbíll um 23,8 kg af koltvísýringi á dag, en meðalstór tvinnbíll (bifreið knúin tveimur orkugjöfum) losar 3,8 kg. Munurinn er meira en sexfaldur! Mengun og annar útblástur helst nokkuð í hendur við koltvísýringslosunina, svo segja má að pallbíllinn sé sexfaldur sóði á við tvinnbílinn. Svo má geta þess, að til þess að binda einn dagskammt af koltvísýringslosun pallbílsins í gróðri, þyrfti að gróðursetja tólf tré1. 
Íslensk stjórnvöld hafa sett sér ramma um losun gróðurhúsalofttegunda, m.a. með samþykkt Kyoto sáttmálans. Ef verður af öllum þeim stóriðjuframkvæmdum sem nú eru í umræðunni má ekki mikið út af bera til þess að við náum ekki að uppfylla skilyrði hans. Auk þess er svifryk og önnur mengun orðin að vandamáli á þéttbýlustu svæðum landsins, svo ljóst er að eitthvað verður að gera til að snúa þessari þróun við. 
Vettvangur um vistvænt eldsneyti2, sem er samstarfsnefnd sex ráðuneyta, hefur gefið út skýrslu þar sem lagt er til að öll gjöld á bifreiðar og eldsneyti verði endurskoðuð með það í huga að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og mengun eins og hægt er. Megintillaga Vettvangsins er sú að öll gjöld á bifreiðar, eins og vörugjöld og bifreiðagjöld, verði tengd losun koltvísýrings. Jafnframt verði rekstrargjöld - sem nú eru í formi eldsneytisgjalda - skilgreind þannig að veggjöld verði skýrt afmörkuð og öll önnur gjöld tengd koltvísýringslosun. Skýrsla Vettvangsins leggur þó ekki til að nýir skattar verði lagðir ofan á þá sem fyrir eru. Þvert á móti er gert ráð fyrir því að heildartekjur ríkissjóðs haldist því sem næst óbreyttar, enda er nauðsynlegt að lækka heildargjöld af þeim bifreiðum sem vistvænastar eru og greiða þannig fyrir því að ný tækni nái fótfestu hér á landi, t.d. með tímabundnum afslætti af veggjöldum. 
Í skýrslu Vettvangsins eru stigin fyrstu skrefin í því að koma verðmiða á mengun og koltvísýringslosun. En til þess að slíkir mengunarskattar nái tilgangi sínum verða þeir að vera almennir og án undantekninga. Hreina loftið okkar er auðlind, sem ekki á að leyfast að spilla. Ágústa Loftsdóttir, verkefnisstjóri 
Vettvangs um vistvænt eldsneyti

1 Sjá reiknivélar á heimasíðu Orkuseturs, www.orkusetur.is 
2 Sjá heimasíðu Vettvangs um vistvænt eldsneyti, www.os.is/page/vve, en þar er jafnframt hægt að nálgast skýrsluna í heild sinni á pdf formi.
                                                                               

25   Pallbíllinn er sexfaldur
20   sóði á við tvinnbílinn 
15    
10
5    
0    
  Pallbíll  Tvinnbíll
CO2 losun í kg/dag

Hlutverk Orkustofnunar
Orkustofnun starfar undir yfirstjórn iðnaðarráðuneytisins samkvæmt lögum um Orkustofnun og samkvæmt reglugerð um Orkustofnun. Auk þess er kveðið á um hlutverk stofnunarinnar í öðrum lögum. 

Helstu verkefni Orkustofnunar eru: 
- Að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um orkumál og önnur auðlindamál sem stofnuninni eru falin með lögum og veita stjórnvöldum ráðgjöf og umsagnir um þau mál. 
- Að standa fyrir rannsóknum á orkubúskap þjóðarinnar, á orkulindum landsins og hafsbotnsins og á öðrum jarðrænum auðlindum þannig að unnt sé að meta þær og veita stjórnvöldum ráðgjöf um skynsamlega og hagkvæma nýtingu þeirra. 
- Að safna gögnum um orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orkubúskap landsmanna, varðveita þau og miðla upplýsingum til stjórnvalda og almennings. 
- Að vinna að áætlanagerð til langs tíma um orkubúskap þjóðarinnar og hagnýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda landsins og hafsbotnsins 
- Að stuðla að samvinnu þeirra sem sinna orkurannsóknum og samræmingu á rannsóknarverkefnum. 
- Að fylgjast í umboði ráðherra með framkvæmd opinberra leyfa sem gefin eru út til rannsóknar og nýtingar jarðrænna auðlinda og reksturs orkuvera og annarra meiri háttar orkumannvirkja 
- Að annast umsýslu Orkusjóðs.
 
Samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003, sem komu til framkvæmda þann 1. júlí 2003, annast Orkustofnun eftirlit með fyrirtækjum sem starfa samkvæmt lögunum. Eftirlit stofnunarinnar samkvæmt raforkulögum varðar setningu tekjumarka og eftirlit með gjaldskrám fyrir sérleyfisstarfsemi raforkufyrirtækja, bókhaldslegan aðskilnað fyrirtækja sem stunda mismunandi starfsemi samkvæmt lögunum og eftirlit með gæði raforku.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga