Greinasafni: Orka
Vinnsla og notkun raforku
Vinnsla og notkun raforku

Rafvæðing á Íslandi hófst í byrjun 20. aldar. Fyrsta rafstöðin sem þjónaði almennum notendum var 9 kW vatnsaflsstöð sem Jóhannes Reykdal reisti í Hafnarfirði árið 1904. Á fyrstu áratugum aldarinnar komu ýmis sveitarfélög sér upp rafstöðvum og stórt skref var stigið þegar Reykjavíkurbær lét virkja Elliðaárnar, en fyrsti áfangi þeirrar virkjunar var reistur 1921. Á fjórða áratugnum kom síðan virkjun Ljósafoss í Sogi og Laxár í Þingeyjarsýslu. Á árunum eftir seinna stríð jókst raforkunotkun mikið, m.a. vegna aukinnar notkunar rafmagns til eldunar.

Það var þó ekki fyrr en á sjötta áratugnum sem allmargar nýjar virkjanir bættust við auk stækkunar þeirra sem fyrir voru. 

Heildarafl vatnsafls- og jarðvarmavirkjana

Mynd - Heildarafl vatnsafls- og jarðvarmavirkjanaMyndin sýnir uppbyggingu raforkuvera frá því um miðja síðustu öld. Virkjanir stærri en 5 MW eru sérstaklega tilgreindar. Algjör umskipti urðu þegar Búrfellsvirkjun var reist árið 1969 vegna álversins í Straumsvík, en síðan hefur raforkuvinnsla til stóriðju aukist mikið og árið 2002 nam hún um 65% af heildarvinnslunni. Þetta hefur krafist allmargra stórra virkjana, en auk Blönduvirkjunar sem tekin var í notkun 1991 hafa verið byggðar fimm virkjanir á vatnasvæði Þjórsár og Tungnár.  

Sumarið 2003 hófust framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun, sem er virkjun Jökulsár á Dal og Jökulsár í Fljótsdal í tengslum við byggingu álvers á Reyðarfirði. Uppsett afl virkjunarinnar verður 630 MW og áætluð orkuvinnsla 4.460 GWh á ári. Raforkuvinnsla árið 2002 nam alls 8.411 GWh eða um 29.300 kWh á hvern íbúa landsins. Frá árinu 2001 hefur raforkunotkun á hvern íbúa verið meiri á Íslandi en í nokkru öðru landi, en áður hafði Noregur um langt skeið skipað þetta forystusæti. 

Raforkuvinnsla á Íslandi 2002

 Tafla: Skipting raforkuvinnslunnar á orkugjafa árið 2002

Vatnsorka hefur frá upphafi staðið undir yfirgnæfandi hluta raforkuvinnslu hér á landi. Á árunum 1987-2002 tvöfaldast raforkunotkunin.  Raforkuvinnsla með olíu var nokkur á árunum eftir seinni heimsstyrjöld og aftur á tímabilinu frá 1965 fram til 1984 þegar hringtengingu landsins með byggðalínunum lauk, en síðan hefur olía nánast eingöngu verið notuð í varastöðvum.

Raforkuvinnsla með jarðhita hefur aukist mikið á undanförnum árum. Elsta jarðgufuvirkjunin er við Námafjall (3 MW), en hún var gangsett árið 1969. Kröfluvirkjun, sem starfað hefur síðan 1977, var stækkuð úr 30 í 60 MW árið 1997 og í undirbúningi er að auka afl virkjunar­innar um 40 MW til viðbótar í næsta áfanga. Einnig eru uppi hugmyndir um að reisa nýja virkjun á svæðinu. Í Svartsengi var settur upp nýr 30 MW hverfill í árslok 1999, en við það jókst heildarafl virkjunarinnar til raforkuvinnslu í 46 MW. Á Nesjavöllum hófst raforkuvinnsla í árslok 1998 í tveimur 30 MW hverflum og á árinu 2001 var virkjunin stækkuð í 90 MW með uppsetningu þriðja hverfilsins. Á Húsavík hófst raforkuvinnsla með jarðhita um mitt ár 2000 þegar 2 MW tvívökva rafstöð af Kalina-gerð var tekin í notkun, ein sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Hún nýtir rúmlega 120°C heitt vatn niður í um 80°C og fullnægir um þremur fjórðu hlutum raforkuþarfar á Húsavík. Frá rafstöðinni fer hluti af heita vatninu inn á dreifikerfi hitaveitunnar til almennra nota.

Orkustofnun:  Orka Íslands


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga