Greinasafni: Orka
Saga raforkukerfisins

Fyrsta virkjun á Íslandi var tekin í notkun 1904 í Hafnarfirði, næstu virkjanir voru reistar í Eskifirði og á Patreksfirði 1911. Árið 1934 voru rafeiturnar orðnar 38 talsins í stærstu kaupstöðum og kauptúnum landsins. Samtals var uppsett afl þessara stöðva um 5 MW þar af 4,1 MW í vatnsaflsstöðvum og 0,9 MW í dísilstöðvum. Elliðaárstöðin í Reykjavík var stærst með um 3 MW. Orkuvinnslan var orðin um 11 MW/ári þegar hér var komið sögu. Fólksfjöldi á landinu í lok 1933 var 113.366.
Orkunotkun á mann árið 1933 var því um 97 kWh á mann á ári.

Árin 1934 - 1963 voru kölluð ár samvirkjunar og samveitna af raforkumálastjóra, þá Jakobi Gíslasyni. Upphaf þess markaðist af lögum um Sogsvirkjun árið 1933. Um 1960 voru komnar 5 stórar samveitur og nokkrar minni. Stærstu veitusvæðin voru á Suðvesturlandi og Miðnorðurlandi, og þar voru jafnframt stærstu aflstöðvarnar í Soginu og í Laxá í Aðaldal. Samanlagt afl rafveitna árið 1963 var um 147 MW, þar af var vatnsafl um 110 - 120 MW og afgangurinn dísilafl sem dreift var á alla þettbýlisstaði landsins, og orkuvinnslan um 640 GWh/ ári. Fólksfjöldi á landinu í lok 1963 var 186.912.
Orkunotkun á mann árið 1963 var því um 3424 kWt/mann á ári.
Orkunotkunin hefur því um það bil 35-faldast á þessu tímabili og þetta er áður en stóriðjan fer af stað. Þessi mikla aukning raforkunotkunar kemur til þegar farið er að nýta raforku til hitunar t.d. í eldamennsku allri, þvottum og þess háttar, auk þess sem iðnaður sem ekki var inni í myndinni áður kemur nú inn.

Búrfellsvirkjun

Jakob taldi þriðja þróunartímabilið hefjast 1964 og kallaði það tímabil landsvirkjunar og landsveitu. Þetta tímabil einkenndist af samtengingum samveitna og að hagkvæmni stærðarinnar nýttist. Búrfellsvirkjun kom inn í orkuframleiðsluna 1970, með um 210 MW uppsett afl og um 1500 MW/ári í framleiðslugetu.
Álbræðslan hófst þetta ár og notaði hún fyrsta árið um 615 GWt, þ.e. um helming allrar orkuframleiðslu á landinu en 1973 fór orkunotkunin í um 1200 GWh og hefur verið í kringum 1400 GWh frá 1987.
Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga kom í rekstur 1979 og notaði fyrsta árið um 173 GWh, sem óx svo ár frá ári og var komið í um 500 GWh á ári 1982 og hefur farið mest í um 615 GWh ári.
Áburðarverksmiðjan í gufunesi notar að jafnaði um 140 Gwh á ári frá 1970, en þar áður um 70 GWh á ári, en hún hóf framleiðslu í kringum 1953.
Fyrsta 220 MW háspennulínan var reyst vegna álverksmiðjunnar, frá Búrfelli til Geitháls og þaðan til verksmiðjunnar. Þetta er jafnframt mikill öryggisþáttur fyrir alla raforkuafhendingu á suðvesturhorninu.

Stofnun Landsvirkjunar 1965 var fyrsta skrefið. Árið 1974 hófst samtenging samveitusvæðanna með lagningu háspennulínu milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Árið 1977 var lokið tengingu milli Suðvesturlands og Miðnorðurlands, árið 1978 til Austurlands, 1980 til Vestfjarða og hringtengingu landsins var lokið 1984 með lagningu línunnar milli Sigölduvirkjunar og Hóla við Höfn í Hornafirði . Með hringtengingu byggðalínunnar svonefndu árið 1984 má segja að þessu tímabili ljúki og samtímis hafi verið útrýmt innfluttum orkugjöfum til raforkuvinnslu. Á þessu tímabili varð landið eitt orkuveitusvæði með yfirtöku Landsvirkjunar á byggðalínukerfinu af ríkinu í ársbyrjun 1983, og hinn 1. júlí 1983 tók gildi samningur um sameiningu Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar. Jafnframt varð Akureyrarbær eignaraðili að Landsvirkjun. Nýting jarðhita til raforkuvinnslu hófst með fyrstu jarðhitavirkjuninni við Bjarnarflag árið 1970. Raforkuvinnsla í Svartsengi hófst árið 1977 og Kröfluvikjun var gangsett árið 1978.

Árið 1992 var raforkuframleiðslan um 4.540 GWh, þar af 94,8 % frá vatnsaflsstöðvum, 5,1 % frá jarðhitavirkjunum og 0,1 % frá olíustöðvum. Fólksfjöldi í lok árs 1992 var 262.199.
Orkunotkun á mann árið 1992 var því 17.315 kWh á mann á ári.

Svo sem fram kemur hér fyrir ofan höfðu Bæjarfélög á Íslandi yfirleitt komið sér upp dísilvélum fyrir síðari heimsstyrjöld til raforkuvinnslu, þar sem ekki var möguleiki á vatnsafli. Eitthvað var einnig farið að leggja af háspenntum (11 kV) línum til þess að dreifa rafmagni í næstu sveitir. En með þingsályktun 1954 um rafvæðingu sveitanna, svonefndri 10 ára áætlun er stefnt að því að allir íbúar landsins eigi aðgang að rafmagni til heimilisnotkunar og í atvinnurekstur. Rafvæðingu sveitanna lauk á níunda áratugnum, og er talið að þá hafi 99,99 % landsmanna fengið rafmagn frá almenningsrafveitum.
Sú meginstjórnun var tekin upp með raforkulögum frá 1946 að orkuvinnsla og flutningur eru skilin frá dreifingu og sölu raforku, og hefur þetta meginatriði haldist nokkurn veginn. Þannig voru með þessum lögum Rafmagnsveitur ríkisins settar á laggirnar til að annast orkuvinnslu og flutning raforku, en Héraðsrafmagnsveitur ríkisins til þess að annast dreifingu og sölu raforku til notendanna. Sveitarfélög sem ráku eigin rafveitur héldu sínum einkarétti og höfðu forgangsrétt til einkaleyfis á raforkusölu.
Með orkulögunum frá 1946 öðlaðist ríkið einkarétt til vinnslu orku, þetta ákvæði var fellt úr gildi með nýjum orkulögum 1967.

Með tilkomu fiskfrystingar og flökunar á stríðsárunum, óx þörf fyrir rafmagn til reksturs verulega. Almenn heimilisnotkun, það er önnur en lýsing, kom þá upp jafnframt og óx mjög hratt með tilkomu heimilistækja ýmisskonar sem algeng urðu á þessum árum, s.s. eldavélar, ísskápar, þvottavélar o.fl.. Á þessum árum var talið að raforkunotkun á mann á ári tífaldaðist við að fara frá lýsingu eingöngu til eldunar.
Þegar orkunotkun fór að vaxa bæði vegna notkunar í iðnaði og svo vegna aukinnar notkunar á heimilum, þar sem rafmagnstæki komu til í hraðvaxandi mæli í og eftir stríð, var farið að leita eftir ódýrari lausnum til að fullnægja sívaxandi raforkuþörf.

Hugmyndir um vatnsvirkjanir og framkvæmdir við slíkar voru því mjög ofarlega á baugi og á árinu 1956 var t.d. gerður samningur við Tékkóslóvakíu um afhendingu véla og búnaðar fyrir Grímsárvirkjun, Mjólkárvirkjun, Reiðhjallavirkjun og Smyrlabjargaárvirkjun.
Á þeim svæðum, sem þessar virkjanir framleiddu orku fyrir, var fiskvinnsla mikil og raforka framleidd með olíu.
Grímsá, Mjólká og Reiðhjalli voru virkjuð fyrir 1960, og orkuflutningur til hinna dreifðu byggða hafin.
Smyrlabjargará í Austurskaftafellssýslu var svo gangsett 1969.
Gönguskarðsá var virkjuð 1949, Rjúkandi á Snæfellsnesi 1954 og Lagarfoss á Héraði 1975.
Uppbygging raforkukerfanna var gjarnan með þeim hætti á meðan að fyrst og fremst var hugsað um lýsingu, að kerfin voru teygð í allar áttir eftir byggð, svo að allir gætu verið með, og kom ekki að sök á meðan orkunotkun var lítil. Orkunotkun á mann á ári 1933 var um 97 kWh.

Eftir því sem orkunotkun óx fór spennufall og tíðnilækkun að segja til sín, því að raforkudreifikerfi þau sem fyrir voru, voru miðuð við litla orkunotkun og jafnvel svo teygð fyrir hana að þau voru fullnýtt víða. Þegar svo svara þurfti eftirspurn í raforkunotkun, sem óx mjög hratt á þessum árum, kom í ljós að ekkert minna en gagnger uppbygging raforkudreifikerfa á mörgum svæðum var nauðsynleg enda var orkunotkun á mann 1963 komin í 3424 kWh.

Við þessar aðstæður leituðu mörg þéttbýlissvæði til RARIK um að þeir taki að sér uppbyggingu og rekstur rafveitunnar. Oft þurfti að byggja raforkukerfi bæjanna upp frá grunni til þess að hægt væri að tryggja lágmarksgæði í spennu og tíðni. Víða skeði þetta áður en malbiksöldin reið í garð og var að því leyti léttara, en mikið verk samt.
Samningar um að RARIK tæki við rekstri rafveitna í þéttbýliskjörnum voru einkum í vinnslu og frágangi á árunum 1958 -1961 á stórum svæðum. Samræming í uppbyggingu hinna ýmsu svæða var því mjög í takt þessi ár.

Þau bæjarfélög sem voru utan við RARIK voru mörg og höfðu yfirleitt þá sérstöðu að hafa eigin orkuvinnslu frá vatnsaflsvirkjunum, s.s. Reykjavík, Ísafjörður, Akranes, Borgarnes, Patreksfjörður, Reyðarfjörður, Akureyri og ef til vill fleiri. Veitur þessara bæjarfélaga voru gegnumsneitt vel upp byggðar. Samvinna og samanburður var auðvitað til staðar á ýmsan hátt og ýtti undir samræmingu hvað varðaði búnað s.s. spennuval á dreifikerfum og fleira. Ýmsar tilraunir voru gerðar á þessum árum með dreifa raforku sem víðast, með sem minnstum kostnaði. T.d. voru eins-vírs línur notaðar talsvert mikið á 11 kV, með jörð sem bakaleiði. Einnig voru 19 kV línur notaðar á nokkrum stöðum til þess að brúa bil á milli stökks úr 11 - 33 kV eða 66 kV, þegar spennufall var orðið allt of mikið fyrir 11 kV línuna. Fyrrverandi forstjóri Rafmagnsveitna ríkisins, Eiríkur Briem, sagði einhvern tíma að íslendingar væru mestir sérfræðingar í að flytja litla orku langa leið.

Samtenging svæða, bæði til að dreifa orku og skapa aukið rekstraröryggi fyrir notendur og aukin gæði þess rafmagns sem afhent var, hvað varðaði spennu og tíðni, hefst með tilkomu nýju virkjananna og má segja að ljúki a.m.k. að mestum hluta þegar Byggðalína, þ.e. lína í kringum landið, kom í notkun á áttunda áratugnum.

Margar sögur voru til um viðbrögð rafveitumanna, þegar alls staðar komu kvartanir um lága spennu, og að ekki væri hægt að elda o.sv.frv., sem ekki var óalgengt t.d. á Þorláksmessu og aðfangadag. Eitthvert besta svarið sem alveg þaggaði niður kvartanir í bæjarfélagi nokkru, var að vélgæslumaðurinn, sem orðinn var leiður á kvabbinu sagði að það væri allt gert sem hægt væri og að rafveitustjórinn væri meira að segja farinn að snúa með vélinni, með sveif, til að auka rafmagnið!

Önnur smásaga, sem sýndi að menn gerðu sér einhverja grein fyrir erfiðleikum í flutningi raforku, er frá þeim tíma þegar Skeiðsfossvirkjun var tekin í notkun. Símasamband var þá ekki með sama hætti og er í dag, og þegar hin stóra stund rann upp að Skeiðsfossvirkjun tæki við fyrir dísilvélarnar, var frá málum gengið þannig, að á ákveðnum tíma yrði dísilrafstöðinni á Siglufirði slegið frá netinu og línurofi frá Skeiðsfossi settur inn. Ákveðnum mínútufjölda síðar skyldi svo línurofi fyrir línuna til Siglufjarðar settur inn í Skeiðsfossi. Allt var nákvæmlega tímasett, en eitthvert hik var á aðgerðum, og sem menn stóðu í svarta myrkri inni í dísilrafstöðinn á Siglufirði og ein mínútan leið af annrri þá heyrðist í einum borgaranna sem þarna var við : "Skyldi hún ekki ætla að hafa sig yfir Skarðið?" Skarðið var auðvitað Siglufjarðarskarðið, sem allir vissu hversu erfitt gat verið að fara um.


Þegar leið að lokum annars þróunartímabils orkuvæðingar á Íslandi það er fyrir 1963 og í byrjun þriðja þróunartímabils eftir 1963 verður sú breyting á afstöðu fólks /íbúa landsins- til rafvæðingarinnar að frá því að mæta starfsmönnum brosandi og með þakklæti í orðum og æði vegna komu ljóss inn á heimilin kemur fram vaxandi andstaða gegn frekari framkvæmdum og kröfur um bætur vegna notaðs lands umfram það sem áður var urðu algengar. Auk þess fóru náttúruverndarsjónarmið að koma upp á yfirborðið og voru notuð til þess að hafa áhrif á hvað var gert og til að sýna hvað var eyðilagt og hvers virði það var talið.
Tekið af vef Rafteikningar
Rafteikning hf - Suðurlandsbraut 4 - IS-108-Reykjavík - Iceland
Phone: +(354) 520 1700


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga