Greinasafni: Orka
Brimborg: viðtal við Egill Jóhannsson

Verðum að bregðast við strax

Egill Jóhannsson framkvæmdastjóri Brimborgar segir etanólbílinn aðgengilegasta kostinn í dag til að vega á móti gróðurhúsaáhrifum
 Bílar sem ganga fyrir bensíni og díselolíu kunna, innan örfárra ára, að heyra sögunni til. Víða um heim eru bílaframleiðendur farnir að selja bifreiðar sem ganga fyrir etanóli og Svíar sem hafa selt etanól meðfram bensíni síðastliðin sex ár eru lengst komnir norðurlandaþjóða með að innleiða þennan nýja orkugjafa sem framleiddur er úr lífrænum úrgangi.
Í lok þessa mánaðar er að vænta niðurstaðna forkönnunar olíufélaganna á fýsileika þess að selja etanól á bensínstöðvum hérlendis og þá er okkur ekkert að vanbúnaði að byrja að flytja slíka bíla inn. Egill Jóhannsson framkvæmdastjóri Brimborgar og formaður Bílgreinasambandsins hefur verið ötull baráttumáður fyrir því að Ísland taki upp þennan nýja orkugjafa sem hlýtur að vera það sem koma skal. 
Lengi hafa menn hins vegar verið að gæla við bíla sem knúðir eru áfram af vetni og þegar Egill er spurður hvað etanólið hafi fram yfir vetnið, segir hann það einfaldlega komið lengra. „Það er komið svo miklu lengra að etanólbílar eru tilbúnir í dag. 
Það er verið að selja þá í tuga, ef ekki hundruð þúsunda vís bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Hins vegar er aðeins verið að framleiða um tíu til tuttugu vetnisbíla á ári. Vetnisbílar gætu farið að koma á almennan markað í kringum árið 2025.“ 

Etanól brúar bilið 
Hvað varðar umhverfisáhrif og öryggi, segir Egill etanólið endurnýjanlegt eldsneyti, sem losar 75% minna koldíoxíð en sambærilegir bensínbílar. Vetnisbílarnir losi enn minna en séu einfaldlega ekki til. 
„Etanólbílar brúa bilið þangað til vetnisbílarnir koma á markað. Þeir eru ekki tilbúnir en við þurfum að aðhafast eitthvað í dag. Við höfum skoðað þetta mjög lengi og niðurstaðan er sú að það er ekki nein patent- eða draumalausn og það er líklegt að í framtíðinni verði margar lausnir á vandanum. Það sem er akkúrat núna, er etanól, lausn sem var hægt að innleiða hratt. 
Önnur lausn er metangas, sem er góð en mun aldrei breiðast hratt út vegna þess að það er erfitt að dreifa gasi. Þriðja lausnin er rafmagns/ bensínbíll, sem hefur tvo mótora. Hann er í eðli sínu bensínbíll sem hefur rafmótor til að styðja við og bensínvélina. 
Hann getur dregið úr eyðslu og mengun bílsins. Að lokum eru sparneytnu bensínog dísilbílarnir sem bæði eyða og menga minna. Þetta eru þær fimm lausnir sem við höfum þangað til við fáum vetnisbílana en það eru 20 til 25 ár í það.“ 

Spurningin um kostnað 
Þegar Egill er spurður hvort vetnisbílar séu framtíðin, segist hann ekki einu sinni viss um það. „Ástæðan er sú að vetnisbílarnir eru ekki endilega lausn í sjálfu sér. Það fer eftir því hvernig vetnið er framleitt. Ef maður fær vetni með því að brenna kolum, þá er bara búið að færa losun á koldíoxíði til. 
Eins og tæknin er í dag, fylgir því ákveðið orkutap. Þegar vetnið er loksins komið á bílinn til að knýja rafmótor, þá hefur tapast mikil orka á leiðinni en það er alltaf spurning hvort einhver lausn finnist á leiðinni til að draga úr þessu tapi. 
Þær lausnir sem verið er að skoða núna eru mjög háðar kostnaðinum við dreifingu. Það væri svo gríðarlega dýrt í dag að keyra, til dæmis í kringum landið. Mér skilst að kostnaður við vetni sem væri sambærilegt að orkuinnihaldi og einn lítri af bensíni mynd í dag kosta þúsund kall, á móti 120 krónum fyrir bensínlítrann.
“ Egill segir ekkert því til fyrirstöðu að panta etanólbíla til Íslands strax á morgun. „
Það sem, hins vegar, hindrar okkur í því er að við getum ekki keypt etanól á Íslandi. Etanól er vökvi sem auðvelt er að dreifa og í Svíþjóð var það stjórnvaldsákvörðun að bjóða fóki upp á þann valkost að keyra um á umhverfisvænni bílum. 
Módelið og reynslan er til hjá þeim og þarf ekkert annað en að taka upp símann og spyrja hvernig þeir fóru að þessu.“ 

Eyðslumunur 
Hestöflin í etanólbíl eru þau sömu og í bensínbíl. Eini munurinn, segir Egill er að það er eilítið minna orkuhald í hverjum lítra af etanóli en bensíni. „Það þýðir að hann eyðir meira, eða kemst styttra á samsvarandi magni. Munurinn nemur um 25 prósentum. Til að vera jafnsett bensínbíl, þyrfti etanólið því að vera 25% ódýrara. Í Svíþjóð er það nálægt því, en getur á köflum skeikað einhverju vegna rokkandi verðs á bensíni. 
En þarna kemur að stjórnvöldum. Ef þau meina eitthvað með því að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti og fjölga öðrum kostum, þá þyrftu þau helst að vera með engin gjöld á nýju eldsneyti, eða setja t.d. koldíoxíðskatt á jarðefnaeldsneyti til að hvetja fólk til að færa sig á milli.
" Egill segir hægt að setja 5-10% etanólblöndu í alla þá bensínbíla sem eru í umferðinni í dag en ekki sé hægt að breyta bensínvélum í etanólvélar. Etanólbílar ganga fyrir 85% blöndu og þessa tækni yrði að innleiða hér hægt og sígandi".

Talið er að jöklar á Íslandi muni hopa hratt af völdum loftslagsbreytinga á næstu áratugum og hverfa að mestu á næstu 100-200 árum. 
Þetta mun hafa í för með sér breytingar á afrennsli frá jöklum. 
Heildarafrennsli mun aukast, leysingartímabilið hefst fyrr að vori og stendur lengur fram á haustið og dægursveifla rennslisins mun væntanlega vaxa. Samkvæmt fréttavef BBC hefur hátt eldsneytisverð knúið íbúa á eyjunni Bougainville, sem tilheyrir Papúa Nýju-Gíneu, til að leita nýrra leiða varðandi orkuöflun. 
Hafa eyjaskeggjar þróað smáar olíuhreinsunarstöðvar þar sem þeir framleiða olíu úr kókoshnetum og nýta í stað dísilolíu. 
Vistvæn lausn sem vakið hefur alþjóðlega athygli. 
Um 20% af raforkunotkun heimila er nýtt til lýsingar. 
Með því að skipta út glóperum fyrir svokallaðar sparperur, slökkva á eftir sér og nota málningu í ljósum lit má draga verulega úr raforkunotkun til lýsingar. 
Loftslagssveiflur og breytingar hafa áhrif á vatnsbúskap sem aftur hefur áhrif á orkugeirann. 
Því þurfa orkufyrirtæki að fá upplýsingar um möguleg áhrif veðurfarsbreytinga á rennsli vatnsfalla, flóð og þurrka, vegna afkastagetu virkjana og öryggi stíflna.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga